18.11.1954
Neðri deild: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (2185)

91. mál, bygging íbúaðrhúsa til útrýmingar herbúðm o. fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. óskaði eftir góðum undirtektum við það mál, sem hér liggur fyrir til umr., og ég get fullvissað hann um það, að hann mun af minni hálfu — og ég þykist mæla þar einnig f. h. flokksbræðra minna hér í þinginu — mæta mjög góðum undirtektum við það mál að hefjast rösklega handa í byggingarmálunum til þess að útrýma braggaíbúðunum í landinu.

Ég var honum að verulegu leyti sammála um margt það, sem hann sagði í þessu máli, þó að ég hins vegar verði að segja hitt, að ég er töluvert á annarri skoðun en hann um það, hvernig beri að lyfta því — ja, Grettistaki, skulum við segja, sem hér er um að ræða, að útrýma braggaíbúðunum á mjög skömmum tíma, og hafi einnig töluvert aðrar skoðanir um það, hverra sök sé á vanrækslu í þessum efnum á undanförnum árum. En það út af fyrir sig ætla ég að skipti minna máli, og skal ég láta það liggja á milli hluta við þessar umr. En þegar hér er rætt í þinginu frv. um byggingu íbúðarhúsa til útrýmingar herbúðum o. fl., þá þykir mér rétt, að hér komi fram það, sem af hálfu bæjarstjórnar Rvíkur hefur einmitt verið gert í þessu máli og nú er stefnt að, en það skiptir í sjálfu sér höfuðmáli, vegna þess að nærri því allar bragga- eða herskálaíbúðir á landinu eru í höfuðstað landsins.

Það er vissulega smánarblettur á þjóðfélaginu, að við það skuli enn búið, að fjölskyldur í mjög stórum stíl með mörg börn og ungbörn búi í braggaíbúðum eða herskálum, sem ekki aðeins, eins og fram hefur verið tekið, hefur skaðvænleg áhrif á heilsu manna líkamlega, heldur líka ákaflega skaðvænleg andleg áhrif og uppeldisleg á yngstu kynslóðina.

Án þess að ég skuli fara að rekja, hverjir eigi öðrum fremur á þessu sök, eins og ég sagði áðan, vil ég minna á það eða gera grein fyrir því, að 13. apríl þ. á. samþykkti bæjarstjórn Rvíkur ályktanir í húsnæðismálunum. Þar sem m. a. var lögð megináherzla á það, að herskálum yrði útrýmt á næstu fjórum til fimm árum, og veit ég, að enginn í þeim hópi, sem að þeirri ályktun stóð, mundi hafa á móti því eða vinna gegn því, að þessu átaki mætti ná á enn þá skemmri tíma.

Að sjálfsögðu var bæjarstjórn Rvíkur ljóst, að ein meginorsökin fyrir vandræðunum í þessum efnum er sá takmarkaði eða lokaði lánamarkaður til íbúðarhúsabygginga, sem við höfum búið við á undanförnum árum. En bæjarstjórninni var jafnframt ljóst, að hún varð að hafa forgöngu um aðgerðir í þessu máli, til aðstoðar þeim einstaklingum fyrst og fremst, sem verst eru settir efnalega og hafa mesta erfiðleika af stórum fjölskyldum á framfæri sínu.

Á s. l. vori, þegar þessar ályktanir voru gerðar í bæjarstjórn, stóðu mál þannig, að fyrir um það bil hálfu ári eða rúmlega það, þ. e. a. s. í september 1953, hafði verið mynduð ný ríkisstjórn, sem hafði m. a. á stefnuskrá sinni að leysa til frambúðar lánsfjármálin í sambandi við íbúðabyggingarnar og jafnframt að aðstoða í þessum efnum sérstaklega þá, sem nú ættu byggingar í smíðum. Okkur var a. m. k. kunnugt um það, fulltrúum Sjálfstfl. í bæjarstjórn, að ríkisstj. vann að þessu stefnuskráratriði sínu, og í þinglokin síðustu var gerð sú bráðabirgðaúrlausn í þessu máli að heimila ríkisstj. 20 millj. kr. lántöku, sem gengi til lánadeildar smáíbúða og væri fyrsta skrefið í efndum á þessu fyrirheiti stjórnarinnar.

