06.05.1955
Neðri deild: 85. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í C-deild Alþingistíðinda. (2261)

181. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Gunnar M. Magnúss):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarafurðum o. fl., er að ósk landbrh. flutt af landbn. þessarar deildar. N. áskildi sér þó rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Nokkru síðar bárust n. brtt. við frv. Voru þær nokkuð ræddar á fundum n. og hafa nú verið lagðar hér fram í d. sem till. meiri hl. landbn. og hefur verið lýst. Minni hl. n., hv. 3. landsk. (HV) og ég, taldi, að frv. væri ekki nægilega vel úr garði gert og margt á reiki um framkvæmdaratriði samkvæmt því. Við teljum einnig. að brtt. meiri hl. séu engin lausn á málinu, og leggjum því til, að málinu sé frestað.

Frv. felur í sér ákvæði um veigamikla skipulagsbreytingu um stjórn og sölufyrirkomulag landbúnaðarafurða að því er snertir garðávexti og einnig um innflutning og verzlun með kartöflur og annað grænmeti. Með till. þeim, sem fyrir liggja, er gert ráð fyrir, að Grænmetisverzlun ríkisins verði lögð niður, en stofnuð verði í hennar stað Grænmetisverzlun landbúnaðarins undir stjórn framleiðsluráðs. Hér er um svo veigamikla breytingu að ræða, að athuga verður gaumgæfilega allar aðstæður.

Svo sem augljóst má vera, er hér farið fram á óvenjulega eða einstæða breytingu, þar sem gert er ráð fyrir, að einstökum félagsskap eða einstakri nefnd skuli veitt einkasala á ákveðnum vörutegundum. Ég hygg, að með samþykkt slíkrar till. væri um algert einsdæmi að ræða í þingsögunni og mundi slík einkasöluleyfisveiting skapa viðsjárvert fordæmi.

Þegar frv. var lagt hér inn í þingið, hafði ekki verið leitað álits forstjóra Grænmetisverzlunar ríkisins á málinu, hvað þá heldur umboðsmanna grænmetisverzlunarinnar víða um land. Mætti þó ætla, að þeir menn, sem mest hafa haft þessi mál með höndum undanfarið hefðu eitthvað til málanna að leggja. N. þótti þó eðlilegt, að forstjóra grænmetisverzlunarinnar, Jóni Ívarssyni, yrði sent frv. og síðan brtt. til umsagnar. Liggja nú svör hans og athugasemdir hér fyrir, og mun ég að nokkru minnast á þær síðar.

Þrátt fyrir ýmsar bollaleggingar um þessi mál og umræður á fundum í einstöku félögum, var undirbúningi sjálfs frv. hraðað svo mjög, eftir að undirbúningsnefndin var kölluð á fyrsta fund um málið, að einn nefndarmanna, dr. Björn Jóhannesson, lýsti yfir því, að sér hefði ekki gefizt kostur eða tóm til þess að athuga þau mál, sem hér um ræðir, svo sem honum þótti nauðsynlegt. Birti hann sérstaka grg. N. var því ósammála í mörgum atriðum og klofin.

Ekki skal dregið í efa, að hæstv. landbrh. hefur viljað bæta úr einhverjum ágöllum á núverandi sölufyrirkomulagi, þegar hann lagði frv. inn í d., en þá er að athuga, hvort frv. hans fær nokkru áorkað til bóta, en hins vegar einnig að líta á þá galla. sem eru á frv.

Í þessu sambandi skal fyrst minnzt á undirbúning málsins, þá á þær tvær stofnanir, sem aðallega fjalla um þessi mál og hafa þau með höndum, þ. e. Grænmetisverzlun ríkisins og framleiðsluráð landbúnaðarins, og því næst á þau sjónarmið, sem óneitanlega verður að hafa í huga, sjónarmið framleiðenda og sjónarmið neytenda.

