26.10.1954
Neðri deild: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (2137)

64. mál, byggingasjóður kauptúna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég er viss um það, að hv. flm. þessa frv. meina það eitt með flutningi þess að bæta að einhverju leyti úr húsnæðisöngþveiti smáþorpanna í landinu. Þau eru, eins og skrá sú yfir kauptún, sem fylgir frv., sýnir, rúmlega 50 talsins. Og meginhluti þeirra hefur fengið ákaflega litla hjálp frá þjóðfélagsins hendi til þess að endurnýja híbýlakost fólksins þar. En kannske er hvergi á landinu meiri þörf á því en einmitt í sjóþorpunum.

En við fljótlegan yfirlestur á frv. sé ég ekki, að sú hjálp, sem þarna er lagt til að þjóðfélagið veiti, sé í öðru fólgin en því, að fram verði lagðar úr ríkissjóði 10 millj. kr., þar af 5 millj. strax, og mótframlag af hendi sveitarfélaganna, sem kynnu að vilja notfæra sér þessi væntanlegu lög, með 5% upphæð af sveitarútsvörunum þar. Þetta geta að vísu orðið um 20 millj. kr., og er það fé, sem nú er ekki lögfest að fram skuli lagt, að öðru leyti en því, að síðar nefnda upphæðin, 5% af útsvörunum, kynni að einhverju leyti að koma í staðinn fyrir það gjald, sem fólkið í kauptúnunum á nú að greiða, ef byggingarfélag verkamanna hefur verið stofnað og ákveðið að notfæra sér lögin um verkamannabústaði. En það er gert ráð fyrir því, að þau sveitarfélög, sem kysu heldur að njóta réttinda samkv. þessu frv., hætti þá að inna skyldurnar af hendi gagnvart byggingarsjóði verkamanna með föstu gjaldi á íbúa, sem mig minnir að sé 6–9 kr. á mann.

Það er þannig ástatt í landinu, að lágmark íbúðafjölda, sem þyrfti að byggja á ári til þess að endurnýja húsakostinn eða réttara sagt halda honum við á nauðsynlegan hátt, þannig að húsnæðisleysið aukist ekki, er a. m. k. 500 íbúðir. Og 500 íbúðir, sem gert væri ráð fyrir að hver kostaði 170 þús. kr., kosta hvorki meira né minna en 85 milljónir. Fátækt fólk þarf vissulega að fá ekki minna en 75% af þeirri upphæð að láni og þyrftu þá að vera til reiðu á hverju ári um 64–65 millj. kr. til lánveitinga til þess að endurnýja íbúðarhúsnæði í landinu. Það er fjarri því, að þannig sé séð fyrir málum nú. Byggingarsjóður verkamanna er vanræktur og afræktur, og virðist hvorki vera til að dreifa, að stjórn sjóðsins hafi nokkurn áhuga eða ríkið leggi honum til nándar nærri nægilegt fé, til þess að hann geti gert skyldu sína, og er það í raun og veru rakin hörmungasaga, eiginlega hvar sem sjóðurinn hefur haft viðskipti við byggingarfélög verkamanna úti um land, vanræksla af hendi sjóðsins og vanefndir. Bygging íbúða stendur yfir árum saman, vegna þess að það stendur upp á sjóðinn að gera skyldu sína, þó að fátæklingarnir, sem eiga að fá íbúðirnar, hafi sveitzt blóðinu til þess að standa við sínar skuldbindingar. Smáíbúðalánin eru gersamlega ófullnægjandi, þó að þau hafi í einstökum tilfellum veitt aðstoð. Ef efnahagur viðkomandi manns, sem lánið fékk, var sæmilegur og hann hefur aðstöðu til allverulegra lána annars staðar, þá getur það komið að gagni, en í mörgum tilfellum hafa smáíbúðalánin, svo ófullnægjandi sem þau eru, sett fátækt fólk í stórkostlegan vanda og neytt marga, sem hafa haldið, að þarna væri að opnast möguleiki til þess að byggja, til þess að ganga frá öllu saman hálfgerðu og missa það litla, sem viðkomandi átti, þegar hann hóf byggingarstarfsemina. Helzt hafa smáíbúðalánin komið að gagni til þess að hjálpa mönnum til að ganga frá ófullgerðu húsnæði, að koma járnþaki á hús, sem búið var að byggja fyrir kannske mörgum árum, að múrhúða hús utan og þess konar, lagfæra ýmislegt, sem ófrágengið var innan, og að þessu leyti hafa þau haft gildi, en meira hrökkva þau ekki. Hámark lánanna er 30 þús. kr., og þau hafa verið frá 20–30 þús. kr. á íbúð. Það sér hver maður í hendi sér, að fátæklingar koma ekki upp íbúð yfir höfuðið með slíkri aðstoð frá því opinbera, og veðdeild Landsbankans er gersamlega óvirk og hefur verið um langan tíma. Þetta er aðstoðin, sem fólkinu í landinu er veitt til þess að endurnýja algerlega óhæfan, gamlan, úreltan húsakost, sem hvergi nærri svarar heilbrigðiskröfum eða neinum öðrum kröfum tímans, og um annað er ekki að ræða.

