09.05.1955
Neðri deild: 88. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (2264)

181. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Gunnar M. Magnúss):

Herra forseti. Hv. þm. Dal. (ÁB), frsm. meiri hl., minntist hér á nokkur atriði, sem ég f. h. minni hl. ræddi, þegar málið var á dagskrá á föstudaginn. Málið var tekið þá út af dagskrá skyndilega, og ég bjóst við því, að það væri vegna þess, að þeir, sem ég bað að svara fyrirspurnum, væru ekki viðbúnir að svara þeim og óskuðu þess vegna eftir að fá dálítið rýmri tíma. Nú hafa liðið, frá því að málið var tekið út af dagskrá, þrír dagar, og ég bjóst þess vegna við því, að hv. frsm. meiri hl. kæmi nú með svörin, því að það er ekki einskis vert að fá þau inn í þessar umr., ekki sízt af því, þegar hann segir, að þessi álitsgerð. sem ég minntist á og kom með um daginn í deildina, sé mjög merk heimild og merk álitsgerð. Hún er töluvert mikil að vöxtum, eins og ég hef sýnt áður og þm. geta fengið að athuga. þ. e. a. s. í þessu eintaki, sem ég hef haft hér, því að hv. Alþ. hefur alls ekki átt kost á því að fá að sjá þessa álitsgerð. Ég gat alls ekki fengið þessa álitsgerð sem nm. í landbn. og fékk hana þess vegna eftir öðrum leiðum. En enn þá stendur fyrirspurnin, sem var að vísu stíluð til hæstv. landbrh. um það, hvað greitt hefði verið í ritlaun og útgáfukostnað á þessu riti, sem kallað er „Álit um matjurtaræktina og drög að tillögum um skipan matjurtasölunnar“.

Fyrst með þessu riti er aðeins um drög að ræða, þá gæti maður ætlað, að till. sjálfar væru eitthvað svolítið, af því að drögin eru hátt á fjórða hundrað blaðsíður í þessu broti. Og ég vil spyrja hv. þm. Dal., hvort hann hefur ekki tök á að svara því á þessum fundi eða áður en þingi slítur, hvað kostaði að gefa þetta rit út og hvað ritlaunin voru mikil. Ég spyr: Kostaði það 100 þús. kr.? Hv. frsm. sagði áðan. að ég hefði miðað þetta við óákveðna hluti, jarðarverð eða bátsverð eða því um líkt, en nú nefni ég tölu. Kostaði það 100 þús. kr., eða var það undir því verði? Hafi höfundurinn farið fram á þessa upphæð, en ekki fengið hana. þá væri gaman að fá það líka upplýst. Þetta er nokkurs virði, þegar svona verk eru unnin að nokkru leyti bak við þing og stjórn. Það má vera, að þetta sé ekki rétt hjá mér, mér er ekki ljóst og veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. öll hefur vitað um, að þetta verk var unnið. En þá má koma í ljós, hvort einstakir ráðh. bak við ríkisstj. eða þá með ríkisstj. að baki, en bak við Alþ., láta vinna svona verk og þau séu þá, þegar allt kemur til alls, ekki frambærileg sem rök, en öllu heldur árás á þá meginstefnu, sem að vissu leyti hefur verið borin fram hér af flokksmönnum hv. frsm. meiri hl. Ég tel því ástæðu til þess að fá málið upplýst. Ef hér lægju fyrir tölur um verð á þessari bók og síðan lægi fyrir gagnger greinargerð um nytsemi hennar, þá væri til nokkurs af stað farið, vegna þess að þessi bók, eins og hún liggur hér fyrir, gefur slæmt fordæmi.

