18.03.1955
Neðri deild: 61. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (2234)

171. mál, landkynning og ferðamál

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar um landkynningu og ferðamál, og erum við fjórir flm. að frv. Meginefni þess er að koma nýrri skipun á þau mál, sem til gagns megi verða í þessum þýðingarmiklu málum.

Fyrir nokkrum árum eða áratugum voru miklar deilur uppi um það, hvort ætti að gera landið að ferðamannalandi, reyna að auka ferðamannastraum til landsins og greiða götu þeirra. Sumir voru þá þeirrar skoðunar, að ekki ætti að auka ferðamannastrauminn og þar af leiðandi aukin erlend áhrif hér í landi og gæti verið í háska þjóðerni okkar og jafnvel sjálfstæði, auk þess sem það væri lítt samboðið Íslendingseðlinu að eiga að þjóna í stórum stíl útlendum ferðamönnum, sem hingað kynnu að koma sér til skemmtunar og upplyftingar.

Ég las nýlega greinargerð um þessi mál í Noregi, þar sem frá því er skýrt, að þessar sömu mótbárur hafi verið uppi í Noregi fyrir 50 árum, en þær séu með öllu kveðnar niður nú. Ég ætla, að sú sé annaðhvort orðin eða muni skjótlega verða niðurstaðan hér á landi einnig, að menn komist að þeirri niðurstöðu í fyrsta 1agi, að það sé ekki aðeins skaðlaust fyrir Ísland, heldur stórfellt og þýðingarmikið mál, bæði menningarlega og viðskiptalega, að greiða fyrir ferðamannastraumi hingað og sé gersamlega ástæðulaust að óttast um menningu okkar, tungu og þjóðerni, þó að við förum eins að og margar aðrar þjóðir, göngum eins og margar aðrar þjóðir í þá átt að reyna að auka ferðamannastraum, kynna landið og greiða fyrir ferðamönnum, sem hingað vilja koma. Ég ætla því, að um þessar gömlu mótbárur þurfi ekki að eyða mörgum orðum.

Þegar rætt er um landkynningu og ferða mál, verður að sjálfsögðu strax fyrir sú spurning: Er ástæða til og er tímabært að auka kynni annarra þjóða af Íslandi og örva menn til ferðalaga hingað, meðan við höfum ekki aðstöðu til þess eða viðbúnað að veita slíkum mönnum nauðsynlega fyrirgreiðslu og aðhlynningu? Verður þá að sjálfsögðu fyrst fyrir hinn átakanlegi gistihúsaskortur hér á landi. Vissulega er varhugavert að örva menn mjög til ferðalaga hingað meðan Íslendingar geta ekki tekið sómasamlega á móti þeim ferðamannastraumi. Þetta þarf því að haldast í hendur, annars vegar umbætur hér innanlands til þess að geta tekið á móti ferðamönnum og hins vegar landkynningin út á við.

Það er megintilgangur þessa frv. að reyna að koma skipun á þessi mál og nýrri hreyfingu, þannig að verulegar umbætur fáist í báðum greinum, inn á við og út á við.

Með frv. er svo ákveðið, að stofna skuli ferðamálaráð Íslands. Það á að vera skipað sjö mönnum, tveir þeirra kosnir af Alþingi, en fimm þeirra af sérstökum félögum og fyrirtækjum, sem ætla má að hafi einna mestan áhuga á og beinna hagsmuna að gæta í auknum ferðamannastraumi. Að sjálfsögðu er ætlazt til þess og beint ákveðið í 8. gr. þessa frv., að ríkisstj. hafi yfirstjórn ferðamálaráðs, hún hafi yfirstjórn allrar landkynningar og ferðamála.

Margar þjóðir aðrar hafa glímt við þessi mál, og skipan þeirra er í meginatriðum með tvennum hætti. Í sumum löndum, eins og t. d. Ítalíu, Spáni og nokkrum öðrum, er sú skipan á höfð, að sérstakt ráðuneyti hefur verið stofnað til þess að hafa yfirstjórn þessara mála. Í öðrum löndum, og þau eru miklu fleiri, er skipunin hins vegar sú, að ráð eða stofnun, hálfopinber og í sambandi við þá aðila, sem mestan áhuga og hagsmuni hafa í þessum málum, hefur yfirstjórn þessara mála. Að athuguðu máli töldu flm. réttara að fara að svo stöddu síðari leiðina, ekki að stofnað yrði sérstakt ráðuneyti né tilteknu ráðuneyti, sem fyrir væri, falin þessi mál, heldur sett á laggirnar sérstakt ráð, ferðamálaráð, sem væri hálfopinber stofnun, hið opinbera legði til í hana nokkra menn, og að sjálfsögðu væri hún undir æðstu yfirstjórn ríkisstjórnarinnar.