Það er því ekki að ófyrirsynju, að fram komi frv. til laga, sem eigi að veita einhverja aukna aðstoð, og það er þessu frv. sjálfsagt ætlað. En ég hygg, að ég geti í stuttu máli gert hv. þm. nokkuð ljóst, að sú hjálp, sem hér er gert ráð fyrir, hrekkur líka skammt, þó að hún eigi ekki að ná til annarra en þeirra 50 kauptúna, sem hér eru upp talin með frv.

Við skulum nú gera ráð fyrir því, að íbúðarhúsnæðisástandið í kauptúnunum 50 sé þannig, að það væri nægileg endurnýjun að byggja tvær íbúðir á ári í hverju kauptúni, bara tvær íbúðir að meðaltali á ári, og það væru 100 íbúðir, sem þyrftu að koma til þess að fylla skörð þeirra íbúða, sem hverfa sem óhæfar árlega. Það er sannarlega ekki mikið viðhald og ekki gengið fast að því verki að endurnýja húsakostinn í þessum 50 kauptúnum, þó að gert sé ráð fyrir þessu. En 100 íbúðir, sem hver um sig kostaði 170 þús. kr., það eru byggingarframkvæmdir upp á 17 milljónir í þessum 50 þorpum. Ég get varla ímyndað mér, að hægt væri að fara hægar í sakirnar en að hvert kauptún fengi sem svaraði tveimur íbúðum á ári. En ef menn vildu vera enn þá hófsamari og fara niður í lágmarkið, þannig að það væri gert ráð fyrir einni íbúð í hverju kauptúni á ári, þá mundi það samt kosta 8.5 millj. kr., og 75% af því þyrftu að fást sem lánsfé með hagkvæmum kjörum, og fyrr en séð væri fyrir því með lagasetningu, væri ekki búið að leysa málið á neinn fullnægjandi hátt.

Ég tel, að gildi þessa frv. verði að meta út frá því, að hverju leyti það veiti meiri hjálp en nú sé heimil samkv. lögum um verkamannabústaði og l. um smáíbúðir. Ef þetta frv. veitir ekki hagkvæmari lán, ekki lán til lengri tíma, ekki lán með lægri vöxtum, og leggur ekki til nýtt lánsfé, sem er ekki fáanlegt samkv. hinum lögunum, sem í gildi eru, þá tel ég, að frv. sé til allt of lítils gagns og leysi ekki málið á viðunandi hátt. Og eins og ég sagði áðan, sé ég ekki, að það geri ráð fyrir auknu fjármagni til þess að leysa húsnæðisvandamálið út yfir þessar 10 millj. frá ríkinu og sams konar upphæð frá sveitarfélögunum. Það eru um 20 millj. á 25 árum, á aldarfjórðungi, en til þess að byggja tvær íbúðir í hverju kauptúni þarf 17 milljónir á ári.

Ég held, að þessi mál verði ekki leyst með þeirri fjárhagsaðstoð, sem byggingarsjóður verkamanna getur veitt, nema til hans sé lagt stórum meira fé árlega en nú er gert, að smáíbúðalánin líka verði hækkuð, miklu meira en tvöfölduð, og þeirri lánastarfsemi komið í eitthvert bankahorf, en ekki sem nein pólitísk útbýtingarstarfsemi, eins og hún hefur haft allt of mikinn keim af á undanförnum árum, og að veðdeild Landsbankans verði gerð virk. Það mundi ekki skaða, þó að þetta frv., sem mér finnst fara allt of skammt, yrði líka gert að lögum. En ég held, að það þyrfti að taka þetta mál allt öðrum tökum og fastari og reyna að koma þessu undir einn hatt, þannig að það væri sérstök bankastarfsemi, húsbanki, eins og Norðmenn hafa hjá sér, til þess að leysa þetta hlutverk fyrir sveitir, kauptún og bæi, og fyrr en þetta hefur verið gert, held ég að þessu máli verði ekki komið sómasamlega í höfn. Það er hér í raun og veru miklu stórfelldara verk að vinna hjá íslenzku þjóðinni en flestum öðrum þjóðum, sökum þess að núverandi kynslóð tók við landi, sem nálega eingöngu hafði byggingar úr lítt varanlegu efni — byggingar, sem voru miðaðar við þær húsnæðiskröfur, sem enginn telur nú viðhlítandi lengur.

Þetta mál þarf að leysa á tiltölulega skömmum tíma, þ. e. a. s. að því leyti sem snertir þann rýra arf, sem tekið var við, og stórvaxandi þjóð þarf líka að sjá fyrir kröfum komandi tíma í þessu efni, en hvorugu þessu hlutverki hefur verið sinnt á neinn fullnægjandi hátt.