Mikill meiri hluti af þessu fé mun þegar vera fenginn og verður til ráðstöfunar á þessu ári, en til þess að taka málin áframhaldandi þeim tökum, sem nauðsynlegt var, skipaði ríkisstj. m. a. mþn. á s. l. sumri til þess að undirbúa fyrir það þing, sem nú er saman komið, till. í þessu efni.

Það er ekki tímabært á þessu stigi málsins að víkja að þessum till., sem eru nú í deiglunni hjá hæstv. ríkisstj., en bæjarstjórn Reykjavíkur tók þá ákvörðun að bíða ekki eftir því, að fyrir lægi, hvernig þessi mál skipuðust, lánsfjármálin, heldur hefjast þegar handa í fullu trausti þess, að framkvæmdir bæjarstjórnarinnar gætu óhikað haldið áfram, þegar kæmi fram yfir næstu áramót, en bæjarsjóður mundi sjálfur reyna að rísa undir fjárhagshlið málanna, þangað til við tæki sú úrlausn snertandi fjárhagshlið málanna, sem ríkisstj. hafði boðað að hún vildi vinna að í sambandi við byggingarmálin.

Þess vegna var það ákveðið af hálfu bæjarstjórnar að hefjast handa um byggingu nýs íbúðarhverfis í Reykjavík, austur af Bústaðavegshverfinu, þar sem rúm mun vera fyrir og búið er að gera ráð fyrir þegar um 200 íbúðum og gætu væntanlega orðið fleiri. Eru þessar íbúðir hugsaðar í raðhúsum með mjög hentugu formi og gert ráð fyrir því jafnframt, að sameiginleg kyndistöð geti orðið í þessu íbúðahverfi, þannig að hægt sé að hagnýta hitaveituvatn við upphitun þessara húsa þá tíma árs, sem það er nægjanlegt, og allt árið, ef svo vel til skipaðist, að vatnsaukningin yrði mikil á næstu árum, en meðan það ekki væri, þá a. m. k. heitustu mánuði ársins.

Þetta byggðarhverfi er þannig hugsað í framkvæmd, að bæjarstjórnin hefur forgöngu um að gera húsin fokheld, en hugsar sér síðan að gefa einstaklingum kost á því að eignast þau og ljúka við íbúðirnar. Og það er fyrst og fremst höfuðtilgangurinn með þessum ódýru og hagkvæmu byggingum, að gefa þeim, sem búa í herskálunum, forgangsrétt að því að eignast þar íbúðir. Og það er það mál sérstaklega, sem hér liggur fyrir til umr.

Í þessu sambandi benti bæjarstjórnin í sambandi við ályktanir sínar frá 13. apríl 1954 á ákveðnar leiðir, sem hægt væri að fara til þess að ná því marki að útrýma herskálunum, fjárhagslega séð, samhliða áskorun til ríkisstj. og Alþ. að vinna að því. Fimmti liður ályktunar bæjarstjórnar var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta, að „bæjarstjórnin ályktar að beina þeirri áskorun til ríkisstj. og Alþ. að gera sérstakar ráðstafanir í sambandi við húsnæðismálin, sem miði að því, að útrýmt verði öllum braggaíbúðum á næstu 4–5 árum“.

