09.05.1955
Neðri deild: 88. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (2265)

181. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Því miður get ég nú ekki gefið hv. 6. þm. Reykv. (GMM) upp, hvað álitsgerð Jóhannesar muni hafa kostað mikið, en væntanlega vinnst tími til þess, áður en málið fer út úr þessari hv. d., og ég vona, að hann sætti sig við það. Ég gerði ráð fyrir að hæstv. landbrh. yrði viðstaddur þessa umr. og gæti gefið nánari upplýsingar um þetta. En hitt held ég að ég geti fullyrt við hv. 6. þm. Reykv., að það hafi aldrei verið greiddar neinar 100 þús. kr. fyrir þessa álitsgerð, og hvaðan það er komið, veit ég ekki. Annars virðist nú svo margt vera komið úr annarlegum herbúðum, sem hv. þm. fer með, að það er varla um það ræðandi.

En það merkilega er, að fyrir hv. Alþ. liggja ekki ein einustu mótmæli gegn þessu frv. síðan það kom í Alþ. Það hefur hvað eftir annað, síðan ég kom í þingið, og það eru ekki mörg ár síðan, verið mótmælt frumvörpum, sem lögð hafa verið fram hér í hv. Alþ., og þá hafa mótmælin legið frammi í lestrarsal Alþ., en mér er ekki kunnugt um það, að ein einustu mótmæli liggi hér frammi í lestrarstofunni. Ef hv. 6. þm. Reykv. veit um það, þá ætla ég að biðja hann að benda mér á það. En annarra mótmæla hygg ég að Alþ. þurfi ekki sérstaklega að vera að taka tillit til, ef þeir hinir sömu aðilar hafa ekki það mikið framtak í sér, að þeir geti komið þeim hingað inn fyrir veggina. Og það merkilega er, að í öllum þessum mótmælum, sem hv. þm. las hér upp, skín í gegn, að menn óski eftir breytingum á fyrirkomulagi um garðávaxtasölu í landinu. Það er það undarlega, sem skin alls staðar í gegn. Svo vil ég benda á það, að þessi mótmæli, sem hv. þm. las upp, eru mótmæli gegn frv. eins og það var lagt upphaflega fyrir hv. Alþ., en síðan er meiri hl. landbn. búinn að gerbreyta frv. og einmitt búinn að breyta frv. í þá átt, sem miðar að óskum þessara aðila, sem upphaflega sendu mótmælin. Það er eftirtektarvert. Þess vegna er þýðingarlaust hér að vera að staglast á því, að það séu mótmæli gegn málinu eins og það liggur nú fyrir, því að ég er sannfærður um það, að fyrir þessum brtt. ásamt frv. eins og það verður, ef okkar brtt. verða samþ., er meirihlutafylgi á meðal framleiðenda og umboðsmanna Grænmetisverzlunar ríkisins og sennilega meðal neytenda líka.