Ég vil svara með nokkrum orðum því, sem hv. frsm., þm. Dal., beindi til mín vegna ræðu minnar á föstudaginn. Hann taldi, að ræðan hefði verið á nokkrum misskilningi byggð viðvíkjandi ýmsum atriðum, t. d. um það, að einkasöluumboðið yrði afhent úr höndum ríkisins til einstaklinga. M. a. gat hann þess, að ríkið mundi eftir sem áður hafa einkasöluumboðið á innflutningi á kartöflum og grænmeti. Þetta finnst mér alls ekki rétt, því að samkv. frv. og brtt., sem hv. meiri hl. landbn. hefur borið hér fram, er það tvímælalaust afhent þeirri stofnun, sem á að taka við af grænmetisverzluninni, en aftur á móti er sú stofnun í engu samhengi við ríkisstofnun eða við ríkið eða ríkisstj., og hún er ekki heldur sjálfstæð stofnun á vegum framleiðsluráðs. Hún er þess vegna eitthvað óákveðið, sem e. t. v. má breyta eða gefa einhverjar reglur um starfsfyrirkomulag, en eftir frv. og brtt. hefur hún ekki neinn grundvöll. Hún er ekki einstaklingsfyrirtæki, hún er ekki fyrirtæki framleiðsluráðs, og hún er ekki fyrirtæki ríkissjóðs. Þetta held ég að sé óvefengjanlegt eftir frv. og brtt., sem fyrir liggja. En hvað hún getur orðið, það skal ég ekki um segja.

Í þessu sambandi skal ég minnast á, hver á að annast innflutninginn á þeim vörum, sem grænmetisverzlunin hefur haft einkasölu á, það eru kartöflur og annað grænmeti. Sé um það að ræða að afhenda þetta einkasöluumboð annaðhvort til nefndar, einstaklinga eða einhverra félaga, þá er það brotið, sem áður hefur verið a. m. k. nokkurt stefnumál Framsfl. Það er stefnumál annarra flokka líka, — það er að vísu ekki stefnumál Sjálfstfl. Það er þess vegna undarlegt, ef framsóknarmenn þurfa að fá bendingar frá flokksmönnum annarra flokka um það, að hér er flokkurinn að rífa niður sín eigin stefnumál og gengur fast fram í því, með því að landbrh. flokksins leggur fram þetta frv. og frsm. meiri hl. Landbn., þm. Dal., gengst fyrir því, að brtt. nái fram að ganga.

Þetta atriði mun því vera nokkuð einstætt í sögu Framsfl. Það er eitthvað, sem bak við þetta liggur og ekki er ljóst af því, sem hér hefur fram komið, hvorki af ræðum né heldur af grg. En það má minna á það í þessu sambandi, að Sjálfstfl. hefur að stefnumiði að leggja niður ríkisrekstur og einkasölur, og honum er ekki láandi, þó að hann fylgi þessu fram og þakki fyrir, ef hann fær framsóknarmenn í lið með sér til að koma þessum málum í framkvæmd. Allir kannast við árásir Sjálfstfl. á Skipaútgerð ríkisins og meðferð þeirra mála. Hér er komið að Grænmetisverzlun ríkisins, og mun honum þykja vel, er hann hefur fengið allmarga framsóknarmenn í lið með sér.

Hv. frsm. minntist á það, sem ég sagði um verkaskiptingu milli framleiðsluráðs og Grænmetisverzlunar ríkisins, sem hefði haft nokkra þýðingu undanfarið og yrði að athuga, þar eð framleiðsluráð mundi gæta sérstaklega hags framleiðenda, en grænmetisverzlunin hags neytenda. Ég minntist á þetta á föstudaginn í ræðu minni og benti einmitt á það, að ekki sízt af þessum sökum er nauðsynlegt, að málið sé vel undirbúið. Sé til í landinu stofnun, sem hefur það sérstaklega að markmiði á þessu sviði að gæta hags framleiðenda, þá væri ekki síður nauðsynlegt, að til væri stofnun eða félagsskapur hér í landinu á þessu sviði, sem hefði hag neytendanna að sjónarmiði. Hann er í raun og veru ekki til, nema að því leyti sem grænmetisverzlunin er fulltrúi neytendanna, þegar kvartanir koma frá þeim út af slæmu mati, slæmri vöru, og ég benti á þann galla, sem hefði verið á matinu, — stórkostlegan galla, sem hefði komið fram núna eftir verkfallið, þegar stórar sendingar af kartöflum komu utan af landi. Þær eru allar stimplaðar sem I. flokks og sendar til verzlana, og þetta eiga neytendur að taka sem I. fl. vöru, en þegar kvartanir koma, verður að fara að aðskilja það, sem skemmt er, frá hinu, og þá kemur í ljós, að það eru allt upp í 5–7 kg úr poka, sem eru ekki mannamatur og ekki skepnumatur heldur. Þetta voru I. fl. kartöflur, metnar af framleiðsluráði, sem nú heimtar að fá öll völdin í sínar hendur í þessum málum, sennilega líka fyrir hönd neytendanna.