En bæjarstjórnin benti jafnframt á leiðir fjárhagslega, og þær voru í höfuðatriðum, að stofnaður yrði byggingarsjóður í þeim tilgangi að útrýma braggaíbúðunum hér í Reykjavík með 50 millj. kr., sem aflað væri á árunum 1954, 1955 og 1956, og gert var ráð fyrir lántöku í þessu sambandi jafnhliða framlögum úr ríkissjóði og bæjarsjóði. Svo var gert ráð fyrir því, að stjórn byggingarsjóðs skyldi framkvæma rannsókn á hag, getu og vilja braggabúa til að eignast íbúðir og sé slík rannsókn lögð til grundvallar þeim leiðum, sem farnar skulu í því skyni að losa braggaíbúðir og útrýma þeim.

Stjórn byggingarsjóðs skal sérstaklega athuga samhliða eftirfarandi leiðir:

1) Að byggja beinlínis fyrir braggabúa og gefa þeim kost á íbúðunum, fokheldum með hitalögnum eða lengra komnum, með hagstæðum kjörum og lánum til langs tíma.

2) Að lána braggabúum fé til þess að gerast aðilar í byggingarfélagi þeirra sjálfra eða aðili að byggingu verkamannabústaða.

3) Að lána braggabúum hagkvæm lán til sjálfstæðra byggingarframkvæmda.

M. ö. o.: bæjarstjórnin benti á ákveðnar fjáröflunarleiðir, lántökur, framlög frá ríki og framlög frá bæjum, og einnig viss höfuðsjónarmið í því, hvernig byggingarframkvæmdunum eða aðstöðu manna við að eignast íbúðirnar skyldi hagað, en af hálfu bæjarstjórnarinnar var lögð megináherzlan á að gera þessu fólki kleift að eignast eigin íbúðir, og að því máli skal ég koma nánar síðar í sambandi við ákvæði þessa frv. um það, að ríkið byggi íbúðir og leigi íbúðirnar.

Eftir að bæjarstjórnin hafði gert þessar ályktanir, er gangur málsins þannig, að ábendingar bæjarstjórnar og ályktanir voru lagðar fram í mþn. í húsnæðismálunum, sem vann í sumar. Hafa þær verið til athugunar, og mun það koma fram síðar á sínum tíma, án þess að ég víki nánar að því hér. En bæjarstjórnin hófst þegar handa, eftir að nauðsynlegum undirbúningi var lokið, til þess að óþarfur dráttur yrði ekki, meðan ekki sæist, hvaða ákvarðanir teknar yrðu af ríkisstj. og Alþ., en í trausti þess, að þær yrðu í samræmi við stefnu ríkisstj. um varanlegar úrlausnir í þessum málum.

Það var þess vegna í ágústmánuði hafizt handa um byggingu 45 íbúða í þessu raðhúsahverfi. Verkið var boðið út, og ákveðinn verktaki tók það að sér. Síðan var ákveðið þann 19. ágúst í bæjarstjórninni að fela borgarstjóra að undirbúa byggingu 6 samstæðna með 50–90 íbúðum til viðbótar 45 íbúðum í raðhúsum, sem um getur í fundargerð bæjarráðs 19. ágúst, og 16 íbúðum í Bústaðavegshúsunum, sem hafin var bygging á samkv. áætlun bæjarstjórnar 13. apríl.

Það er þess vegna hafin á þessu ári af bæjarstjórninni bygging á 16 íbúðum í Bústaðavegshverfi, 45 íbúðum í raðhúsahverfinu, sem þegar er hafin framkvæmd á, og verið er að undirbúa að hefja framkvæmdir á 50–80 íbúðum til viðbótar, en heildaráætlunin er í bili um raðhúsahverfi með allt að 200 íbúðum, en möguleikar þó fyrir fleiri.

Hér hefur sem sagt verið nokkuð aðhafzt af bæjarstjórnarinnar hálfu, og ég vildi mega ætla, að það standi vonir til, að Alþingi eigi eftir að taka af sinni hálfu þær ákvarðanir, sérstaklega varðandi lánamálin, sem gera þessar framkvæmdir auðveldari og skjótari en ella mundi verða.

