01.11.1954
Neðri deild: 11. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2151)

69. mál, gagnfræðanám

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 91 um gagnfræðaskóla verkalýðssamtakanna er algert nýmæli. Í því er gert ráð fyrir því, að komið verði á fót sex mánaða vetrarskóla í gagnlegum fræðum, en á sumrum hafi þessi skóli heimild til að starfa í námskeiðum. Aðallega er það starf hugsað í sambandi við orlofsdvalir verkafólks, og færi þá kennsla fram á slíkum námskeiðum aðallega í fyrirlestraformi og með frjálslegu námshópastarfi. Aðalnámsgreinar vetrarskólans eru hugsaðar samkv. 1. gr. frv. að vera íslenzk tunga, íslenzkar bókmenntir, saga Íslands með sérstakri áherzlu á þróun atvinnuveganna, þjóðfélagsfræði, hagnýt atriði úr hagfræðinni, alþjóðatungumálið esperanto, enska og eitt Norðurlandamál.

Það er gert ráð fyrir því, að ungmenni, sem orðin eru sextán ára, hafi rétt til þess að stunda nám í þessum skóla. Ber þeim þá samkv. gildandi lögum um gagnfræðanám að hafa lokið unglingaprófi, og má þá ætla, að þau séu byrjuð á tungumálanámi. Með námi í þessum skóla ættu unglingar þess þá kost að halda áfram námi í einu Norðurlandamáli og enskri tungu, eins og þau mundu annars gera, ef þau stunduðu framhaldsnám í miðskóla. Þarna er enn fremur ætlazt til, að unglingar haldi áfram námi í íslenzkri tungu og íslenzkum bókmenntum og kynni sér sögu Íslands — einkanlega þróun atvinnulífsins í landinu. Nýmæli er það, að þarna er ætlazt til að byrjað sé á námi í alþjóðatungumálinu esperanto. Það tungumál er svo auðvelt að nema, að það er hægt með eins vetrar námi að verða sæmilega bókfær í því og að geta talað það viðstöðulaust og hafa þannig öðlazt þekkingu í tungumáli, sem víða getur opnað mönnum leiðir. Á þessu máli er nú til allt það bezta úr heimsbókmenntunum. Tungumálið hefur þegar hlotið allvíðtæka útbreiðslu og hefur þannig nú orðið verulega gagnlega þýðingu. En lengi var fyrst og fremst hugsjónamál að breiða út slíkt tungumál. Nú tel ég, að það sé raunar komið af því stigi og sé orðið praktískt fyrir fólk, sem hefur ekki efni á því að verja mörgum árum til náms í mörgum erlendum tungum, að gera sig fært í þessu eina alþjóðamáli.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir því, að í vetrarskólanum sé veitt ýtarleg fræðsla um sögu og stjórn og starf bæði verkalýðsfélaga, samvinnufélaga og atvinnurekendasamtaka. Skólanum er einnig ætlað að kynna nemendum rækilega meginatriðin í íslenzkri félagsmálalöggjöf, og er þar sérstaklega tekið fram, að leggja beri áherzlu á að kynna nemendunum vinnulöggjöfina, en sérhver vinnandi maður í landinu á mikið undir þeirri löggjöf komið og framkvæmd á henni, og í raun og veru þarf hver einasti verkamaður að þekkja réttindi þau, sem sú löggjöf veitir, og þær skyldur, sem sú löggjöf og aðrar greinar félagsmálalöggjafarinnar leggja íslenzkum þegnum á herðar.

Sem aukanámsgreinar er talað um, að þarna séu leiðbeiningar um fundarreglur og fundarstjórn og að nemendur verði undir leiðsögn kennara æfðir í að bera fram hugsanir sínar í ræðuformi, og á að kenna slíkt aðallega í fyrirlestrum og með verklegum æfingum.

Í frv. er ætlazt til þess, að miðstjórn Alþýðusambands Íslands kjósi fimm manna skólanefnd, sem fari með yfirstjórn skólans undir æðstu stjórn fræðslumálastjórnarinnar auðvitað, og skuli skólanefndin ráða skólastjóra og kennara. Að lokum er svo gert ráð fyrir því, að fræðslumálastjórnin setji slíkum skóla reglugerð og ákveði í henni, auk þess sem fram er tekið í lögunum sjálfum, hvernig haga skuli kennslu og námi og heimilisháttum að öðru leyti.

