11.03.1955
Neðri deild: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (2222)

155. mál, lækkun verðlags

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. 22. febr. var útbýtt hér í d. frumvarpi um lækkun verðlags, 24. febr. var þetta mál tekið hér á dagskrá, og þann 25. febr. var því vísað til 2. umr. og hv. fjhn.

Nú er mér ekki kunnugt um, að hv. fjhn. hafi haldið fund síðan þetta gerðist, en það er hálfur mánuður. Ég hef spurzt fyrir um það og fengið þær upplýsingar, að a. m. k. til dagsins í gær hafi þessi n. ekki haldið neinn fund í þá um hálfs mánaðar skeið eða lengur.

Þar sem þetta frumvarp, frv. til laga um lækkun verðlags, er eina jákvæða frv. og till. til lausnar þeirri kjaradeilu, sem nú stendur, sem hér hefur komið fram á þingi, og jafnframt eina jákvæða till., sem enn hefur komið fram í því máli, sem beinlínis miðar að því að koma í veg fyrir þá gengisfellingu, sem hæstv. ríkisstj. hefur hótað, þá þykir mér það afar hart, ef þessi hv. d. á að þurfa að búa við það, að málið liggi viku eftir viku hjá hv. fjhn. og ekkert sé að gert. Þess vegna hef ég kvatt mér hér hljóðs til þess að fara þess á leit við hæstv. forseta, að ef hv. fjhn. hefur ekki haldið fund um þetta mál nú um helgina, þá verði þetta mál tekið frá nefndinni og á dagskrá til 2. umr. hér í þessari hv. deild ekki síðar en á þriðjudag næstkomandi.