26.10.1954
Neðri deild: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2145)

64. mál, byggingasjóður kauptúna

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Hún skal verða örstutt, þessi athugasemd. — Hv. 2. þm. Reykv. hefur nú ritað í Alþingistíðindin eftirmæli hinnar svokölluðu nýsköpunarstjórnar í húsnæðismálum, og þau eru þessi: Hún leyfði mönnum að byggja. — Þetta eru hógvær eftirmæli í svo stóru máli. Þau eru ekki hógvær af því, að hv. þm. sé alltaf svo sérstaklega hógvær, — hann er það ekki alltaf, þó að hann sé það stundum, — þau eru hógvær af því, að efni standa ekki til að hafa þau öðruvísi. En þetta, sem hún leyfði að byggja, hvernig var það, hvað var það? Hvað var það, sem byggt var á þessum árum? Voru það verkamannahverfi? Voru það íbúðir fyrir fátæka fólkið úti í þorpunum eða í Rvík? Nei, það var það ekki. Það hefur aldrei verið byggt meira af stórum íbúðum, sem kostuðu mikið fé, ríkmannlegum íbúðum fyrir ríkt fólk, heldur en einmitt á þeim tíma.

Þetta út af fyrir sig, að þessi stjórn hafi leyft að byggja, eru, eins og ég sagði áðan, hógvær eftirmæli.