26.10.1954
Neðri deild: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (2133)

61. mál, togaraútgerð ríkisins

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. um ríkisútgerð togara til atvinnujöfnunar er eitt þeirra mála, sem vakti strax mikla athygli almennings, þegar það kom fram sem nýmæli hér á Alþingi. Af þeim undirtektum, sem málið fékk þá, mátti strax ráða, að hér væri á ferðinni eitt þeirra mála, sem ekki er hægt að drepa, hversu oft sem það er fellt í sölum Alþingis. Slík mál eru þráfaldlega samþykkt af fólkinu í landinu, og endanlega brotnar svo vígi afturhaldsins, mótspyrnan gegn þeim, niður vegna atkvæðahræðslu fulltrúa þess fólks, sem áður hefur gengið málunum á hönd. Á þetta lokastig virðist þetta mál nú vera að komast. Umræður um það hafa þegar farið fram hér á Alþ. í sambandi við önnur þingmál, og þingmenn a. m. k. úr fjórum þingflokkum hafa lýst sig fylgjandi samþykkt þess. Fulltrúar fimmta þingflokksins hafa lýst átakanlega brýnni þörf þess, að gerðar verði ráðstafanir til að fyrirbyggja atvinnuleysi og til þess að sjá illa hagnýttum fyrirtækjum fyrir hráefni, og hafa látið þess getið, að engin fjarstæða sé að ræða um ríkisútgerð togara í því sambandi. Það er því ekki hægt að ætla annað af ræðum manna hér en að málið hljóti að sigla hraðbyri yfir allar Illurastir nefnda og verða afgreitt sem lög jafnvel snemma á þessu þingi. Atvinnumálanefndir milli tíu og tuttugu héraða hafa skorað á Alþ. og ríkisstj. að samþykkja frv., og atvinnumálanefnd ríkisins beindi síðan þeim tilmælum til hæstv. ríkisstj. fyrir nálega ári, að hún beitti sér fyrir framgangi málsins. Síðan hafa mörg verkalýðsfélög, sjómannafélög, þing- og héraðsmálafundir og nokkrar bæjar- og sveitarstjórnir sent Alþ. áskoranir um að samþykkja frv., og árangurinn er vaxandi fylgi við málið einnig hér á Alþingi. Hefur það aldrei fengið eins almennar undirtektir á þingi og nú og það því er virðist nálega án tillits til flokka.

Efni frv. er þetta, eins og margrakið hefur verið, að ríkið skuli kaupa og gera sjálft út ekki færri en fjóra togara af þeirri stærð og gerð, sem að áliti reyndustu útgerðarmanna sé talin heppilegust til öflunar hráefnis á heimamiðum fyrir hraðfrystihús og önnur fiskiðjuver, sem nú séu illa hagnýtt vegna hráefnaskorts. Þessum togurum ríkisins er svo ætlað það hlutverk að jafna atvinnu í kaupstöðum og kauptúnum landsins með þeim hætti, að þeir séu látnir leggja þar afla á land, sem atvinnuleysi gerir vart við sig og mikil þörf er fyrir aukna atvinnu á hverjum tíma. Einnig má útgerðarstjórnin taka tillit til þess aukahlutverks þessarar ríkisútgerðar, þegar hvergi er mikið atvinnuleysi, að ríkistogararnir leggi þá upp afla, þar sem fiskiðjuver standa ónotuð eða illa notuð vegna þess, að hráefni vanti til vinnslu. Við flm. teljum það vera eins sjálfsagt, ef ekki sjálfsagðara, að ríkið flytji verkefni til fólksins, sem er iðjulaust og líður skort jafnvel, þar sem það býr, eins og það þykir nú vera sjálfsagt, að ríkið flytji lífsnauðsynjar til þessa sama fólks, en það gerir Skipaútgerð ríkisins og hefur lengi gert.

Þeirri mótbáru, að ríkið geti orðið fyrir töpum af slíkri ríkisútgerð togara, mætum við með þeim rökum, að ekkert sé þjóðfélaginu jafndýrt og að láta fólkið ganga atvinnulaust. Er sýnt fram á það í grg., að 2000 manns, sem gangi atvinnulausir í fjóra mánuði, kosti þjóðfélagið 25–30 millj. kr. í glötuðum vinnuverðmætum. Og slíkt atvinnuleysi er ekkert tilbúið dæmi. Það er ástand, sem hefur heimsótt þjóðina árum saman, án þess að ríkisvaldið hafi þó talið ástæðu til að gera róttækar ráðstafanir til þess að afstýra því. Í þessu sambandi mætti spyrja, hvort ríkið hafi fundið nokkrar aðferðir til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi, sem ekkert kosti ríkissjóð. Mér dettur í hug t. d., hvað hafa kostað aðgerðir ríkisins til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi eða draga úr hörmungum atvinnuleysis í smákauptúnum eins og t. d. í Drangsnesi eða á Skagaströnd. Hefur það ekki kostað milljónir bara út af fyrir sig? Og þó má heita, að þau verkefni séu óleyst fyrir framtíðina enn þá. Eða hvaða leiðir aðrar hafa yfirleitt fundizt, sem færar séu til að útrýma atvinnuleysi, án þess að bæði ríkissjóður og sveitarfélög verði að kosta þær aðgerðir dýru verði? Slíkar leiðir eru víst ekki fundnar enn. Hins vegar er það sannfæring okkar flm., að þetta sé þó skynsamlegasta leiðin, því að hún eykur framleiðslutekjur þjóðarinnar, bætir rekstrarafkomu margra þýðingarmikilla atvinnutækja og er einna líklegasta leiðin til þess að skapa jafnvægi í byggð landsins — en margir hafa það nú á vörunum — og jafna atvinnuaðstöðu manna, þar sem þeir búa, en atvinnuöflun heima fyrir verður alltaf affarasælust og notadrýgst, bæði fyrir einstaklinga og þjóðfélagið.

Ég legg til, að málinu verði, þegar þessari umr. lýkur, vísað til hv. sjútvn.