Þegar í bæjarstjórn var unnið að þessu máli, lá fyrir frá hagfræðingi Reykjavíkurbæjar grg. um herskálaíbúðir í Reykjavík, og samkvæmt manntali 1952 voru þær 542, og gerð var einnig áætlun um það innan bæjarstjórnarinnar með hliðsjón af upplýsingum í þessari skýrslu, sem fyrir lá um fjölskyldustærðir í herskálunum, hvað byggja þyrfti mikið af íbúðum hverrar tegundar, og varð sú sundurliðun á þá leið, að við álitum, að byggja þyrfti til þess að útrýma herskálunum 159 tveggja herbergja íbúðir, 160 þriggja herbergja íbúðir, 173 fjögurra herbergja íbúðir og 50 fimm herbergja íbúðir.

Í sambandi við kostnaðaráætlanir um þessar raðhúsaíbúðir, sem þegar hafa verið hafnar framkvæmdir á, vil ég láta þess getið, þar sem hv. 2. þm. Reykv. (EOl) gerði ráð fyrir því, að hægt væri að byggja sómasamlegar íbúðir fyrir um 150 þús. kr., að það lætur mjög nærri lagi, samanborið við áætlanir, sem gerðar voru af hálfu sérfræðinga á vegum bæjarstjórnarinnar, því að þar var gert ráð fyrir því, að ef þessum raðhúsum eða íbúðunum í þeim yrði skilað fullgerðum, þá mundi kostnaður verða um 135 þús. kr. á íbúð, en það svarar til þess, að byggingarkostnaðurinn væri í þessum íbúðum um 500 kr. á rúmmetra, og þegar það er haft í huga, þá held ég, að hér sé ekki ástæða til að ætla, að örðugt mundi reynast að standa við þessa áætlun. Hins vegar er að verulegu leyti gert ráð fyrir því, að bæjarstjórnin hafi fyrst og fremst frumkvæðið um að gera húsin fokheld, og þá er áætlað, að það muni kosta 48 þús. kr., síðan að leggja í þau hitalögn, sem væntanlega yrði látin fylgja með þeim fokheldum, eins og gert var á sínum tíma um Bústaðavegshúsin, og sá hluti kostnaðarins er áætlaður um 61500 kr.

Nú mætti koma að því, hvort íbúar herskálanna og aðrir, sem í heilsuspillandi íbúðum búa. hafi ráð á því að eignast íbúðir og hvort nokkur önnur leið sé fær en sú, sem lögð er til í þessu frv., að leigja viðkomandi aðilum íbúðirnar.

Það er hiklaust stefna okkar sjálfstæðismanna, að það sé tvímælalaust affarasælla, að einstaklingarnir geti eignazt og átt sínar íbúðir sjálfir, heldur en að þeir búi í leiguíbúðum, hvort sem þeir eiga að vera leiguliðar hjá ríkinu eða einstaklingum, og við teljum, að það sé hægt að ná því marki með sameiginlegu átaki ríkisvaldsins og bæjarfélaganna.

Menn rekur minni til þess, að hæstv. forsrh. gerði grein fyrir því hér, — í eldhúsdagsumræðum, hygg ég, að það hafi verið, í desembermánuði s. l., – að höfuðsjónarmið núverandi hæstv.

ríkisstj. í sambandi við lánamálið til íbúðabygginga væri það, að hverjum, sem óskaði þess, ætti að gefast kostur á því að fá lán til íbúðabygginga, sem næmi allt að 100 þús. kr. út á íbúð. Að þessu er verið að stefna, og það er einmitt þungamiðjan í því, að takast megi að loka svarta markaðnum í þessum málum, sem — eins og hv. 2. þm. Reykv. kom að — er gífurlegur og geigvænlegt þjóðfélagslegt fyrirbrigði eins og er.

