04.11.1954
Neðri deild: 12. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (2164)

79. mál, atvinnujöfnun

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það hefur stundum litið svo út á þessu þingi, að það væri ekki mjög mikill áhugi ríkjandi um atvinnumálin. Einkanlega hefur þetta komið í ljós á þann hátt, að þingbekkir hafa verið fremur fáskipaðir, þegar rætt hefur verið um frv., sem snert hafa úrbætur í atvinnumálum. Ég minnist þess t. d., að þegar hér var til umr. skömmu eftir þingsetningu frv. til l. um ríkisútgerð togara til atvinnujöfnunar, þá var svo fámennt hér í hv. d., að ekki var hægt að ljúka atkvgr. um málið og varð að fresta því til næsta fundar, og á öðrum þingfundi voru ein fjögur mál, sem snertu atvinnumálaráðstafanir, og var engu þeirra hægt að koma í gegnum atkvgr. sökum fjarvista þm., einkanlega úr stjórnarliðinu. Því meiri fögnuð vekur það hjá mér, þegar ég sé, að þrátt fyrir þetta er áhugi ríkjandi, ekki hvað sízt í stjórnarherbúðunum, fyrir því að ráða bót, að því er virðist, á atvinnuástandinu í landinu, því að ég verð að ætla, að alvara sé á bak við flutning þeirra frv., sem nú seinustu daga hafa verið flutt af þm. úr stjórnarflokkunum.

Vil ég þar sérstaklega nefna frv., sem nú liggur fyrir hv. Ed. og flutt er af Karli Kristjánssyni þm. S-Þ., Bernharð Stefánssyni 1. þm. Eyf., og Vilhjálmi Hjálmarssyni, 2. þm. S-M. Það er um útgerð togara til þess að koma á og viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Ég þykist vita, að þessir hv. þm. annars stjórnarflokksins hafi ekki farið af stað með það, nema af því að þeir hafi verið búnir að sýna það í sínum þingflokki, og að þessi stjórnarflokkur muni því vera fylgjandi málinu. Efa ég ekki, að stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþ., sem hafa flutt mál áður og margsinnis mjög svipað þessu og í sama tilgangi, muni veita slíku máli stuðning, til þess að málið geti fengið lausn í því formi, sem stjórnarflokkunum kynni að vera þóknanlegt.

En það lítur út fyrir, að ekki hafi þótt nóg að gert með flutningi þessa frv. fyrir hönd stjórnarflokkanna, því að nú liggur hér fyrir til umr. frv., sem flutt er af fjórum þm. hins stjórnarflokksins, þ. e. a. s. flutt af hv. 2. þm. Eyf. (MJ), hv. þm. Siglf. (EI), hv. þm. Ísaf. (KJJ) og hv. þm. N-Ísf. (SB), og frv. er um ráðstafanir til atvinnujöfnunar, sennilega einhverjar víðtækari ráðstafanir en felast í frv. hins stjórnarflokksins, sem er um útgerð togara til þess að viðhalda jafnvægi í byggð landsins, og hér á að stofna sjóð upp á 5 millj. kr., sem ráðstöfun til atvinnujöfnunar.

Ég vil vona, að þó að nefndar séu 5 millj. kr. í frv. þeirra hv. framsóknarmanna, sem flytja frv. í Ed. til togarakaupa, og einnig séu nefndar 5 millj. kr. í frv. þeirra hv. 2. þm. Eyf. til þess að vera uppistaða í atvinnujöfnunarsjóði, þá sé það ekki allt saman sömu 5 millj., sem þarna sé verið að flytja um tvö frv. Og allra helzt vildi ég vona, að það séu ekki sömu 5 millj., sem eru í fjárlagafrv. ætlaðar til atvinnuaukningar í landinu, því að þá fyndist mér þetta vera orðin hálfgerð naglasúpa og vildi þá taka aftur allt, sem ég hef sagt um áhugann fyrir umbótum í atvinnumálum.