Um undirbúning frv. er þess getið í grg. meiri hl., að málið hafi „verið til meðferðar hjá Stéttarsambandi bænda síðan 1948, og var þá næstu ár á eftir reynt að koma fram lagabreytingum við framleiðsluráðslögin, sem þó ekki bar árangur“. Á næstu árum störfuðu nefndir í málinu, og birtust frá þeim álitsgerðir um, að heppilegt væri, að framleiðendur sjálfir stofnuðu félagssamtök, sem sæju um sölu og dreifingu matjurta. Þá segir meiri hl. n. enn fremur, að þann 23. júní 1953 hafi landbrn. falið „Jóhannesi G. Helgasyni, M. B. A., að rannsaka ástand garðræktarinnar í landinu og gera till. um skipan matjurtasölunnar. Skilaði Jóhannes ýtarlegri álitsgerð sumarið 1954“.

Ætla mætti, að sú álitsgerð, sem landbrn. lætur framkvæma í þessum efnum, yrði lögð til grundvallar þeim breytingum, sem fram komið frv. landbrh. um sama efni gerir ráð fyrir. En þó er sú einstæða hógværð viðhöfð, að hennar er ekki getið framar. Þegar ég tók að kynna mér þessi mál, taldi ég nauðsynlegt að lita í þessa álitsgerð. Ég vissi, að landbrn. hafði gefið hana út í bókarformi, en það ætlaði að reynast heldur erfitt að ná í þetta bókarkorn. Ég hringdi í stjórnarráðið og spurði um bókina, en fáir höfðu heyrt hana nefnda. Í landbrn. var mér í fyrstu svarað því, að engin slík bók væri til. Ég kvaðst vera í landbn. Nd. Alþingis og þyrfti á bókinni að halda, þar eð í grg. væri í tveimur liðum til hennar vitnað. Ég var þá beðinn að bíða í símanum, en þegar þögninni lauk, var svarið í landbrn.: Nei, það var ekki hægt að fá neinar upplýsingar um bókina og gersamlega ómögulegt að útvega eitt eintak af henni í þágu Alþ. Bókin var framandi í sjálfu landbrn., og upplagið virðist hafa týnzt. — En hér er bókin samt komin. Ég skal segja ykkur bráðum nafnið á henni. Þetta er ekkert vasakver, eins og þið sjáið, en þar sem hún liggur til grundvallar þessu frv., sem hér liggur fyrir til umr., þá er rétt og skylt að kynna hana að nokkru fyrir hv. þm., þar eð tími vannst ekki til að láta prenta hana að svo stöddu sem fskj. með áliti okkar í minni hl. og þar með til útbýtingar meðal þm. En sennilega vinnst tími til þess fyrir næsta haust, svo að hún gæti þá legið fyrir sem fróðlegt fylgiskjal.

Bókin heitir: „Álit um matjurtaræktina og drög að tillögum um skipan matjurtasölunnar, eftir Jóhannes G. Helgason, M. B. A., Reykjavík 1954.

Þar eð ekki eru eftir nema 3 eða 4 dagar til þingslita, bið ég hv. þm. að virða á betri veg, þótt ég verði að fara heldur fljótt yfir sögu að þessu sinni, en minni jafnframt á það, að þeir munu sennilega eignast bókina með haustinu, — og tel ég maklegt, að hver þm. eignist til minningar um þingsetu sína dýrasta handrit, sem gefið hefur verið út á Íslandi frá landnámsöld til vorra daga, en það hygg ég að þessi bók sé. Reynist við upplýsingar frá landbrh. annað, þá er skylt í þessum efnum sem öðrum að hafa það, er sannara reynist. Þetta mun eiga að álítast vísindarit og að því er ég hygg rétt vera, hefur höfundurinn miðað launakröfur sínar fyrir handritið við þrennt: Í fyrsta lagi við 2–3 góðar meðaljarðir, í öðru lagi við 20 tonna vélbát, í þriðja lagi við Nóbelsverðlaun. Og hygg ég, að hann hafi fengið greitt fyrir ritverkið sem svarar einum Nóbelsverðlaunum í bókmenntum. Þetta er því bæði dýr og dýrmæt bók, en svo sem ég sagði áðan, gefst aðeins lítill tími til þess að kynna hana hér á hv. Alþ. Þó vil ég fletta upp nokkrum blaðsíðum og benda á vísindamennskuna, áreiðanleikann og rökvísina, sem þar kemur fram.