Þegar hvíla á meðalíbúðum 100 þús. kr. til langs tíma með 1. veðrétti, þá er búið a. m. k. að loka verulega dyrum fyrir svarta markaðnum, sem jafnan heimtar 1. veðrétt fyrir sínum okurlánum, og kynni þá að fara svo, að mikið fé, sem hefur getað margfaldazt illu heilli á þessum svarta markaði að undanförnu, hefði ekki aðrar betri leiðir og hollari að fara en á almennan verðbréfamarkað, sem síðar yrði til hags fyrir þá, sem eru að byggja hús og fá lán með hagstæðum kjörum.

En setjum svo, að menn eigi kost á allt að 100 þús. kr. láni til langs tíma, og ef við miðum við t. d. 30 ár í þessu sambandi, þá mundu afborganir og vextir samsvara líklega nálægt 620 kr. mánaðargreiðslu, og í fæstum tilfellum mundi slík húsaleiga verða mönnum ofviða, miðað við launakjör almennings í dag. Þá eru að vísu eftir allt að 35 þús. kr., miðað við kostnaðaráætlun þessara íbúða. Sumt af fólkinu getur áreiðanlega klofið það sjálft með hjálp vina og vandamanna, en sumir kannske engan veginn, og þá hefur það verið skoðun fulltrúa a. m. k. Sjálfstfl. í bæjarstjórn Reykjavíkur, að hér sé einmitt bil, sem eigi að brúa með beinum og óafturkræfum framlögum af hálfu ríkissjóðs og bæjarsjóðs, því að hversu hagstæður lánamarkaður sem opnaður verði í sambandi við íbúðabyggingarnar, þá verði þó alltaf að hafa í huga, að eitthvað af fólki er ekki þess megnugt að byggja íbúðirnar, þó að það fái góð lán. En ef um er að ræða sérstaklega fjölskyldufólk og dugandi fólk, sem treystandi er til framkvæmda á þessu sviði, þá er ekki óeðlilegt, að það opinbera hlaupi undir bagga með beinum framlögum í þessu skyni og léti þá íbúðirnar í té í vissum tilfellum með einhverjum styrktarráðstöfunum, afskriftum þegar í upphafi, sem munaði kannske að verulegu leyti eða öllu leyti mismuninum á láninu og kostnaðarverði íbúðanna.

Í sambandi við rannsókn þá, sem fram fór á braggaíbúðum og aðstöðu herskálabúa, þá er þar um að ræða sundurliðun á fjölskyldufeðrum og einnig nokkur athugun á efnahag þessa fólks. miðað við gjöld þess til ríkis og bæja, og það má alveg fullvíst telja, að í herskálunum er engu siður upp og ofan dugandi fólk en í öðrum íbúðum höfuðstaðarins og annars staðar á landinu. Og margt af þessu fólki mundi fullkomlega vera þess megnugt að byggja þak yfir höfuðið sjálft, ef því væri veitt sú eðlilega og réttláta aðstoð að eiga aðgang að sæmilegum lánamarkaði, sem þýðir það, að fólkinu sé gefinn kostur á að greiða íbúðir sínar á löngum tíma, og ekki ætti að miða við skemmri tíma en 30 ár.