Þeir aðilar, sem gert er ráð fyrir að tilnefni í ráðið, eru Eimskipafélag Íslands, og er það vegna þess að Eimskipafélagið hefur með höndum að langsamlega mestu leyti flutning farþega og ferðamanna að landinu og frá sjóleiðis. Að vísu eru fleiri aðilar, sem stunda siglingar, en farþegaflutningurinn er að langsamlega mestu leyti í höndum þessa félags, og af þeirri ástæðu er gert ráð fyrir, að það tilnefni einn mann. Annar aðili er félag sérleyfishafa, þ. e. þeirra, sem annast rekstur langferðabíla á innanlandsleiðum, og vegna þess, hve þeir eru hér stór aðili, þótti rétt, að frá þeim samtökum kæmi einnig maður í ráðið. Þriðji aðilinn er svo Ferðafélag Íslands og Ferðamálafélag Reykjavikur. Ferðafélag Íslands hefur starfað hér á landi í aldarfjórðung. Það hefur ekki þann tilgang að örva erlenda ferðamenn til að koma til landsins, heldur fyrst og fremst að greiða fyrir ferðalögum íslenzkra manna um landið og kynna íslenzku þjóðinni sjálfri náttúru þess og fegurð. Á því sviði hefur Ferðafélag Íslands unnið stórmerkilegt starf. Hins vegar er nýstofnað hér í Reykjavík Ferðamálafélag, sem hefur fyrst og fremst það hlutverk að bæta aðstöðu til móttöku erlendra ferðamanna og greiða fyrir þeim málum í hvívetna. Flm. þótti rétt að gefa þessum aðilum sameiginlega kost á að tilnefna einn mann í ráðið. Þriðji aðilinn er svo Samband veitinga- og gistihúsaeigenda, en í þeim efnum þarf e. t. v. stærsta átakið á næstu árum og áratugum, þ. e. að bæta úr gistihúsaskortinum hér. Þótti því sjálfsagt, að þetta samband fengi einn fulltrúa. Þá er Flugfélag Íslands og Loftleiðir, en þessi tvö íslenzku flugfélög annast að langsamlega mestu leyti flutning farþega loftleiðis til landsins og frá því. Er því gert ráð fyrir, að flugfélögin sameiginlega tilnefni mann í ráðið.

Meginhugsunin með skipan ferðamálaráðsins er sem sagt sú, að um leið og Alþ. tilnefnir þar tvo menn, þá séu þessir aðilar, sem mest hafa fjallað um þessi mál og mestra hagsmuna hafa þar að gæta, fengnir til að leggja til menn í þetta ráð, og er þá þess að vænta, að þar verði lifandi og vakandi áhugi fyrir starfinu.

Í 3. gr. segir nánar um hlutverk ferðamálaráðsins, og eru það allýtarleg ákvæði, sem ég skal ekki rekja hér nema í stórum dráttum.

Það er fyrst gert ráð fyrir, að ráðið hafi umsjón og eftirlit með öllu sem lýtur að ferðamálum, og er skylda þess að reyna að bæta ástand þessara mála í hvívetna. Þá er í 2. tölul. gert ráð fyrir, að ferðamálaráðið annist kynningu lands og þjóðar á erlendum vettvangi, að sjálfsögðu í samráði við þau ráðuneyti, sem hér koma helzt til greina. En þau ráðuneyti eru að sjálfsögðu fyrst og fremst utanrrn., sem um leið hefur yfirstjórn allra sendiráðanna, í öðru lagi viðskmrn. og í þriðja lagi samgmrn. Við þessi ráðuneyti þyrfti ráðið að sjálfsögðu að vera í stöðugu sambandi um landkynningu. Í 3. tölul. segir, að ráðið skuli gera áætlanir og till. um skipan gistihúsamála í landinu, einkum um það, hvar einkum sé nauðsyn á nýjum gistihúsum og með hvaða hætti þeim verði komið upp. Þá er í 4. tölul. gert ráð fyrir, að ráðið hafi eftirlit með hvers konar starfsemi varðandi þjónustu og fyrirgreiðslu ferðamanna, eftirlit með aðbúð og umgengni á gisti- og veitingastöðum o. s. frv. Í 5. tölul. segir, að ráðið hafi eftirlit með bifreiðaakstri og bifreiðakosti, í 6. lið, að ráðið skuli efna til námskeiða fyrir túlka og veita þeim starfsréttindi að loknu prófi, í 7. lið, að ráðið taki við stjórn og rekstri Ferðaskrifstofu ríkisins.

