14.02.1955
Neðri deild: 47. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (2216)

146. mál, tollskrá o. fl.

Flm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Ég leyfi mér á þskj. 348 að flytja ásamt hv. 5. landsk. þm. frv. þess efnis, að ríkisstj. verði heimilað að innheimta ekki aðflutningsgjöld af vefnaðargarni úr baðmull og gerviefnum, ef viðtakandi vörunnar rekur dúkaverksmiðju og þess er getið í aðflutningsskýrslu, að garnið verði einungis notað til framleiðslunnar

Það er ekki ástæða til þess fyrir mig að gera þessu máli ýtarleg skil í framsögu, þar sem öll höfuðatriði málsins koma fram í grg. og einnig fram í umsögn Iðnaðarmálastofnunar Íslands. En í sem stytztu máli er það höfuðatriðið að heimila ríkisstj. að fella niður aðflutningsgjöld af bómullargarni, sem ætlað er að nota til vinnslu í dúkaverksmiðjum.

Á Akureyri hefur verið starfandi síðan árið 1947 verksmiðja, sem hefur framleitt baðmullardúka úr baðmullargarni. Þetta mun vera fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar hér á landi, og það má hiklaust fullyrða, að sú tilraun, sem þar hefur verið gerð, sé á margan hátt mjög merkileg. Þessi verksmiðja hefur átt við mjög mikla fjárhagslega erfiðleika að stríða og þá ekki sízt núna síðari árin, eftir að innflutningur á vefnaðarvöru hefur orðið nær frjáls.

Á léreftsdúkum er tiltölulega mjög lágur aðflutningsolíur, og á það má benda, að léreft eru ekki á hinum svokallaða bátalista, heldur á frílista, svo að verð þessarar vöru hefur verið mun lægra en á margri annarri vefnaðarvöru, sem til landsins hefur verið flutt. Hins vegar eru nokkuð þungir tollar á baðmullargarni, og því er farið fram á, að þessir tollar verði felldir niður.

Það er minnzt á það í grg., að þegar endurskoðunin var framkvæmd á tollskránni á s. l. ári, lagði sú mþn., sem það mál hafði með höndum, til, að tollar á baðmullargarni yrðu verulega lækkaðir. Því miður féllst hv. Alþingi ekki á þetta sjónarmið, og eftir endurskoðunina héldust tollar á þessari vöru óbreyttir.

Eins og sést á grg., hefur verið leitað eftir áliti Iðnaðarmálastofnunar Íslands, og liggur það fyrir og er algerlega ótvírætt þess efnis, að lagt er til, að þessum iðnaði verði hjálpað og að ríkisstj. verði heimilað að fella niður tolla af þessum hráefni.

Ég vildi svo leyfa mér að biðja hæstv. forseta að fá þessu máli vísað til fjhn. og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.