Hér verður að segja: Hingað, en ekki lengra. Það verður að krefjast þess, að þetta frv. verði ekki samþ. á þessu þingi, enda ef til vill varla tími til þess. En þó að það sé sótt nokkuð fast, þá verður enn að benda á það, að hag neytendanna er í engu borgið með þeim till., sem hér hafa verið lagðar fram.

Það hefur verið minnzt á það, að kartöfluframleiðendur mynduðu félög með sér víðs vegar um land og hefðu nokkur ráð í þessu nýja fyrirkomulagi, sem héti Grænmetisverzlun landbúnaðarins. Ekki er heldur ákvæði um það, hvernig þessi félög skuli mynduð. Nú eru viss héruð, sem hafa marga kartöfluframleiðendur og vilja koma allri sinni framleiðslu á markaðinn, sem eðlilegt er. Þau þurfa að sækja markað sinn til kaupstaðanna og bæjanna aðallega, en þegar svo vill til, að bæirnir eru farnir að hefja mikla kartöfluframleiðslu, eins og hefur orðið núna á síðustu tímum, — má sérstaklega benda á Reykjavík, þar sem nokkrar þúsundir fjölskyldna hafa kartöfluframleiðslu og framleiðslan hefur orðið frá 30 og upp í 50 þús. tunnur árlega, — þá er hér um dálítið sérstætt mál að ræða og áreiðanlega ekki nógu hugsað af þeim, sem hér leggja fram brtt., þar sem þeir gera ráð fyrir, að kartöfluframleiðendur myndi félög. Segjum nú t. d., að það yrði gengið á milli allra þeirra kartöfluframleiðenda hér í Reykjavík, sem hafa sína smágarða; segjum, að það væru 3 þús. og þeir skrifuðu sig allir á lista til félagsstofnunar og það yrði þess vegna margfaldlega langstærsta kartöfluframleiðendafélag í landinu. Hafa þá flm. þessara brtt. athugað, hvaða áhrif það hefði á það skipulag sem þeir eru að berjast fyrir? Ég er ekki að segja út af fyrir sig, að það væri slæmt, en ef það á að fara að stofna samkv. þessum till. kartöfluframleiðendafélög, þá liggur það vitanlega fyrir, að Reykvíkingar myndi sitt félag, efli sitt félag og þar með smátt og smátt útiloki kartöfluframleiðendur úti um land frá markaði í Reykjavik. Það er vafalaust, að í góðum árum geta Reykvíkingar orðið sjálfum sér nógir.

Þetta atriði er því einnig út í loftið, að gera ráð fyrir, að slík félög verði mynduð, því að það er ekki gert ráð fyrir því, hvernig þau eigi að starfa, hvort þau eigi að mynda samband, hvort þau eigi hvert að vinna fyrir sig eða jafnvel hvert á móti öðru.

Það má gera ráð fyrir því, að kartöfluframleiðendafélag í Þykkvabænum hefði ekki sama markmið og kartöfluframleiðendafélag í Reykjavík. Hér er því verið að gera ráð fyrir stofnun félaga á svipuðum grundvelli, sem óneitanlega hlytu að vinna hvert á móti öðru í vissum tilfellum. Þessari grg. hv. meiri hl. landbn. og brtt. verður þess vegna að vísa til betri endurskoðunar eins og fleiru í frv.