Nú vil ég taka það fram, að ef við ætlum að skipa þessum málum í samræmi við það, sem er í flestum löndum Evrópu, þá ætti ríkið ekki að reka ferðaskrifstofu með svipuðu sniði og verið hefur, því að í þeim Evrópulöndum, sem vitað er um, utan Sovétríkjanna, mun skipunin vera sú, að ferðaskrifstofur eru reknar af einstaklingum eða einkafyrirtækjum, en það er ekki opinber rekstur. Hins vegar hefur svo ríkisvaldið, eins og ég gat um áðan, annaðhvort sérstakt ráðuneyti til eftirlits með þessum málum eða sérstaka stofnun eða ráð hálfopinbert.

Hér hefur hins vegar verið hafður sá háttur á, að Ferðaskrifstofa ríkisins hefur starfað. Hún var stofnuð með lögum frá 1936. Hún hefur að ýmsu leyti starfað vel og gert sitt gagn, og ætlun flm. er, að Ferðaskrifstofa ríkisins haldi áfram störfum og vinni í meginatriðum á svipuðum grundvelli og verið hefur. M. a. er tekið upp í frv. ákvæði l. frá 1947 um það, að Ferðaskrifstofa ríkisins skuli sérstaklega hafa það hlutverk að skipuleggja ódýrar orlofsferðir og orlofsdvalir og hópferðir bænda og greiða fyrir þessum málum, eftir því sem unnt er.

Í meginatriðum er því ætlazt til, að starf Ferðaskrifstofunnar og verkefni hennar verði svipað og verið hefur. En að tvennu leyti er hér gerð breyting á. Annað er það, að þessu ferðamálaráði er fengin í hendur yfirstjórn og rekstur Ferðaskrifstofunnar. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að afnema þá einokun um móttöku og fyrirgreiðslu erlendra ferðamanna, sem nú er í lögum og Ferðaskrifstofa ríkisins hefur. Það fyrirkomulag mun hvergi tíðkast í Evrópu utan Sovétríkjanna, að eitt ríkisfyrirtæki hafi slíka einokun. Og ég ætla, að flestir þeir, sem um þessi mál hafa fjallað innanlands og utan, telji, að það sé ekki ástæða til þess að halda slíkri einokun lengur og jafnvel að það sé skaðlegt að halda henni öllu lengur. Við Íslendingar erum smám saman að eignast fleiri og fleiri menn, sem hafa sérþekkingu og hæfileika á þessum sviðum, og er sjálfsagt að gefa þeim færi á að neyta krafta sinna. Það er enginn efi á því líka, að það er misjafnlega séð af mörgum starfandi ferðaskrifstofum erlendis, sem starfa á frjálsum grundvelli, að hér á Íslandi skuli vera einokun í þessum efnum.

Þessi orð segi ég engan veginn til neinna ádeilna á starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins, heldur er hér um að ræða skipulagsatriði, og tel ég það til stórra bóta, ef hér yrði tekið upp frelsi í stað einokunar.

Hitt er svo annað mál, að það er sjálfsagt, að af opinberri hálfu sé haft eftirlit með því að þeir menn, sem vilja reka ferðaskrifstofur fyrir erlenda ferðamenn, séu starfinu vaxnir, hafi til þess hæfni, menntun, þekkingu, og fyrir því er í frv. áskilið leyfi ráðherra til þess að reka slíkar skrifstofur, en áður en slíkt leyfi er veitt, skal leitað umsagnar ferðamálaráðsins. Í 8. tölul. 3. gr. segir svo, að ferðamálaráð skuli vera til ráðuneytis Alþingi og ríkisstj. um öll þessi mál.

