26.11.1954
Neðri deild: 23. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (2200)

110. mál, áburðarverksmiðja

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það gætir nú nokkurs misskilnings hjá hv. 1. flm. þessa frv. í því, sem hann sagði í ræðu sinni. Að vísu hefur hann dregið nokkrar réttar ályktanir, en aftur á móti eru sumar ekki alls kostar réttar. Það, sem vakti fyrir landbn. í fyrra, þegar hún afgr. þetta mál, var, að samþykkt frá búnaðarþingi 1953 bar með sér, að fyrst skyldi leita til samtaka bændastéttarinnar eða búnaðarfélaganna í landinu um það, hversu mikil fjárframlög bændur vildu leggja af mörkum til að kaupa hlutabréf í Áburðarverksmiðjunni h/f. áður en leitað yrði hinnar lagalegu heimildar. Sams konar ályktun hefur Stéttarsamband bænda gert. Þannig er það fyrsta skilyrði, sem samtök bændanna hafa sett, áður en lagalegra heimilda verður leitað, að fyrir liggi frá þeim, hvað mikið fé þeir vilji leggja af mörkum til þess að kaupa hlutabréf í áburðarverksmiðjunni. Þegar búnaðarþing kom saman snemma á þessu ári, lá það ekki greinilega fyrir, að hægt væri á því þingi, sem þá stóð yfir, að afgreiða málið.

Ég skal ekkert segja um, hvernig þessu er varið nú, en sjálfsagt verður álits Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda leitað um þetta mál nú sem fyrr, og að því fengnu verður tekin ákvörðun um það hjá landbn. og hv. Alþ., hvort breytingu skuli gera á lögunum um áburðarverksmiðjuna.