Höfundur segir mjög framarlega í ritinu, að það þurfi mörg og æfð handtök til þess að rækta og koma góðum kartöflum til neytenda, og segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Hins vegar þarf framleiðslukostnaðurinn að lækka, arður framleiðenda að aukast og gæðin til neytenda. Stofnútsæðisræktunin er í byrjun. Áburðarþörfinni ætti áburðarverksmiðjan að sjá fyrir.“ Þetta væri svona svipað og stæði: Matarlystinni á þorski ætti skipshöfnin á Hallveigu Fróðadóttur að sjá fyrir.

Höfundi er mjög tíðrætt um sveiflur í sambandi við ræktunarmálin. Hann talar á einum stað um, að framleiðendur geti „dregið úr uppskerusveiflum gegnum garðlandastærðir sínar á hverjum tíma.“ Á öðrum stað: „Sveiflur í garðlandastærð skýra mismun á uppskeru að talsverðu leyti, enda er ólíklegt, að veðráttubreyting hafi ráðið þessum mismun.“ Það eru bara sveiflurnar í garðlandastærðunum og gegnum garðlandastærðirnar. Enn segir hann orðrétt: „og ekki hafi verið um stórsveiflur á garðstærðum að ræða.“ Hér er víða vísindamannslega talað og þó öllu fremur þegar hann talar um „óvegið meðaltal niðurgreiðslu á kílógramm.“ Hvað þetta „óvegna meðaltal niðurgreiðslu á kílógramm“ kartaflna er, á að liggja svo í augum uppi, að leikmaður í þessum efnum þurfi ekki að spyrja um skýringar. Ég hef þó um sinn strandað á þessu.

Höfundurinn ræðir ýmis atriði af takmörkuðum kunnugleika hins almenna borgara, og skal það sízt láð, þegar um vísindarit er að ræða, sem ætlað er að standi á hærra stigi en blaðafleipur. Til dæmis um þetta má nefna hugleiðingar höfundar um gróða grænmetisverzlunarinnar, og segir, að ekki hafi tekizt að fá upplýsingar um þann gróða. Mætti þó höfundur vita, að árlegir reikningar stofnunarinnar eru birtir með ríkisreikningunum. Þá ræðir hann um frv., sem kom ekki til kasta Alþingis. en hann segir að hafi ekki fengið samþykki Alþ.

Útreikningar og töluniðurstöður höfundar eru einnig á margan hátt lærdómsríkar. Skal um það nefnt dæmi, þar sem hann reiknar út vannýttan markað fyrir kartöflur og segir, að „miðað við verðlag í marzmánuði 1953 á fyrsta flokks kartöflum til framleiðenda var verðmæti vannýtts markaðar árlega um 9–10 millj. kr. á ári eða um 90–100 millj. kr. yfir tímabilið 1943–1952.“ Fróðir menn og kunnugir þessum málum nota allsterk orð um slíka útreikninga, því að höfundur ritsins endurtekur það oft og mörgum sinnum, að á þessu tímabili hefðu Íslendingar getað rennt niður 400 þúsund tunnum meira en þeir gerðu, og var þó allajafna nóg af kartöflum til í landinu á þessum tíma. Endurtekningar þessar eru mjög oft í bókinni og margar aðrar, og ýmsar endurtekningar eru á blaðsiðu eftir blaðsíðu, svo að eftir mínum útreikningi tel ég, að aðeins 1/3 af þessari bók hefði staðið eftir, ef engin endurtekning hefði verið í henni. Samkvæmt því hefði mátt færa kröfurnar um ritlaunin niður — síga niður í trillubátsverð eða smákots. — En þegar litið er á þetta dýrindis ritverk, má segja, að upphaf og endir þess og allt þar á milli sé árás á núverandi skipulag og þó einkum á Grænmetisverzlun ríkisins. Má telja það nokkuð furðulega ráðstöfun af landbrh. Framsfl. að kasta gífurlegum fjárfúlgum í tilraun til þess að rífa niður það skipulag, sem flokkur hans hefur verið að byggja upp á undanförnum árum. Ég sagði „tilraun“, ég held, að það sé rétta orðið.

Þá skal minnzt á þær tvær stofnanir, sem ritið og frv. fjalla mjög um. Það eru framleiðsluráð landbúnaðarins og Grænmetisverzlun ríkisins.

