18.03.1955
Neðri deild: 61. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (2236)

171. mál, landkynning og ferðamál

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég held, að sé rétt að byrja á því að þakka hv. 1. landsk. þm. fyrir góðar undirtektir hans undir mörg meginatriði frv. Hann lýsir stuðningi sínum við stofnun ferðamálaráðsins og telur skipan þess heppilega, gott að fá þá aðila, sem þar eiga hlut að máli, til starfa, hann telur mikinn feng að fá ferðamálasjóðinn stofnaðan og framlag ríkissjóðs, o. s. frv. En mér finnst meginhluti ræðu hans vera byggður á misskilningi, því að það er alger misskilningur að halda hér minningarræðu um Ferðaskrifstofu ríkisins, því að það er alls ekki tilgangur frv. að taka hana af lífi, heldur þvert á móti á hún samkv. 3. gr. að starfa áfram í svipuðum anda og verið hefur.

Sú fræðsla, sem hv. þm. veitti okkur hér um starfsemi Ferðaskrifstofunnar á undanförnum árum, er mér fullkunnug áður, því að ég hef lesið hana í skýrslum frá Ferðaskrifstofunni. Ég hef ekki sagt eitt ádeiluorð í garð Ferðaskrifstofunnar og viðurkenndi einnig, að hún hefði vafalaust margt gott gert í þessum efnum.

Eftir frv. á Ferðaskrifstofa ríkisins að starfa áfram með svipuðu verkefni og verið hefur. En það, sem hv. 1. landsk. virðist aðallega hafa á móti frv., er það, að aflétta eigi einokun Ferðaskrifstofunnar á móttöku erlendra ferðamanna. Þar er vafalaust aðalágreiningsefnið milli okkar. Ég skal ekki fara hér að ræða við hann ýtarlega um einokunar- eða ríkisrekstur og einkarekstur, en dálítið skýtur þetta nú allt skökku við, þegar hann telur það mjög varhugavert, eins og hann orðar það, að við höfum sama hátt og sömu skipan á í þessum efnum og allar okkar nágrannaþjóðir og allar þjóðir í Vestur- og Suður-Evrópu, að starfsemi ferðaskrifstofa sé frjáls öllum þeim, sem fullnægja vissum þekkingar- og undirbúningsskilyrðum. Það er aðeins Ísland eitt, sem að skoðun hv. 1. landsk. þm. má alls ekki hafa þessa skipun á, og það sé varhugavert fyrir landkynningu og ferðamálin í heild, ef slíkt frelsi er gefið.

Nú vill svo til, að í nágrannalandi okkar, sem ég vitnaði til í framsöguræðu minni, Noregi, en í því landi hefur ákaflega mikið og merkilegt verið unnið í þessum málum, er starfsemi ferðaskrifstofu frjáls, eins og gert er ráð fyrir með þessu frv., og ég held, að nú um margra ára skeið hafi engar till. verið þar uppi um einokun í þeim efnum. En það vill svo einkennilega til, að í Noregi hafa flokksbræður hv. 1. landsk. þm. stjórnað í 20 ár og núna um nokkurra ára skeið með hreinum meiri hluta á þingi. Hvernig stendur á því, að flokksbræður hans í Noregi með slíka aðstöðu láta það viðgangast, að þar sé frelsi til að starfrækja ferðaskrifstofu, ef það er svona háskalegt og varhugavert fyrir þessi mál sem hv. þm. vill vera láta? Ég held, að hann þurfi engan kvíðboga að bera fyrir því, að það væri hættulegt fyrir þessi mál eða fyrir landið og kynningu þess, þó að við hefðum sömu skipun og flest önnur lönd hafa, að mönnum sé frjálst, ef þeir fullnægja vissum þekkingar- og undirbúningsskilyrðum, að reka ferðaskrifstofu. Ég er sannfærður um og við flm. allir, að það verði heldur til góðs en ills.

Það er ekki ástæða til þess að ræða þetta öllu frekar nú á þessu stigi. Hv. 1. landsk. lýsti fylgi sínu við mörg meginatriði frv. Þarna er aðeins þessi skoðanamunur: Við flm. viljum gera þessa starfsemi frjálsa, hafa hana á grundvelli frjáls atvinnurekstrar, og höfum þar til fyrirmyndar öll þau lönd, sem fremst standa í þessum málum. Ég get nefnt þar bæði Sviss, Noreg og mörg önnur lönd, þar sem þessi mál standa á mjög háu stigi. Þar er alls staðar þessi skipun á höfð um frelsi til að reka ferðaskrifstofur, en hvergi einokun.