Svo að ég minnist aftur á matið á kartöflunum, þá er rétt að geta þess, sem hv. þm. Dal. minntist hér á, að fyrir 1947 hefði matið verið í höndum Grænmetisverzlunar ríkisins. Hann vildi ekki leggja dóm á það, og þó benda orð hans frekar í þá átt, að hann hefði talið það sizt betra. Getur hann lagt fram nokkrar sannanir fyrir þessum orðum? Ég lagði fram sannanir fyrir þeim orðum, að mat framleiðsluráðsins væri ekki gott, en getur hv. þm. Dal. lagt nokkur rök eða nokkurt dæmi fram til þess að sanna sín orð? Það má vel vera, að hann hafi þau á reiðum höndum, en þá er líka rétt, að það komi fram, og hafi matið versnað, þá verður framleiðsluráð að þola þá gagnrýni, sem borin hefur verið fram, því að það er hart, að innlend framleiðsla þurfi að vera mjög undir mati í þessum efnum, samanborið við mat á erlendum kartöflum, sem fluttar eru inn. Ég skal ekki neita því, að það þarf efalaust að aðskilja ýmislegt frá erlendu kartöflunum, þegar kemur fram á vorið, og það sé ekki einhlítt að geyma þær. En hér er um það að ræða að koma íslenzkri framleiðslu í sem bezt horf og að hún fullnægi Íslendingum á þessu sviði, og þá verður að gera þær kröfur, að framleiðslan standist almennt mat og að það, sem talið er I. flokks vara, sé ekki III. flokks vara eða úrkast, eins og bent hefur verið á.

Þá vil ég minnast á eitt atriði, sem hv. þm. Dal. minntist á. Hann taldi sér ekki vera kunnug mótmæli frá neinum úti um land, sem hefðu andmælt þessu frv. Mér þykir það einkennilegt, ef hv. þm. Dal. veit ekki neitt um þessi mótmæli, því að þau, sem ég hef í höndunum, eru öll frá góðum og gegnum framsóknarmönnum, merkum og mikilhæfum á sínum sviðum, umboðsmönnum grænmetisverzlunarinnar og þar af leiðandi milliliðum á milli framleiðenda og grænmetisverzlunarinnar eða neytenda. Ég skal nú til þess að upplýsa þennan fáfróða þm. í þessum efnum lesa upp nokkur nöfnin og vita, hvort hann kannast við þau, og ég skal þá fyrst nefna Jakob Frímannsson kaupfélagsstjóra á Akureyri, sem er kaupfélagsstjóri stærsta kaupfélagsins utan Reykjavíkur. Kannast hv. þm. nokkuð við hann sem góðan framsóknarmann? Hann mótmælir þessu eindregið. Ég las hér dálítinn kafla úr bréfi hans um daginn. en las það ekki allt. Það er velkomið, að ég lesi það aftur, en mér þykir það einkennilegt, ef það er borið fram, að ég beri hér fram ósönn orð, þegar þau eru skjalfest hér og geta legið fyrir, og sérstaklega þar sem ég benti á þennan mann einmitt í ræðu minni um daginn. Hann segir einmitt: „Fari svo, að Grænmetissalan verði lögð niður, virðist augljóst, að mikinn undirbúning þarf til nýrrar skipulagningar, hvernig sem henni kann að vera háttað.“ Það er einmitt þetta atriði, sem minni hl. landbn. leggur áherzlu á, að það verði betri undirbúningur og tíminn til hausts eða næsta þings verði notaður til þess að undirbúa þessi mál betur. Hvað liggur annars á að hespa þessu máli af eins og sakir standa? Hvers vegna má ekki hlusta á rök með og móti í þessu máli? Þessi mál hafa hvort sem er verið á dagskrá fyrr, og í grg. meiri hl. landbn. er þess getið, að það hafi verið til umr. frá 1948, en þetta frv. og brtt. eru ekki lögð hér inn fyrr en í lok þingsins. Það eru nokkrar vikur síðan hæstv. landbrh. lagði þetta fyrir n., og hún leggur það svo breytingarlaust fram, síðan koma fram brtt., og þær brtt. gerir hv. meiri hl. landbn. að sínum, og síðan á þingið að hespa þessu af með atkvgr. og öll breytingin komin í kring 1. júlí. Reyndar var því frestað og dagurinn færður til 1. jan. 1956, en ég held, að það sé bezt að færa hann til ársins 1957. — Enn fremur segir Jakob Frímannsson framkvæmdarstjóri Kaupfélags Eyfirðinga, með leyfi hæstv. forseta: „Teljum vér því sjálfsagt að varast að leggja út í nokkrar grundvallarbreytingar á sölufyrirkomulagi nema að mjög vel athuguðu máli. Að þeirri athugun og jafnframt uppbyggingu nýs félagsskapar og nýs sölufyrirkomulags geti verið lokið fyrir 1. júlí, teljum vér hreinustu fjarstæðu, og jafnvel þótt það væri 1. jan. 1956.“