Ég vil svo aðeins geta þess eða hafa þann fyrirvara, að þær ráðstafanir, sem hér hefur verið byrjað á af hálfu bæjarstjórnar, eru ekki einskorðaðar við að aðstoða það fólk, sem býr í herskálunum, enda eru því miður enn þá fjöldamargir aðrir, sem búa í ófullnægjandi húsnæði. Aðstöðu þess fólks verður einnig að hafa í huga. En ég vil vekja athygli á því, að það var á sínum tíma í fyrra verið að ræða hér um afnám fjárhagsráðs, og sumum hv. þm. þótti ekki mikil breyting vera gerð, þó að fjárhagsráð væri lagt niður, og kom það fram í umr, hér á þingi í gær. En hvað hefur gerzt í byggingarmálunum? Það hefur gerzt það frá því í fyrra, að byggingarframkvæmdir hafa aldrei verið meiri í Reykjavík en þær hafa verið á þessu ári, í nágrenni Reykjavíkur og um gjörvallt land. Það er eins og það hafi verið tekin stífla úr flóðgátt, þegar lagt var niður fjárhagsráð, og það enda þótt enginn almennur aðgangur sé til hagstæðra lána til byggingarstarfseminnar hér á landi eins og nú er í dag. Það er heldur enginn vafi á því, að margt af þessu fólki hefur farið út í byggingarnar í góðri trú á, að það opinbera mundi, meðan á framkvæmdunum stæði, skipa þessum málum þannig, að það ætti einhvern aðgang að eðlilegum og hagstæðum lánum, og það væru mikil svik við bjartsýni og framkvæmdaþrek þeirra einstaklinga, sem í dag eru að byggja hús, ef Alþingi og ríkisstjórn bregðast þeirri skyldu að rétta borgurunum hjálparhönd með stórkostlegum lagfæringum á sviði lánsfjármálanna.

Hv. 2. þm. Reykv. vék að því, að það mundu hafa verið byggðar 600 og eitthvað íbúðir 1946, og þótti þá mikið og var mikið, en síðan hefði þetta mjög minnkað og á árunum eftir 1950 dregizt gífurlega saman, og þetta er rétt. En eftir því sem skýrslur liggja fyrir í dag, þá mun láta nærri, að íbúðir, sem í byggingu eru hér í Reykjavík, séu um 1000, miðað við septembermánuð, og í Reykjavík og næsta nágrenni um 1400 íbúðir og sennilega á öllu landinu eitthvað á þriðja þúsund íbúðir, sennilega 2200 íbúðir, eftir því sem komizt verður næst af þeim skýrslum, sem fyrir liggja. Ef þessu heldur áfram, og þessu á að geta haldið þannig áfram, ef lánsfjármálin eru lagfærð, þá mætti búast við því, að mestu erfiðleikarnir og vandkvæðin í húsnæðismálunum væru í heild leyst á næstu 4—5 árum. Til þess að fullnægja fólksfjölguninni á Íslandi, sem er mikil hér, miðað við aðrar Evrópuþjóðir, mun áreiðanlega vera nóg, að byggðar séu 800–900 íbúðir á ári. En næstu árin, sem fram undan eru, þarf að vinna upp það, sem tapazt hefur á liðnum árum, vinna upp þann mikla húsnæðisskort, sem nú er, og til viðbótar hinni almennu fólksfjölgun þarf að gera ráð fyrir þeim fólksflutningum, sem eiga sér stað í mjög ríkum mæli nú hér á landi og hafa sín áhrif í þessu máli.

Um frv., sem fyrir liggur, vil ég svo ekki segja annað en það, að höfuðtilgangi þess er ég sammála, eins og menn hafa heyrt af máli mínu, að gera ráðstafanir til þess að útrýma braggaíbúðunum. Ég er hins vegar algerlega andvígur því, að ríkið byggi íbúðir og leigi einstaklingunum þær, heldur tel, að ríki og bær eigi að aðstoða einstaklingana til þess að byggja þessar íbúðir sjálfir og eignast þær. Ég geri þess vegna ekki mikið úr því, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, breyti miklu í þessum málum, en ég ber fullt traust til þess, að þeim muni skipað svo á næstunni, að verulegra úrbóta sé að vænta. Af hálfu bæjarstjórnar Reykjavíkur hefur þegar verið hafizt handa í stórum stíl í fullu trausti þess, að Alþingi og ríkisstj. láti ekki sitt eftir liggja, og það er alkunnugt, að innan hæstv. ríkisstj. er nú unnið af kappi að því að undirbúa þessi mál fyrir það þing, sem nú situr. En eins og ég gat um í upphafi, þá er ekki tímabært á þessu stigi málsins að reifa þau mál nánar.