08.02.1955
Neðri deild: 42. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (2206)

130. mál, eftirlit með skipum

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er lagt til, að nokkur breyting verði gerð á lögum um eftirlit með skipum. Lögin um eftirlit með skipum eru frá árinu 1947, og er í þeim gert ráð fyrir, að á öllum þeim skipum, þar sem því verður við komið, skuli skylt að hafa björgunarbáta til öryggis skipshöfn og farþegum. En á þeim tíma, er þessi lög voru samin og sett, vissu menn ekki skil á öðrum björgunarbátum en tiltölulega fyrirferðarmiklum trébátum, sem illmögulegt eða með öllu var ómögulegt að koma fyrir á vélbátunum yfirleitt.

Frá þeim tíma hefur tækninni fleygt fram í þessum efnum sem svo mörgum öðrum, og nú vita menn skil á ágætum björgunartækjum, þar sem eru gúmmíbjörgunarbátarnir. Um þá voru mjög skiptar skoðanir í upphafi, og margir menn, sem þó voru fróðleiksmenn um öryggismál sjófarenda, létu í ljós þá skoðun, að að þeim mundi ekki verða mikið gagn. Reynslan hefur hins vegar sannað, að að þessum bátum er ómetanlegt gagn, og er þar nærtækust reynsla vélbátaflotans í Vestmannaeyjum, þar sem þessir bátar hafa verið nokkuð almennt í notkun frá því 1952. Á þeim þrem árum, sem þannig er reynsla fengin af, er vitað mál, að þrír bátar úr vélbátaflotanum frá Vestmannaeyjum hafa farizt, og má telja fullvíst, að enginn maður af neinum þeirra hefði haldið lífi án þessara öryggistækja. Reynslan sannar hins vegar, að af vélbátnum Veigu, sem fórst 1952, björguðust sex menn á gúmmíbát; af vélbátnum Guðrúnu, sem fórst 1953, björguðust fjórir menn með sama hætti, og af vélbátnum Glað, sem fórst á s. l. vertíð, árið 1954, björguðust allir mennirnir 8 á gúmmíbát. Samtals hafa þannig bjargazt af bátaflotanum í Vestmannaeyjum 18 menn á þeim þremur árum, sem reynsla gúmmíbátanna tekur til.

Þessi reynsla sannar, að þessi björgunartæki eru svo sjálfsögð, að það væri ekki vit í því að láta undir höfuð leggjast að lögleiða, að slíkir bátar skuli jafnan vera á öllum þeim íslenzkum skipum, sem yfirleitt eru talin heyra undir lög um eftirlit með skipum, en það eru öll skip, sem eru 12 smálestir eða stærri. Þess vegna er hér lagt til, að lagaboð verði nú sett um það, að á öllum vélbátaflotanum skuli vera gúmmíbjörgunarbátar og á öllum þeim farkosti íslenzkum, stærri en 12 smálesta, þar sem öðrum björgunartækjum verður ekki við komið.

Ég vænti þess svo, að hv. þd. skilji nauðsyn þessa máls og veiti málinu skjóta og jákvæða framgöngu, og legg ég til, að þegar þessari umr. lýkur, verði málinu vísað til hv. sjútvn.