Þá er hér bréf frá Kaupfélagi Svalbarðseyrar, ef hv. þm. kannast nokkuð við það og aðrir framsóknarmenn. Þar er mikil kartöfluframleiðsla, og það hefur umboð fyrir marga kartöfluframleiðendur. Segir m. a. í því bréfi, með leyfi forseta:

„Að fenginni reynslu kaupfélagsins í samskiptum við Grænmetisverzlun ríkisins teljum vér engar líkur til, að nýr aðili, er annaðist sölu og innkaup á þeim vörum, er Grænmetisverzlun ríkisins hefur annazt, mundi leysa það hlutverk betur af hendi.“ Enn fremur: „Vér getum ekki séð, að það yrði kartöfluframleiðendum til nokkurra hagsbóta að stofnsetja aðra stofnun til að annast þau mál, sem Grænmetisverzlun ríkisins annast nú, þar sem sýnilegt er, að það gæti ekki minnkað dreifingarkostnaðinn. Kaupfélagið telur nauðsynlegt að fara áfram með söluumboð á kartöflum félagsmanna sinna, þar sem kartöflurnar hafa árum saman verið einn helzti gjaldeyrir þeirra. Vér teljum óverjandi, að þessu máli sé flýtt eins og ætlunin virðist vera, og teljum, að hyggilegt hefði verið í svo þýðingarmiklu máli sem þessu, að þeir menn, sem unnið hafa að frv. þessu, hefðu vegið og metið rökin með og móti miklu frekar en tími hefur leyft þeim.“

Svo skal ég benda hv. þm. og öðrum framsóknarmönnum á kaupfélag á Hvolsvelli í Rangárvallasýslu. Þar ætla ég aðeins að lesa tvær eða þrjár setningar. Þar segir, með leyfi forseta: „Vér teljum þessum málum stefnt í beint óefni að nauðsynjalausu fyrir skammsýni nokkurra manna, ef Grænmetisverzlun ríkisins verður lögð niður. Oss virðist stofnun sölunefndar garðávaxta í alla staði óæskileg og óþörf, en Grænmetisverzlun ríkisins hafi áfram sem hingað til sölustarfsemina á hendi um óákveðinn tíma.“

Þá er bréf úr einum bæ, þar sem kartöfluframleiðsla er mikil, og það er Akranes, frá kaupfélagsstjóranum á Akranesi, Sveini Guðmundssyni. Vil ég leyfa mér að lesa aðeins örfáar línur, með leyfi forseta. Hann segir svo: „Ég hef ætíð litið svo á, að grænmetisverzlunin væri og ætti að vera fulltrúi beggja aðila, og ég treysti henni miklu betur til að rækja það hlutverk, svo að báðum verði til hagnaðar, heldur en einhverri n., sem kosin yrði með sérhagsmunasjónarmið fyrir augum. Ég held því, að ekki komi til mála að leggja grænmetisverzlunina niður, heldur beri að efla hana sem mest, svo að hún verði enn færari að gegna því hlutverki, sem ég tel að henni sé ætlað, en það er að hugsa um hagsmuni beggja, framleiðenda og neytenda.“

Ég benti einmitt á það hér fyrr, og það viðurkenndi hv. þm. Dal., að önnur þessara stofnana, sem við höfum rætt hér um, framleiðsluráð, hefur hag framleiðenda fyrir augum, og það er eðlilegt. Grænmetisverzlunin hefur frekar hag neytendanna fyrir augum, og það er líka eðlilegt, og það er einmitt það, sem kemur hér fram í bréfi Sveins Guðmundssonar kaupfélagsstjóra, á Akranesi.

