26.10.1954
Neðri deild: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (2142)

64. mál, byggingasjóður kauptúna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hafa orðið nokkrar umr. um þetta mál, og það hefur raunar orðið svo um flest þau mál, sem borin hafa verið fram hér í þessari hv. d. og eitthvað snerta húsnæðismálin.

Það hefur líka borizt nokkuð í tal, hvernig sé um framkvæmd þeirrar löggjafar, sem þegar sé til, og að ýmsu leyti mjög góðrar, varðandi það að bæta úr húsnæðisvandræðunum. Ég held, að það verði líka varla hjá því komizt í sambandi við þessi mál að ræða um framkvæmdina á málunum, um leið og talað er um löggjöfina, enda vék hv. frsm. alveg sérstaklega að því einmitt nú í sinni síðustu ræðu. Ég held, að það sé nauðsynlegt, að hv. þm. geri sér sjálfir alveg ljóst, hvar vandræðin liggja í þessum málum.

Fyrir nokkrum árum þurftum við að heyja margra ára baráttu hér á Alþingi fyrir því að gefa landsmönnum frelsi til þess að mega byggja sér íbúðarhús. Ár eftir ár flutti ég hér frv. þess efnis, að landsmenn hefðu leyfi til þess að byggja sér íbúðarhús, og ár eftir ár var slíkt frv. fellt. Það þurfti gífurlegan þrýsting frá almenningi í landinu, áður en þeir tveir flokkar, sem nú fara með ríkisstj. í landinu, létu undan og fóru að einhverju leyti að gefa mönnum með lögum frelsi til þess að byggja íbúðarhús. Það var auðséð, hver pólitíkin var, og það kom þá meira að segja í ljós, hvaðan hún var runnin. Það sást greinilegast, þegar við hér í Nd. vorum búnir að samþ. frv. um að gefa mönnum frelsi til þess að byggja íbúðarhús og þegar fjhn. Ed. var búin að mæla með að samþ. þetta frv., en fjhn. Ed. eða meiri hluta hennar var síðan snúið og látinn, eftir að n. öll hafði gefið út nál. með frv., leggja á móti því, að frv. yrði samþ., og leggja til að vísa því til ríkisstj. Það var vitanlegt, hvað þá hafði komið í spilið. Það var fyrirskipun frá þeim, sem réðu yfir mótvirðissjóðnum og þar með yfir lánsfjárstefnunni í landinu, — fyrirskipun, túlkuð þá af Benjamín Eiríkssyni og fjárhagsráði. Þannig kom þá alveg greinilega í ljós, hvaðan andspyrnan var gegn því, að Íslendingar hefðu leyfi til þess að byggja sér íbúðir.

Það þótti ekki lengur fært eftir þetta hneyksli allt saman að standa fast á því að banna Íslendingum að byggja sér íbúðarhús, nema þeir fengju sérstakt leyfi sérstakrar n. hér í Reykjavík. En til hvaða ráðs var þá gripið til þess að reyna að hindra íslendinga í því að geta byggt sér hús? Það var gripið til þess ráðs að láta bankana neita mönnum um lán, þ. e. í staðinn fyrir að banna það með lögum, þá átti að banna það með bankaráðstöfunum, og það er það ástand, sem ríkir í dag. Það er ástand, sem ríkir í dag fyrir tilstilli núverandi ríkisstj. og á hennar ábyrgð og á ábyrgð meiri hluta þessa Alþ., sem ræður bönkunum og getur ráðstafað þeirra fé til útlána eftir því, sem lög frá þessari stofnun mæla fyrir. Hæstv. ríkisstj. hefur í þessu þá stjórn og sína fjármálastefnu að framkvæma skemmdarverk í íbúðarhúsabyggingum Íslendinga, hindra menn í því að geta byggt. Hún er á þennan hátt að framkvæma í laumi það sama sem hún áður var að framkvæma með lagasetningu, en samkvæmt sömu fyrirmælunum. Þess vegna talar hv. frsm. þessa máls hér um það, að það séu ýmis góð lög. sem sett hafi verið, en séu eingöngu á pappír. En hvernig stendur á, að þessi lög eru eingöngu á pappír? Það stafar af sjálfri lánsfjárstefnu ríkisstj.