Í frv. er ekkert tekið fram um það, hvar reisa skuli þennan skóla. Ég hygg þó, að vel geti komið til mála að reisa hann í Reykjavík, bæði með tilliti til þess, að þar væri auðveldast að fá fjölhæfa kennslukrafta til þess margvíslega náms, og enn fremur af því, að hér er verið að koma á fót skóla, sem starfar að verulegu leyti á gagnfræðastiginu, en óvíða á landinu mun vera eins langt í land með það, að búið sé að reisa nægilega mikið af skólum á gagnfræðastiginu og einmitt hér í höfuðborginni. Væri þá enginn aukakostnaður, sem leiddi af því að koma slíkum skóla á fót. Það kæmi að verulegu leyti í staðinn fyrir skóla, sem að öðrum kosti þyrfti að reisa hér hvort eð væri á gagnfræðastiginu. Hins vegar gæti ég vel hugsað mér það, þó að ekkert standi um það í frv., að sumarnámskeiðunum, sem talað er um, væri búin aðstaða í einhverjum húsmæðraskóla eða héraðsskóla, sem ekki er notaður á sumrin, og þar gæti verkafólk átt þess kost að dvelja í sínu sumarleyfi og njóta jafnframt frjálslegrar kennslu í ýmsum gagnlegum fræðum vinnandi fólks. Ætti það þannig ekki að þurfa að vera dýrt, ef sú leið væri farin til þess, a. m. k. í fyrstu, að gera framkvæmd mögulega á hinum fyrirhuguðu sumarnámskeiðum.

Ef til vill kann ýmsum að koma það ókunnlega fyrir, að hér skuli vera lagt til að stofna sérstakan skóla fyrir verkalýðsstéttina, og munu kannske spyrja, hvort fordæmi séu fyrir slíkum menntastofnunum annars staðar. Er því þá fljótsvarað, að í öllum nágrannalöndum okkar eru slíkir skólar til. Ég hef kynnzt slíkum skólum sérstaklega í Danmörku, en er kunnugt um, að þeir eru einnig starfræktir í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Nú hefur mér einnig verið tjáð, að margir slíkir skólar séu til í Þýzkalandi, m. a. sé háskóli í verkalýðsfræðum starfræktur í Frankfurt am Main. Ýmsir Íslendingar hafa þegar kynnzt verkalýðsskólunum á Norðurlöndum. Þeir eru þar meira í lýðháskólasniði en sem gagnfræðaskólar, enda er lýðháskólahreyfingin, eins og kunnugt er, mjög útbreidd í Danmörku og upprunnin þar. Í fyrrasumar voru tveir ungir menn á vegum Alþýðusambands Íslands að námi í verkalýðsskólanum í Hróarskeldu, og s.l. haust var ungur Íslendingur einnig á vegum íslenzku verkalýðshreyfingarinnar á námskeiði í Hróarskeldulýðháskóla. Þessi kynni eru öll á þá lund, að menn hafa hug á því í verkalýðshreyfingunni íslenzku, að til væri hér á landi skóli, sem starfaði með svipuðu sniði og í sama tilgangi og þessir skólar, sem Íslendingar ýmsir hafa þegar kynnzt erlendis. Í grg. er enn fremur skýrt frá því, að sendinefnd frá Alþýðusambandi Íslands, sem fór til Ameríku sumarið 1951, kynntist amerískum skólum, sem eru þar með ýmsu sniði, m. a. sem sérstakar deildir við háskólana þar, og var þar við kennslu, kynntist fyrirlestrum um amerísk verkalýðsmál, og form. nefndarinnar og fararstjóri, Finnur heitinn Jónsson alþm., skrifaði margar greinar um þessi fræðslumál verkalýðssamtakanna og þörfina fyrir slíka fræðslustarfsemi, þegar hann kom heim. Eru teknir kaflar úr þessum greinum hans upp í grg. með frv. — Þeirri spurningu, hvort fordæmi sé fyrir slíkum skólum, er þá með þessu fullsvarað.

En þá mætti búast við, að menn vörpuðu fram annarri spurningu: Er nokkur þörf á því hér á landi, að slíkur skóli væri starfræktur? Ég vil í þessu sambandi aðeins minna á, að það eru ekki margir áratugir síðan því hefði verið haldið fram hér á landi, að það mundi vera lítil þörf fyrir skóla — einn, hvað þá heldur fleiri — til þess að mennta íslenzkar húsmæður. En slíkur hugsunarháttur er löngu aldauða, og nú eru starfræktir einir sjö húsmæðraskólar í landinu, og komið hefur verið auk þess upp sérstökum kennaraskóla til þess að sjá þessari tegund skóla fyrir kennaraliði. Hér er sem sé farið fram á, að til verði í íslenzka skólakerfinu einn eins vetrar skóli fyrir fjölmennustu vinnustétt landsins og sé þar lögð áherzla, auk tungumálanáms og kennslu í íslenzkri tungu og íslenzkum bókmenntum, á ýmiss konar gagnleg fræði, sem mættu koma að hagnýtu haldi fyrir verkamenn og verkakonur, sem hafa ekki efni á því að fara neinar langskólabrautir.

