09.05.1955
Neðri deild: 88. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (2263)

181. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. (GMM) flutti hér alllanga ræðu fyrir nokkrum dögum, og byggist hún að nokkru leyti á misskilningi hjá honum, vegna þess að ég tók eftir, að m. a. reiknaði hann með, að Grænmetisverzlun landbúnaðarins hefði með höndum innflutninginn á grænmeti, ef um slíkt verður að ræða, en það kemur greinilega fram af brtt. meiri hl., að ríkisstj. ein skuli hafa einkainnflutning á grænmeti.

Annars eyddi hv. þm. mestum tíma sínum í að ræða um álitsgerð þá, sem Jóhannes G. Helgason hefur gefið út, því að eins og kunnugt er, þá var honum falið að vinna úr þeim nál., sem áður höfðu komið fram í málinu. Það er búið að skipa margar nefndir til að gera till. um fyrirkomulag á sölu garðávaxta í landinu, og hefur það verið gert að tilhlutan framleiðenda í landinu, því að þeir hafa mjög óskað eftir breyttu fyrirkomulagi í þessum efnum, og Jóhannes G. Helgason skilaði allmerku áliti í þessum efnum nú á s. l. sumri. — Hv. 6. þm. Reykv. var að tala um, að hann mundi hafa fengið nokkurra jarða verð eða kannske nokkurra trillubáta verð eða andvirði Nóbelsverðlauna fyrir þessa álitsgerð. Mér er ókunnugt, hvað Jóhannes hefur fengið greitt fyrir þetta ritverk, en ég hygg, að það skipti ekki neinum jarðarverðum — ellegar þær eru þá mjög lágar í verði að áliti hv. 6. þm. Reykv.

En vera má, að hv. 6. þm. Reykv. finni til einhverjar gremju yfir því, að hann fékk ekki Nóbelsverðlaun, þegar hann ritaði Virkið í norðri, og sjái þess vegna ofsjónum yfir því, ef Jóhannes G. Helgason hefur fengið sæmilega greitt fyrir þessa álitsgerð sína. En því miður get ég ekki upplýst neitt um það. Það verða aðrir að gera.

Þá taldi hv. þm., að framleiðsluráð landbúnaðarins mundi betur gæta sjónarmiða framleiðenda en neytenda, en aftur á móti mundi Grænmetisverzlun ríkisins ávallt hafa haft neytendurna ekki siður í huga en framleiðendur, og í því sambandi minntist hv. þm. á það, að matið á kartöflunum væri mjög slælega framkvæmt. Ég skal ekkert um þá hluti dæma. En ég vil minna á það, að framleiðsluráð landbúnaðarins tekur ekki til starfa fyrr en 1947, þá seint á árinu, því að Stéttarsamband bænda og framleiðsluráðið var ekki viðurkennt með lögum fyrr en á árinu 1947, og þar til það tók til starfa hafði grænmetisverzlunin sjálf matið með höndum, og til þess að fá samanburð á því, hvort matið muni vera verra nú en áður var, þyrfti náttúrlega að rannsaka það. Ég skal viðurkenna, að það er margt öðruvísi í þessum málum en æskilegt er. En til þess að finna greinarmuninn á því, hvort matið hefur versnað nú eða ekki frá því, sem var, þegar grænmetisverzlunin hafði það, þarf að leita álits kunnugra manna þar um. Margir matsmenn eru hinir sömu og áður voru og því ástæðulaust að halda að matið sé verr framkvæmt en áður var, nema síður sé. Þess vegna tel ég, að þó að framleiðsluráðið fái þessi málefni í sínar hendur, sé engin ástæða til að ætla, að það verði verr af hendi leyst en var, vegna þess að fyrst og fremst verður framleiðsluráðið sem slíkt að hafa í huga þá sölumöguleika, sem eru á garðávöxtum í landinu, og til þess að tryggja þá ætið verður að hugsa til þeirra, sem eru neytendur; því aðeins er hægt að halda uppi sölumöguleikum og sæmilegu verði á þessum vörum. að neytendurnir séu nokkurn veginn ánægðir með þær.

Þá minntist hv. þm. á, að það væri óeðlilegt, að komið væri á fót stofnun, sem hefði einkaverzlun með grænmeti. En ég hygg, að það muni ekki vera neitt einsdæmi, þó að slíkt sé, því að á sínum tíma mun mjólkursamsalan hafa verið starfrækt af mjólkursölunefnd, og þess vegna er ekki um neitt einsdæmi að ræða, þó að hér sé komið á fót stofnun, sem annist verzlun með grænmeti og starfi undir stjórn framleiðsluráðs, sem er skipað allmörgum mönnum, sem hafa mjög víðtæka þekkingu og reynslu í sölumálum landbúnaðarins.

Enn fremur minntist hv. þm. á, að það hefðu komið mikil andmæli frá kaupfélögunum gegn frv. eins og það hefði verið lagt fyrir Alþ. Mig undraði það ekkert, en eins og landbn. hefur nú gengið frá brtt., álít ég ástæðulaust bæði fyrir kaupfélagsstjóra og aðra umboðsmenn að hafa nokkurn hlut á móti því, þar sem gert er ráð fyrir, að þeir verði umboðsmenn, ef þeir vilja, framvegis eins og verið hefur. Og það stafar af ókunnugleika nú hjá þeim, ef þeir eru óánægðir með frv., því að þeir hafa þá ekki fylgzt með þeim brtt., sem fram hafa komið og miða í þá átt að hafa þá starfsmenn eins og verið hefur.

Ég vil benda á, að það er ekki gengið fram hjá neinum aðilum, þó að þessar till. verði samþ., heldur er gengið til móts við fjölda óska, sem áður eru fram komnar í landinu, og þá sérstaklega framleiðenda. Einnig vil ég á það benda, að komið hafa óskir frá hinum sömu sem hafa haft sölu með höndum, því að það eru ekki allir, sem hafa verið það ánægðir, að þeir hafi ekki óskað eftir neinum breytingum í þessum efnum. En því aðeins hygg ég að hægt sé að vinna þessu máli gagn og garðræktinni almennt í landinu, að menn bindi sig ekki við neinn einn fastan hlut, sem þeir einblína á í þessum efnum, heldur skoði málið það vítt og breitt, að þeir geti fallizt á að færa til bóta það, sem betur má fara. Ég tel, að mjög miði í þá átt með þeim breytingum, sem hér liggja fyrir og ég er sannfærður um að hv. alþm. muni samþykkja, hvort sem það verður nú á þessu þingi eða því næsta.