Þá vil ég minnast á bréf frá Vík í Mýrdal. Það er frá Kaupfélagi Skaftfellinga. Með leyfi forseta, vildi ég lesa hér örfáar línur. Þar segir m. a.: „Ekki tel ég miklar líkur fyrir því, að það yrði til hagsbóta fyrir framleiðendur og enn siður fyrir kaupfélagið, að þetta nýja skipulag verði tekið upp óbreytt. Hins vegar hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar, að betur þyrfti að skipuleggja sölu og verðlagningu garðávaxta heldur en verið hefur til þessa, en bezt mundi, að allar breytingar, sem gerðar kynnu að vera á þeim málum, væru gerðar í samráði við og eftir till. Grænmetisverzlunar ríkisins, sem hefur mesta reynslu og þekkingu á meðferð þessara mála.“ — Og enn segir þar: „Varðandi það að leggja Grænmetisverzlun ríkisins niður 1. júlí eða síðar er það skoðun mín, að það sé ekki rétt að fara út á þá braut og gera þá breytingu, en verði sú vitleysa (hann undirstrikar orðið „vitleysa“) gerð að leggja grænmetisverzlunina niður og fela 5 manna n. að fara með þau mál, sem hún hefur annazt undanfarið, þá er mitt álit það, að ekki skipti svo mjög miklu máli, hvort sú vitleysa (aftur undirstrikað) er gerð nokkrum mánuðum fyrr eða síðar.“

Hér er einmitt minnzt á atriði, sem ég minntist áður á, að það hafi ekki verið leitað til grænmetisverzlunarinnar, sem hér er sagt í bréfinu að hafi mesta reynslu og þekkingu á meðferð þessara mála. Það var ekki gert fyrr en við í minni hl. landbn. óskuðum þess, að forstjóra grænmetisverzlunarinnar yrði sent frv. til umsagnar — og eftir að brtt. voru fram komnar, að þær yrðu líka sendar forstjóranum. Hann sendi allýtarlegt álit um frv. og till., og það höfum við látið prenta með okkar minnihlutaáliti.

Þá mætti minnast hér á búnaðarfélög, sem hafa mótmælt þessu Það mætti minnast á Búnaðarfélag Gnúpverjahrepps, og ég vil leyfa mér að lesa hér örfáar línur til áréttingar frá búnaðarfélögunum, með leyfi forseta. Í þessu bréfi frá Búnaðarfélagi Gnúpverjahrepps segir m. a.: „Ég tel, eins og sakir standa, að hag framleiðenda mundi verr borgið með breyttu fyrirkomulagi og með öllu óviðeigandi, að breytingin taki gildi 1. júlí n. k., ef ákveðið yrði að leggja niður Grænmetisverzlun ríkisins. Jafnóárviss og kartöfluræktin hefur verið til þessa, þá tel ég, að gætilega skuli farið út í breytingar, sem ef til vill gætu haft þau áhrif, að færri ræktuðu kartöflur.“

Og þá mætti líka minnast hérna á ályktun frá Ræktunarfélagi Hrunamannahrepps, sem gerð var á aðalfundi, sem var mjög fjölsóttur. Þar var rætt um framleiðslu garðávaxta og sölu þeirra, og formaður félagsins, Sigurður Ágústsson, bar fram eftirfarandi till., sem var samþ. með öllum greiddum atkv. Með leyfi forseta, vil ég leyfa mér að lesa hana upp til kynningar hv. framsóknarmönnum sérstaklega:

„Aðalfundur Ræktunarfélags Hrunamannahrepps 19. apríl 1955 lætur það álit sitt í ljós, að ekki sé heppilegt eða ástæða til, að komi til framkvæmda það ákvæði í frv. því um breyt. á l. nr. 94 5. júní 1947, um framleiðsluráð landbúnaðarins, sem nú liggur fyrir Alþ., að leggja Grænmetisverzlun ríkisins niður og fela starf hennar sölunefnd garðávaxta, þar sem væntanlega yrði aðeins um stuttan tíma að ræða. Hins vegar leggur fundurinn áherzlu á, að þessi nýi þáttur í afurðasölulöggjöfinni verði mjög vandlega undirbúinn af hinum fróðustu mönnum á þessu sviði og þar verði að því stefnt að koma þessum málum í hið farsælasta horf með hagsmuni framleiðenda og neytenda fyrir augum.“

„Af hinum fróðustu mönnum undirbúinn“; honum hefur sennilega ekki verið kunnugt um þetta mikla álit, sem hv. frsm. meiri hl. sagði að væri mjög merkt.

