31.03.1955
Neðri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (2254)

181. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt af landbn. samkv. ósk hæstv. landbrh. Það er samið af nefnd, sem hæstv. landbrh. skipaði 26. jan. s. l. til þess að gera till. um, á hvern hátt verði heppilegast að skipuleggja sölu og dreifingu matjurtaframleiðslu okkar, og enn fremur, hverra úrræða þurfi að leita til þess að koma þeim málum fyrir á sem hagkvæmastan hátt.

Lögin um verzlun með kartöflur voru sett 1936. Síðan hafa orðið miklar breytingar. T. d. hefur garðávaxtaframleiðslan aukizt stórkostlega, svo stórkostlega, að í sæmilegum árum eða góðum árum mun láta nærri, að hún fullnægi þörfunum, og eitt ár a. m. k., 1953, var hér meiri framleiðsla garðávaxta en unnt var að nýta, a. m. k. til manneldis. Enn fremur hafa garðávaxtaframleiðendur á þessu tímabili myndað með sér félagsskap á nokkrum stöðum. Loks hafa verið byggðar stórar og vandaðar kartöflugeymslur á nokkrum stöðum á félagslegum grundvelli.

Þessi þróun málanna hefur vissulega haft sínar verkanir, og samhliða þessu hefur Grænmetisverzlun ríkisins, að því er virðist, ekki fylgzt nægilega með þessari þróun og ekki tekizt að ná þeirri samvinnu við garðávaxtaframleiðendur, sem þurft hefði að vera. Þetta hefur svo aftur leitt af sér þrálátar kröfur garðávaxtaframleiðenda um gerbreytingu á núverandi skipulagi, og þessar kröfur hafa orðið því háværari og ákveðnari sem lengra hefur liðið. Áskorunum hefur rignt yfir framleiðsluráð árlega að beita sér fyrir breytingu, og framleiðsluráð hefur gert ítrekaðar tilraunir til þess að koma á þeirri skipan, sem framleiðendur hafa óskað eftir, en það hefur strandað á ýmsum blindskerjum. Nú er þess að vænta, að sá skriður sé kominn á þetta mál, sem endist því til farsællar lausnar. Búnaðarþing hafði þetta frv., sem hér liggur fyrir, til athugunar og umsagnar og samþykkti einróma áskorun um, að það yrði samþykkt.

Í stórum dráttum er aðalefni frv. það, að framleiðsluráð hafi á hendi yfirstjórn sölumála matjurta- og gróðurhúsaframleiðslunnar hér á landi og stuðli að því, að markaður notist sem bezt og að fullnægt verði sanngjörnum óskum framleiðenda og neytenda. Því er enn fremur ætlað að vinna að því, að garðávaxtaframleiðendur í hverju héraði, að minnsta kosti í þeim héruðum, sem árlega framleiða garðávexti til sölu, myndi með sér félagsskap á samvinnugrundvelli, eitt eða fleiri félög eftir ástæðum, sem vinni að hagsmunamálum garðávaxtaframleiðenda á sínu félagssvæði. En þar til almenn félagssamtök eru stofnuð og hafa hlotið viðurkenningu framleiðsluráðs, er gert ráð fyrir í þessu frv., að 5 manna nefnd, sölunefnd garðávaxta, sé skipuð af landbrh. Þessi nefnd á að stjórna heildsölu á kartöflum, gulrófum og gulrótum og ef til vill fleiru og sala og dreifing garðávaxta fari fram undir stjórn þessarar sölunefndar. Þetta er mjög svipað þeim ráðstöfunum, sem Alþ. á sínum tíma beitti til þess að koma söluskipulagi á aðrir framleiðsluvörur landbúnaðarins. En jafnframt er svo til ætlazt, að strax og framleiðendur sjálfir hafa myndað með sér félagsskap, taki þau félagssamtök við af þessari sölunefnd og annist um sölu garðávaxta í hennar stað. Er þá málið komið í réttar hendur að áliti nefndarinnar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um efni þessa máls, það er ýtarlega sagt frá því í grg. N., sem samdi frv., varð ekki alveg alls kostar sammála. Fjórir nm. standa að þessu frv., fimmti nm., dr. Björn Jóhannesson, gat ekki orðið n. sammála og skilaði séráliti, sem fylgir hér með grg., og verða menn að dæma um það með því að kynna sér þessi plögg.

Það eru komin hér inn á nokkur smærri atriði, nokkrar fleiri breytingar, sem hér er lagt til, en þær eru allar smávægilegar og snerta önnur atriði, og ég sé ekki ástæðu til að fara út í það nú að þessu sinni. En ég vil lýsa því yfir fyrir hönd n., að n. mun taka þetta mál til yfirvegunar og athugunar nú á milli umræðna og þá gera á því breytingar, ef henni þykir ástæða til.

Óska ég svo eftir, að málinu verði vísað áfram til 2. umr.