Ég vil svo benda hv. þm. og stjórnarflokkunum á það um leið, að það er ekki til neins að segja við okkur, að það væri einhver óábyrg ráðstöfun að sjá um, að það væru nægileg lán hér á Íslandi handa þeim, sem vilja byggja. Ég vil benda á, hvaða ástand ríkir í þessum efnum t. d. í Danmörku, og ég býst ekki við, að þeim, sem stjórna fjármálum hérna heima á Íslandi, muni þykja Danir sérstaklega óvarkárir í slíkum fjármálum. Ef ég man rétt, þá fær maður nú í Danmörku út á íbúðarhús um 40% veðlán í bönkum, og til viðbótar lánar ríkisstj. sjálf, ríkissjóður, — ég er að vísu ekki alveg viss, en ég held, að það sé allt upp í 53%, sem ríkissjóður lánar sjálfur, þannig að það sé hægt að fá í Danmörku lán allt upp í 93% út á íbúðarhús, vegna þess að mönnum finnst þar í landi eðlilegt, að hið opinbera hjálpi til þess, að menn komi upp íbúðarhúsum, en banni mönnum það ekki annaðhvort með lögum eða með lánsfjárbanni.

Við skulum þess vegna gera okkur það ljóst, að það er stjórnarstefnan á hverjum tíma, sem ákveður það, hvort menn í landinu, hvort heldur það er í sveitum, kauptúnum eða kaupstöðum, fá að njóta þeirra réttinda, sem lög mæla fyrir.

Ég held þess vegna, að á þessari stjórnarstefnu þyrftum við að gera breytingu, og vil taka undir það, sem hv. frsm. var að segja í því sambandi, að það væri til lítils að hafa fögur lög og láta þau ekki vera í gildi. En þegar við höfum fyrir langa baráttu knúið það fram að fá góð lög frá Alþingi og þegar við höfum síðan slæma ríkisstj., sem svíkst um að framkvæma þessi lög, á meðan við horfum upp á, að lögin eru framkvæmd mun betur fyrir almenning t. d. í Danmörku, þá vil ég alvarlega vara menn við því, að þeir fari inn á þá braut að fara að minnka kröfurnar til laganna og til ríkisstj. í staðinn fyrir að taka ríkisstj. slíkum tökum, að henni sé kennt, að hún eigi að framkvæma þau lög, sem Alþingi setur.

Ég veit, að þetta vandræðaástand, sem núverandi stjórnarflokkar og ríkisstj. í sinni vitlausu lánsfjárstefnu halda uppi, mun skapa þá tilfinningu víða hjá almenningi: Ja, það er nú ekki til neins að láta sig dreyma um að fá lán til 42 eða 60 ára. Við skulum sætta okkur við, ef við fáum 10 eða 20 ára lán. Það er ekki til neins að láta sig dreyma um að fá lán upp á 2½% vexti. Við skulum þakka fyrir, ef við fáum lán fyrir 5½%.

Það er aðferð einmitt afturhalds og auðvalds í einu landi með því að skapa svona ástand að reyna að sætta fólk við að gera ekki jafnmiklar og réttmætar kröfur og menn gerðu fyrir 20 árum, bæði verkamenn og bændur, og gerðu réttilega. Við skulum þess vegna alls ekki koma stjórnarvöldunum upp á það að fara að gera lægri kröfur í þessum efnum, ekki heldur þegar við erum að gera kröfur fyrir kauptúnin, eins og hv. frsm. vill hér gera.

Það er alveg rétt, eins og hv. 3. landsk. þm. benti hér á áðan, að ófært er að rýra þann rétt, sem kauptúnin nú hafa, jafnvel þó að þau noti hann ekki, — þann rétt til lágra vaxta, til langra lána og til tiltölulega hærri prósentu af kostnaðinum en hér er gert ráð fyrir. Ég held fyrir mitt leyti, að það, sem hér er gert ráð fyrir í 6. gr., að lána út á kaupverð efnis, sé of lágt, að það eigi að vera hærra. En það er líka rétt hjá hv. frsm. þessa máls, að það er ekki nóg að gera kröfuna til þess, að þetta sé gott í lögum. Það þarf líka að gera kröfu til þess. að slík lög séu í gildi, að það sé þannig ríkisstj. í landinu. að hún láti lögin vera í gildi. (Gripið fram í.) — Já, það er alveg rétt. Það vantar almennilega ríkisstjórn til að framkvæma lög.