Ég vil biðja hv. 6. þm. Reykv. að benda mér á, hvort mikil óánægja ríki í kjöt- og mjólkursölumálum hér á landi, og ég vil benda honum á það, að einmitt framleiðsluráð landbúnaðarins hefur yfirumsjón með allri framleiðslu landbúnaðarins, mjólk og kjöti, og mér er ekki kunnugt um, að hjá neytendum ríki nein óánægja í þeim efnum. Þess vegna tel ég, að það sé ástæðulaust og algerlega tilhæfulaust að vera nú að minnast á það, að framleiðsluráðið muni halda þannig á málefnum, eftir að það fær þessi mál í sínar hendur, að það muni verða á þann veg, að neytendur í landinu verði óánægðir með það. Ég get betur trúað hinu, að það yrði til happa fyrir neytendur, því að framleiðsluráðinu og Stéttarsambandi bænda er það vel ljóst, að fyrsta skilyrði til þess, að afurðirnar geti selzt, er það, að neytendur séu ánægðir með þær, og ef ekki er hægt að framfylgja þessum boðorðum, þá getur aldrei orðið um góða sölumöguleika að ræða. En ár frá ári hefur bæði mjólk, smjör og kjöt selzt innanlands, öll framleiðslan og þótt meira hefði verið, og virðist ríkja mikil ánægja með þetta. Og ég er sannfærður um það, að hið sama mundi gilda, þegar framleiðsluráð landbúnaðarins fengi þessi málefni í sínar hendur. En það er dálítið merkilegt, að hv. 6. þm. Reykv. og hans flokkur, kommúnistar, hefur mjög haft á oddinum, að það ætti að fyrirbyggja okur í landinu, en ég vil benda á það, að einmitt í þessu frv. felst eitt ákvæði, sem fyrirbyggir okur í landinu. Það hefur tíðkazt með garðávexti, að framleiðendur hafa komið hingað í bæinn með garðávextina og einstaka heildsalar eða smásalar hafa keypt þá, — ja, við skulum segja kg af rófunum fyrir 75 aura og selt það út á 3 kr. Þetta er það, sem hv. 6. þm. Reykv. og hans flokkur og þeir, sem mótmæla þessu frv., vilja vernda áfram. Þetta er þeirra innlegg í málið.

Þá minntist hv. þm. á, að það væri óánægja með þessa sölunefnd og þessar félagsmyndanir, sem ættu að eiga sér stað. En ég vil undirstrika það, ef hv. þm. er ekki farinn að skilja það enn þá, að þetta er algerlega búið að strika út úr frv. Þetta er strikað út með þeim brtt., sem meiri hl. n. leggur til við frv., og þess vegna er tómt mál að vera að tala um það. Og ég er sannfærður um það, ef brtt. væru sendar nú til umsagnar umboðsmanna Grænmetisverzlunar ríkisins og annarra, að þá mundu svörin verða önnur en þau, sem hv. þm. hefur lesið hér upp nú í dag.

En ég vil undirstrika það, sem ég sagði í upphafi, þegar ég hafði framsögu fyrir þessum brtt., að þetta frv. miðar að því að tryggja framleiðendum garðávaxta sömu ákvæði í lögum og gilda um aðra framleiðslu í þessu landi, og ég vil undirstrika það, að ef ekki er hægt að styrkja og styðja þessa framleiðendur eins og aðra framleiðendur, er voðinn vís, því að okkar atvinnulífi er þannig háttað nú, að ef ekki er hægt að hlúa að þeim, sem stunda grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, hvort það er heldur mjólkursala, kjötframleiðsla eða garðyrkja, þá má búast við, að fólkið fari í hrönnum frá þessum atvinnuvegum til annarra, sem virðast vera arðsamari nú í bili. Þess vegna sé ég ekki, að það sé gengið of langt til móts við garðyrkjubændur, þó að þetta frv. verði samþ. Og þegar hv. 6. þm. Reykv. er að tala um það, að þessu frv. sé stefnt gegn framsóknarmönnum, þá vil ég benda honum á það, að meiri hluti á fundum Stéttarsambands bænda er framsóknarmenn, og þar hefur verið óskað eftir breytingum á þessum málum. Þar eru einnig sósíalistar, og ég hef ekki orðið var við, að það hafi gætt neinna sérskoðana hjá þeim, heldur hafa allir bændur, hvar í flokki sem þeir hafa staðið og komið þarna saman, verið sammála um, að sala garðávaxta þyrfti breytinga við, og þess vegna óskað eftir þeim um fleiri ára skeið, án þess að það hafi nokkur hlutur verið gerður til þess að koma móts við þá. Þetta er fyrsta frv., sem miðar að því að ganga á móts við óskir þessara manna, og þess vegna vil ég skora á hv. alþm. að verða við óskum þeirra og samþ. brtt. ásamt frv. eins og það liggur nú fyrir.