Samkvæmt frv. er framleiðsluráðinu ætlað líf og starf í framtíðinni, en grænmetisverzluninni búinn aldurtili. Nú hafa þessar tvær stofnanir mikil samskipti og gegna sínu hlutverki hvor, og skal ekki dregið í efa, að forráðamenn beggja stofnananna vilja, að sinn hlutur verði sem beztur, hagnýtastur og virðulegastur. Framleiðsluráð hefur óneitanlega sjónarmið framleiðenda að stefnuvita, en grænmetisverzlunin að miklu leyti sjónarmið neytenda, þar sem hún hefur á hendi sölu og dreifingu vörunnar til útsölumanna og einstaklinga.

Framleiðsluráð hefur matsákvörðun á garðávöxtum. Það skipar matsmenn og ræður matinu. Grænmetisverzlunin verður hins vegar að svara umkvörtunum frá neytendum. Er því eðlilegt, að grænmetisverzlunin geri allstrangar kröfur til matsins og vöruvöndunar. Það er óhætt að fullyrða, að framkvæmd framleiðsluráðs í þessum efnum hefur á ýmsum tímum og í ýmsu verið ábótavant, matið hefur verið ófullkomið og stundum af handahófi. En Grænmetisverzlun ríkisins fær ekki við það ráðið. Nýjasta dæmið til að sanna þessi orð eru frá deginum í gær og fyrradag. Þegar verkfallinn lauk, kom kartöflusending til Grænmetisverzlunarinnar utan af landsbyggðinni, m. a. allstór sending úr sveit austanfjalls. Samkvæmt mati framleiðsluráðs var þetta allt stimplað I. fl. vara, sem neytendur skyldu síðan þegja við. En sú er reyndin, að mikið af þessum kartöflum er ekki einu sinni II. fl. vara, heldur úrkast og ekki skepnum bjóðandi, hvað þá mönnum. Grænmetisverzlunin þurfti að láta endurmeta sendinguna, tina óætið úr og kasta því. Úr sumum pokum voru tínd allt að 5 kg af skemmdum kartöflum, eða um 10%. Þessu mikilvæga hlutverki, matinu, hefur framleiðsluráð því miður ekki fylgt af þeirri dyggð, sem nauðsyn krefur. Ber að minna á þetta, þegar till. eru fram komnar um að afhenda einmitt þessari stofnun þessi mál öll til meðferðar.

Brtt. við frv., sem fram hafa komið og meiri hl. landbn. hefur nú gert að sínum till., gerbreyta aðalefni frv. eins og landbrh. lagði það fyrir. Þar er gert ráð fyrir, að frá næstu áramótum taki til starfa Grænmetisverzlun landbúnaðarins, sem upp frá því annist innflutning og verzlun með kartöflur og annað grænmeti í „umboði framleiðsluráðs“. Jafnframt er tilgreint, að öll sú starfsemi, sem Grænmetisverzlun ríkisins hefur á hendi, falli undir starfsemi framleiðsluráðs.

Í brtt. er einnig gert ráð fyrir, að engum öðrum en þessari stofnun sé heimilt að flytja til landsins kartöflur og nýtt grænmeti. Hér er farið inn á nýja braut, sem ég minntist reyndar á í upphafi, þ. e. að veita stofnun eða fyrirtæki, sem ekki er rekið af ríkinu, heldur af fulltrúum frá einum atvinnuvegi landsins, einkarétt á tilteknum innflutningi til landsins. Löggjafarvaldið mun hingað til hafa ætlað ríkinu þann einkarétt og engum öðrum.

Þá mætti spyrja: Hver verður eigandi slíkrar stofnunar? Ekkert er um það sagt. Naumast mun það geta verið framleiðsluráð og ekki heldur ríkið sjálft, en ríkisstj. er ætlað að selja henni fasteignir grænmetisverzlunarinnar. Stofnunin mun því hvorki heyra undir ríkisrekstur né einkarekstur, eftir því sem þessi hugtök eru skilin. En hún fær söluumboð til ráðstöfunar, og er engin trygging fyrir því, að framleiðendur, neytendur eða ríkið sjálft hafi hagnað af slíku fyrirkomulagi. Það eru miklar líkur til þess, að slíkt einkaumboð og heildsöluumboð yrði misnotað og selt á leigu eða afhent einhverjum pólitískum gæðingum eða bröskurum.