Svo væri ekki úr vegi, af því að ég hef nefnt tvo aðila, að nefna þann þriðja, sem hefur og andmælt þessu kröftuglega. Ég hef nefnt framkvæmdarstjóra eða kaupfélagsstjóra nokkurra kaupfélaga. Ég hef nefnt ályktanir frá tveim búnaðarfélögum eða ræktunarfélögum. En nú er rétt að nefna álit eins manns, sem hefur haft sölu á þessum jarðávöxtum í 37 ár og hefur skipt við Grænmetisverzlun ríkisins frá stofnun hennar. Hann heitir Guðlaugur Pálsson og er á Eyrarbakka. Hann skrifar alllangt bréf um þetta, og vil ég ekki lengja tímann með því að lesa það allt, en ég ætla aðeins að lesa nokkrar línur til þess að sýna þetta sjónarmið frá þessum þriðja aðila. Þar segir m. a., með leyfi forseta: „Eins og að líkum lætur hef ég vandlega íhugað hið nýja form, sem frv. greinir frá um meðferð og sölu kartaflna, og þau áhrif, sem það mundi hafa á ræktun og sölu héðan. Ég hef enn fremur talað við nokkra framleiðendur um málið, og er það samhljóða álit mitt og þeirra, að breytingin sé sízt til batnaðar og geti jafnvel orðið til þess, að framleiðendur hér dragi verulega úr framleiðslu sinni, þar sem nú taki við nefnd einhverra framleiðenda og þá sé mjög vafasamt, hvort öllum framleiðendum verði gert jafnhátt undir höfði um sölu á framleiðslu sinni. Er og hætt við, að viðbótarkostnaður leggist á framleiðsluna umfram það, sem verið hefur, því að framleiðendur hér hafa fengið fullt verð fyrir afurðir sínar, að frádregnum beinum kostnaði við mat og flutning. Offramleiðsla ársins 1953 kann að hafa ráðið því, að frv. þetta er nú fram komið á Alþingi um breytingu á sölu garðávaxta, en ég tel það hina mestu fjarstæðu að byggja þetta breytta fyrirkomulag á þessu eina ári, þar eð í 37 ár hefur ekki verið um offramleiðslu að ræða nema á árinu 1939.“ Þetta segir nú maður, sem hefur annað sjónarmið eða ætti að hafa annað sjónarmið en kaupfélögin eða ræktunarsamböndin, því að hann er að tala fyrir hönd framleiðendanna. Hann tekur það skýrt fram, að framleiðendur mundu sízt óska eftir þessu fyrirkomulagi, en það er einmitt þetta atriði, sem hv. meiri hl. landbn. leggur áherzlu á, að það séu framleiðendurnir, sem óska þess. Hefur þetta atriði verið rannsakað nokkuð til hlítar um landið? Sé það ekki rannsakað, þá finnst mér, að orð þeirra, bæði töluð og skrifuð, hafi við tiltölulega lítil rök að styðjast.

Ég vildi gjarnan láta þetta heyrast hér,vegna þess að hv. þm. Dal., frsm. meiri hl. landbn., sagðist ekki vita um nein mótmæli. Nú veit hann þó um nokkur, og það er sennilega hægt að láta hann heyra fleiri, ef hann óskar eftir því. Og þar sem hann sagði í ræðu sinni, að hann sæi ekki, að það væri gengið fram hjá neinum aðilum, þá vil ég mótmæla því algerlega. Það er algerlega gengið fram hjá neytendunum í þessu frv. Ég skal ekki segja um það, hvort hann telur þess nokkra þörf að láta sjónarmið neytendanna í sambandi við þetta mál nokkru ráða, en ég tel þess þörf, og einmitt fyrir það, að þetta sjónarmið hefur ekki komið fram, tel ég rétt, að frv. sé látið bíða og sú rökstudda dagskrá, sem við lögðum fram, hv. 3. landsk. (HV) og ég, fái samþykki og málið verði geymt til næsta hausts.