Að öðru leyti en ég hef þegar greint er svo gert ráð fyrir í frv., að ferðamálaráðið ráði sér sérstakan framkvæmdastjóra með samþykki ráðherra, að ferðamálaráðið skuli beita sér fyrir því, að stofnuð verði sem víðast á landinu félög áhugamanna, ferðamálafélög, með svipuðu sniði og nú þegar hefur verið gert í höfuðstaðnum. Loks er svo ákveðið í 7. gr., að stofna skuli ferðamálasjóð. Hlutverk þess sjóðs á að vera að veita lán til bygginga og endurbóta á gisti- og veitingastöðum, en í þeim efnum er, eins og ég gat um, ákaflega mikill skortur og þarf á næstu árum að ráðast í stórframkvæmdir á þessu sviði.

Ég vil taka það sérstaklega fram, að ég tel rétt og skylt og alveg óhjákvæmilegt, að fjárfestingaryfirvöldin taki upp meiri fyrirgreiðslu í þessum efnum en verið hefur undanfarin ár. T. d. hafa aðilar hér í Reykjavík sótt undanfarin ár hvert árið eftir annað um fjárfestingarleyfi til að hefja byggingu gistihúss, en verið synjað mörg ár í röð. Eins og hörgullinn er mikill í þeim efnum, bæði fyrir erlenda ferðamenn og innlenda gesti, er óviðunandi, að slíkt geti staðið öllu lengur. Auk þessa á ferðamálasjóðurinn að greiða kostnað við landkynningu og önnur útgjöld samkv. þessum lögum.

Flutningsmenn ræddu marga möguleika á fjáröflun til þessa ferðamálasjóðs, og margar leiðir voru það, sem mönnum duttu í hug, en á þeim mörgum eru ýmsir annmarkar og þarf því frekari athugunar við. Niðurstaðan varð því sú á þessu stigi að leggja til, að ríkissjóður legði sjóðnum 500 þús. kr. á ári sem fast framlag; í öðru lagi, að ferðamálaráðið beitti sér fyrir því við ýmsa aðila, sem hafa beina hagsmuni af auknum ferðamannastraumi, að þeir greiði árlega frjáls framlög til sjóðsins. En varðandi aðrar fjáröflunarleiðir, sem til greina hafa komið eða mönnum kann að detta í hug síðar, er svo ákveðið, að ferðamálaráðið skuli undirbúa fyrir árslok 1955 aðrar fjáröflunarleiðir og leggja tillögur um þær fyrir Alþ. og ríkisstj.

Ég vænti þess, að hv. þdm. fallist á, að landkynning og ferðamál sé þýðingarmikið mál fyrir okkur Íslendinga, og beri að stefna að því að auka og örva ferðamannastrauminn og bæta allan aðbúnað ferðamanna, sem hingað koma. Ég vænti þess einnig, að hv. þdm. séu sammála um, að nýja skipun þurfi á þessi mál og nýja hreyfingu.

Á árinu 1953 munu hafa komið til Íslands 6400 erlendir gestir. En sama ár fóru 11600 Íslendingar til útlanda. Hér hallast því mjög á, þar sem það eru nærri tvöfalt fleiri Íslendingar, sem til útlanda fóru á þessu ári, en tala þeirra útlendinga, sem hingað komu. Hér þarf að jafna metin, ekki með því að draga úr kynnisferðum Íslendinga til annarra landa. heldur með því að bæta aðstöðuna til þess, að erlendir gestir geti hingað komið.

Hagurinn af auknum ferðamannastraumi er að sjálfsögðu bæði sá, að hinir útlendu menn kynnast Íslandi og íslenzkri menningu, sem getur haft verulega þýðingu fyrir okkur á öllum sviðum út á við síðar, og ef litið er á málið frá hreinu atvinnu-, viðskipta- og fjárhagssjónarmiði, þá er öllum ljóst, að hér er einnig um stórmál að ræða fyrir land og þjóð. Aukinn ferðamannastraumur þýðir að sjálfsögðu aukin viðskipti á flestum sviðum fyrir Íslendinga, auknar gjaldeyristekjur, og þess vegna telja ýmsar aðrar þjóðir sjálfsagt að búa að þessari starfsemi sem einni þýðingarmestu atvinnugrein.

Á næstsíðasta ári er talið, að nágrannar okkar og frændur, Norðmenn, hafi haft í gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum sem svarar 500 millj. íslenzkra króna. Á því er enginn vafi, að Íslendingar geta miklu áorkað í þessu efni til aukinna viðskipta um auknar gjaldeyristekjur með réttum vinnubrögðum í þessu efni.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri að sinni. Vænti ég þess, að málið fái góðar undirtektir og skilning á hv. Alþ., og legg til, að málinu sé visað til 2. umr. og hv. samgmn.