Gegn þessum fram komnu tillögum um niðurlagningu grænmetisverzlunarinnar, afhendingu einkasölu í hendur einstaklinga og hinu nýja skipulagi hafa borizt mörg og gild mótmæli og rök, og þau allmörg frá þekktum framsóknarmönnum, sem mest hafa verið við þessi mál riðnir frá upphafi. Þau hafa borizt frá kaupfélagsstjórum víðs vegar um land og öðrum umboðsmönnum grænmetisverzlunarinnar, og þau hafa borizt frá búnaðarsamböndum, t. d. frá Búnaðarfélagi Hrunamanna og Búnaðarfélagi Gnúpverja. Og mótmælin halda áfram að berast. Til áréttingar skal ég aðeins lesa hér nokkrar línur úr bréfum umboðsmanna.

Í bréfi frá forstjóra stærsta kaupfélags utan Reykjavíkur segir svo, með leyfi forseta: „Vér teljum, að hag framleiðenda grænmetis verði á engan betri hátt borgið en að þeir feli þeim samtökum sínum, sem þegar eru fyrir hendi, sem sé kaupfélögunum og SÍS, að annast sölu á þessari framleiðsluvöru sinni jafnt og öðrum. Þessi samtök bænda og annarra framleiðenda til lands og sjávar hafa þegar byggt grænmetisgeymslur og á ýmsan annan hátt byggt upp aðstöðu til móttöku og dreifingar grænmetis, og virðist því augljóst, að nær sé að nota þá aðstöðu en að fara nú að leggja út í nýjar fjárfestingar og alls konar kostnað við að breyta því móttöku- og sölufyrirkomulagi, sem gilt hefur á undanförnum árum og reynzt vel.“ — Og þar segir svo að lokum: „Fari svo, að grænmetissalan verði lögð niður, virðist augljóst, að mikinn undirbúning þarf til slíkrar skipulagningar, hvernig sem henni verður háttað. Teljum við því sjálfsagt að varast að leggja út í nokkrar grundvallarbreytingar á sölufyrirkomulagi nema að mjög vel athuguðu máli.“

Í mörgum öðrum bréfum, sem hér liggja fyrir, er sams konar tónn, þó að orðalagið sé annað. Ég ætla ekki að lengja tímann með því að lesa part úr þessum bréfum, en þeir telja yfirleitt, að það sé mjög óráðlegt, og jafnvel orðar það einn framsóknar-kaupfélagsstjórinn og segir, að það sé snarvitlaust að leggja hugann að þessari breytingu, þar sem almenn ánægja hafi verið með það, sem fyrir hendi hefur verið. — Hér liggur líka fyrir hendi ályktun frá Ræktunarfélagi Hrunamannahrepps. Hún er í þeim anda að mótmæla sérhverri breytingu á þessum lögum. Telur það, að frv., sem nú er fram komið, eigi a. m. k. að hvílast eða það þurfi sérstakrar athugunar við.

Allt þetta, sem hér liggur fyrir, bæði frá kaupfélagsstjórum og öðrum þeim, sem söluumboð hafa, búnaðarfélögum o. fl., sem ég hef minnzt á, styrkir þá grg., sem við í minni hl. landbn. höfum lagt hér fram, og þar með, að rétt sé í fyrsta lagi að fresta málinu, í öðru lagi helzt að fella það.

Ég hygg því, að ég hafi lagt nóg rök fram til að sýna, að álit okkar 3. landsk. um, að málinu beri að vísa frá að þessu sinni, sé réttmætt. En að síðustu vil ég endurtaka þá spurningu, sem ég lagði fram til hæstv. landbrh.: Hvað borgaði landbrn. mikið fé fyrir ritlaun og útgáfukostnað á árásarritinu gegn hugsjónum og stefnu Framsóknarflokksins?

Að lokum vænti ég þess, að hv. d. samþykki dagskrártill. okkar um að vísa málinu frá.