Ég ímynda mér, að það yrðu unglingar úr verkalýðsstétt almennt, sem sæktu slíkan skóla, og trúi því, að ef þarna fengjust góðir og nýtir kennslukraftar, þá mundu þeir unglingar verða betri þegnar í lýðræðisþjóðfélagi eftir þá fræðslu, sem þeir hefðu fengið í íslenzkri sögu og íslenzkri félagsmálalöggjöf, og hafa betur kynnzt þeim réttindum og skyldum, sem þeir eiga að njóta og bera í þjóðfélaginu.

Það eru mörg hundruð manns í íslenzkri verkalýðsstétt, sem eru trúnaðarmenn samkv. ákvæðum vinnulöggjafarinnar á vinnustöðvunum. Þessir trúnaðarmenn gegna að mínu áliti mjög þýðingarmiklu trúnaðarstarfi, ekki bara fyrir sitt verkalýðsfélag, heldur líka fyrir þjóðfélagið almennt. Þeim ber að fylgjast með því, að samningar þeir, sem verkalýðsfélögin hafa gert við atvinnurekendur, séu í einu og öllu haldnir. Ef þar ber eitthvað út af, smátt eða stórt, þá ber þessum trúnaðarmönnum á vinnustað að ræða málið við verkstjóra eða atvinnurekanda og reyna með góðu að fá missmíðin lagfærð. Með þessu móti er hægt að komast hjá margs konar leiðindum og óþarfa árekstrum milli atvinnurekenda og verkafólks. En svo bezt er fyrir þessu séð, að trúnaðarmennirnir á vinnustöðvunum séu vel að sér í þeirri löggjöf, sem þeir eiga að starfa samkvæmt. Hefur það oft komið fyrir, — og um það veit ég mörg dæmi, — að deilur hafa orðið og alvarlegar út af því, að ekki hefur verið tekið fyrir misskilning og misklíð á þessu fyrsta stigi málsins. Ég tel alveg víst, að trúnaðarmenn á vinnustöðvum hefðu mikið gagn af því að sækja styttra eða lengra nám í slíkum skóla sem hér er um að ræða. Einnig tel ég, að þeir menn, sem veljast til þess að vera í stjórn verkalýðsfélaga, en þeir skipta líka mörgum hundruðum í landinu, hefðu gott af því og væri raunar nauðsynlegt að eiga þess kost að sérmennta sig nokkuð í þeim margvíslegu vandamálum, sem þeir eiga að leysa sem stjórnendur verkalýðsfélaga. Það er ekki út af fyrir sig neitt fábrotið eða einskisvert atriði að eiga að standa í samningum við atvinnurekendur um alla framkvæmd verka, sem fyrir koma á hverju félagssvæði, og því alls ekki hver og einn til þess fær, nema því aðeins að hann hafi aflað sér staðgóðrar þekkingar auk þeirrar þekkingar, sem starfið sjálft veitir.

Um það þarf ekki að fara neinum orðum, að verkalýðssamtökin í heild inna af hendi merkilega þjónustu í þjóðfélaginu og hafa svo mikið vald í þjóðfélaginu, að það er fyllilega réttmætt, að þjóðfélagið leggi eitthvað af mörkum til þess, að farið sé af sem mestu viti og beztri þekkingu með þann mikla vanda og með það mikla vald, sem þessi samtök hafa í höndum. Lýðræðið á allt sitt gengi, eins og oft hefur verið sagt, undir víðtækri þekkingu alþýðustéttanna, og ætti því að kosta kapps um að búa þegnana sem bezt að þekkingu.

Ég trúi ekki öðru en að frv. sem þetta fái góðar undirtektir hv. alþingismanna. Það er ekki hægt með rökum að neita fjölmennustu framleiðsluvinnustétt landsins um það, að þjóðfélagið kosti með sama hætti og það kostar aðra skóla eina menntastofnun fyrir þessa stétt. Það virðist liggja í hlutarins eðli, að slíkt sé gert — og gert eftirtölulaust af hendi þjóðfélagsins. Dæmin um það, hvað aðrar þjóðir hafa gert í þessum efnum, tala líka skýru máli, og Íslendingar eru nú þannig skapi farnir, að það orkar nokkuð á þá, að þeir megi ekki láta sinn hlut eftir liggja í samanburði við aðrar menningarþjóðir.

Ég legg til, að þegar þessari umr. lýkur, verði málinu vísað til hv. menntmn.