Ég held aftur á móti, að það sé alveg fyllilega réttmætt að athuga það, sem hv. frsm. minntist á, það getur vel verið, að ýmis af kauptúnunum sitji á hakanum, þegar það er sama stofnunin eða sama deildin með allt saman. Það er alveg sjálfsagt fyrir okkur, um leið og við erum að athuga það, á hvern hátt sé hægt að knýja þau lög í gildi, sem nú eru til, en svo að segja bara á pappírnum, hvort það sé e. t. v. svo í framkvæmdinni, að litlu kauptúnin verði út undan í slíku og stóru kaupstaðirnir gleypi það. Við vitum ósköp vel, að það er hætta á slíku, og það er alveg sjálfsagður hlutur að athuga slíkt. Og ég álít, að það, sem þurfi að gerast með till., sem ég efast ekki um að flm. meini allt gott með, það, sem þurfi að gerast í þessum málum, sé að vísu, að löggjöf sé endurbætt og athugað betur um framkvæmd þar á, en jafnhliða að þau lög, sem fyrir eru, séu sett í gildi. Ég vil fyrir mitt leyti vona, að um ýmislegt slíkt mætti takast góð samvinna milli þeirra í þessu þingi, sem vilja vinna að því, að jafnt lögin um byggingu verkamannabústaða, frumvarp, sem miðar að því að auka möguleika þeirra, sem eru í litlu kauptúnunum, til þess að geta byggt hjá sér, og þau lagafyrirmæli, sem þegar eru til um byggingar af hálfu bæjarstjórna til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði, en ekki heldur eru í gildi nema á pappírnum sem stendur, — ég vildi ákaflega gjarnan óska, að um þessa hluti mætti takast gott samstarf.

Ég vil hins vegar minna á, um leið og þetta mál fer til nefndar, að dálítið er varasamt í 3. gr. frv. um stjórnina, sem þarna er fyrirhuguð. Við verðum að muna það, að reynt er yfirleitt með þeim lagafyrirmælum, sem nú eru í gildi um byggingar, að hafa nokkuð demókratískt snið á þessari hjálp þess opinbera. Í stjórn byggingarsjóðs verkamanna eru t. d. kosnir fimm menn með hlutfallskosningu hér á Alþingi. Hér er lagt til að kjósa tvo menn. Ég verð að segja það hreinskilnislega, að reynslan í sambandi við smáíbúðahúsin og lánin til þeirra, sá háttur, sem tekinn var upp, þegar tveir menn voru útnefndir, annar form. Framsóknarfélagsins í Reykjavík og hinn form. íhaldsfélagsins í Reykjavík, til þess að útdeila og það mikið til nokkru fyrir kosningar öllum lánum til smáíbúða á landinu, var hneyksli og til skammar. Allt, sem að einhverju leyti minnir á eitthvað slíkt, á ekki að eiga sér stað. Menn eiga að hafa sama rétt, hvaða pólitíska skoðun sem þeir hafa, hvar sem þeir búa á landinu, í kauptúni, kaupstað eða hvar sem er. Það hefur upprunalega verið gengið þannig frá á Alþingi um kjör í ýmsar slíkar stjórnir og nefndir, að það væri ekki hægt að saka menn um pólitíska hlutdrægni. En það hefur verið höfð svo fruntaleg aðferð af hálfu þeirrar ríkisstj. og þeirra stjórnarflokka, sem núna ráða í þessum efnum, að allt, sem að einhverju leyti minnir á það, eigum við ekki að þola.

Enn eitt vil ég minna á. Hér eru lagafyrirmæli um, að ríkissjóður láni og að það megi taka lán enn fremur. Við erum búnir að afgreiða hvert málið á fætur öðru á undanförnum þingum um slík lán. Svörin, sem við fáum, eru síðan bara einfaldlega: Það er ekki hægt að fá lán. — Ríkisstj. hefur einokun á því að reyna að fá lán. Ég fullyrði af reynslu og þekkingu, sem ég hef, að það er hægt að fá lán, en það er ríkisstj. og hennar einokun, sem stendur í veginum fyrir því.

Ég vil þess vegna taka undir það, að þetta mál sé vel íhugað í þeirri n., sem það fer til; það sé reynt af hálfu allra þeirra, sem áhuga hafa á því að bæta úr húsnæðismálunum í landinu, auka lánsfé til þeirra, tryggja, að þau lög, sem nú eru um þetta, komist í virkilegt gildi og að löggjöf sé bætt og aukin, að koma á samstarfi sín á milli um að afgreiða mál eins og þetta og slík mál, sem í sömu átt miða, með þeim breytingum, sem til bóta geta orðið í þessum efnum.