Í sambandi við það, sem hv. frsm. meiri hl. landbn. minntist á, að það yrði ekki mikil breyting á þessum málum, nema þá í orði, að Grænmetisverzlun ríkisins héti hér eftir Grænmetisverzlun landbúnaðarins, virðist mér það svolítið meira, því að þessu fylgir heimild til þess að selja allar eignir grænmetisverzlunarinnar í hendur þessarar nýju stofnunar, og ég hef bent á það áður, að hún er ekki eign neins sérstaks og enginn veit, hver verður hennar eigandi, ef þetta frv. yrði samþ. eins og það er, hvorki ríkið, einstaklingar né nefndir. Sennilega yrði hægt að sjá einhvern veginn fyrir því seinna. En það er í sambandi við þetta atriði, sem ég legg sérstaka áherzlu á, að þetta einkasöluumboð, sem ríkið hefur haft, sé ekki afhent í hendur einstaklinga, og það ættu framsóknarmenn að sjá, að einmitt með því er brotið niður eitt af þeirra stefnumálum.

Segjum, að innflutningur á kartöflum og grænmeti yrði afhentur einhverjum heildsala hér í Rvík. Ég er ekkert viss um, að framsóknarmenn yrðu þá svo mjög ánægðir yfir þeim framgangi mála, sem þeir óska eftir nú. Grænmetisverzlun ríkisins hefur samkv. gildandi lögum ein allan innflutning og heildsölu á erlendum kartöflum og nýju grænmeti. Einhverjum verður að afhenda þetta, einhverjum einstaklingum eða einhverri nefnd eða einhverju félagi. En við mótmælum því, að þetta einkaumboð sé afhent, að ríkið afhendi það nokkrum. Við álítum, að það sé bein árás á það fyrirkomulag, sem undanfarið hefur verið í gildi og vinstri flokkar yfirleitt hafa fylgt.

Grænmetisverzluninni ber skylda til þess að hafa einhverjar birgðir á hverju ári í landinu af kartöflum. Ef til vill má gagnrýna það, að það hafi stundum verið meira af kartöflum en hefði þurft í landinu, en það verður alltaf að gera ráð fyrir skakkaföllum, og eins og undanfarin ár hafa verið, þá hafa komið toppár, þar sem kartöfluræktin hefur orðið geysilega mikil og óvenjuleg, og svo hefur kornið niður í lægðina næsta ár, en af þessu verður að taka eitthvert meðaltal, svo að það má búast við því, að það verði aldrei hægt að synda fyrir það, að það séu ekki einhverjar misfellur eða einhver mismunur í þessum málum.

Það, sem ég hef bent hér á, er til áréttingar ýmsu því, sem ég minntist á hér á föstudaginn, og ég tel mig hafa leiðrétt ýmis atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl. landbn., því að hann fór þar að sumu leyti ekki rétt með, en sniðgekk sum atriðin. Og nú vil ég óska þess á þessum fundi, að hann svari þessum fyrirspurnum, sem ég hef lagt fyrir hann í þessu efni, og þá fyrst og fremst: Getur hann orðið sér úti nú um upplýsingar um verðið á þessu grundvallarriti fyrir þessu frv.: Áliti um matjurtaræktina og drögum að tillögum um skipan matjurtasölunnar? Hvað kostaði þetta rit? Er það leyndardómur fyrir alþm., eða er ekki hægt að fá að vita það? Séu ekki gefnar upp neinar tölur hér, þá tel ég, að það, sem ég hef sagt hér, megi álítast rétt, að það hafi kostað 100 þús. kr., ritlaunin og útgáfukostnaður hafi verið 100 þús. kr. En hitt hef ég tekið fram áður, að hafa skal það, er sannara reynist, ef hæstv. landbrh. eða fulltrúar hans hér geta komið fram með aðrar tölur.

Ég legg svo áherzlu á það enn, að hv. d. fallist á rökst. dagskrá okkar hv. 3. landsk. þm. (HV) að vísa málinu frá, þar sem það sé ekki nógu rækilega undirbúið, og taki svo fyrir næsta mál á dagskrá.