13.10.1954
Efri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

10. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Haraldur Guðmundsson:

Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann veitti, að nú hefði verið gerð gangskör að því að taka launalögin í heild sinni til endurskoðunar, og ég get fallizt á það, að ef þess er að vænta, að slík endurskoðun leiði til nýrrar lagasetningar í því efni fljótlega, þá sé ekki ástæða til þess að taka ákvæðin um grunnlaunauppbæturnar inn í þetta frumvarp, því að þá yrði að sjálfsögðu tekið tillit til þeirra við setningu hinna nýju launalaga. Sé þess aftur á móti ekki að vænta, að fljótlega verði lokið þessari endurskoðun launalaganna, verð ég að telja, að fullkomlega sé til athugunar sú ábending, sem ég flutti hér í minni ræðu.