09.05.1955
Neðri deild: 88. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (2266)

181. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Síðan Framsfl. hóf stjórnarsamstarf við Sjálfstfl., hefur hann smám saman verið að brjóta niður þá löggjöf, sem hann setti, meðan hann hafði samstarf við Alþfl. á sínum tíma eða á árunum 1934–38. Hver löggjöfin á fætur annarri, sem þá var sett og horfði til hinna mestu þjóðþrifa, hefur verið afnumin, eftir að Framsókn tók upp hinn nýja sið í samstarfi sínu við Sjálfstfl.

Í þessu frv. er fólgið enn eitt dæmi um þau spor, sem Framsókn er að stíga aftur á bak nú hin síðari ár. Í þessu frv., eins og það nú liggur fyrir að meðtöldum brtt. meiri hl. landbn., eru ýmis atriði, sem ég hefði kosið að ræða alveg sérstaklega við hæstv. landbrh. og gera fyrirspurnir til hans um. Ég skal aðeins geta eins, sem sýnir, að ekki er ástæðulaust að beina til hans nokkrum orðum í þessu sambandi. Í brtt. meiri hl. landbn. stendur, að undir starfssvið framleiðsluráðs skuli frá næstu ársbyrjun falla öll sú starfsemi, sem Grænmetisverzlun ríkisins hafi nú með höndum varðandi ræktun og sölu íslenzkra matjurta, en í lögunum um verzlun með kartöflur, nr. 31 frá 1943, segir, með leyfi hæstv. forseta, að hlutverk Grænmetisverzlunar ríkisins sé að annast innflutning og verzlun með kartöflur og annað grænmeti samkvæmt því, sem lög þessi ákveða, og að engum öðrum en grænmetisverzluninni sé heimilt að flytja til landsins kartöflur og annað nýtt grænmeti. Grænmetisverzluninni er þarna fengin fyrir hönd ríkisvaldsins einkasala á kartöflum og öðru grænmeti. Í brtt. n. segir nú, að þetta starfssvið skuli falla undir framleiðsluráð, sem skuli stofna verzlun, sem heita skuli Grænmetisverzlun landbúnaðarins, til þess að fara með þessi störf, m. ö. o. til að hafa með höndum einkainnflutning á kartöflum og öðru grænmeti. En í annarri brtt. n. segir, að ríkisstj. eða landbrn. skuli hafa einkarétt til að flytja til landsins kartöflur og nýtt grænmeti. Ég sé ekki, hvernig þetta tvennt getur samrýmzt. Ég sé ekki, hvernig þessar tvær brtt. geta staðizt. Nú hefur m. a. s. formaður landbn. og frsm. meiri hl. sagt og lagt á það sérstaka áherzlu, að eftir sem áður muni ríkisvaldið hafa einkaleyfi á innflutningi kartaflna og annars grænmetis. Nú er mér því spurn: Hvernig er meiningin að framkvæma þetta? Ætlar ríkisstj. sér að hafa áfram einkasöluna með höndum og annast sjálf innflutning kartaflnanna og grænmetisins, eins og síðari brtt. nefndarinnar segir, eða er það meiningin, að ríkisstj. ætli að afsala sér þessum einkainnflutningsrétti sínum til þessarar Grænmetisverzlunar landbúnaðarins, sem á að heyra undir framleiðsluráðið, sem auðvitað er alls ekki ríkisstofnun og ekki einu sinni opinber stofnun? Þetta þarf að liggja algerlega ljóst fyrir. En þetta getur ekki legið ljóst fyrir nema hæstv. landbrh. fáist til þess að segja alveg skýrt til um það, hvernig hann ætli sér að framkvæma þessi lög. Það er um þetta og margt fleira, sem mig hefði langað til þess að ræða við hæstv. landbrh., sem hefur ekki verið við þessa umræðu enn sem komið er. Ég vil því mjög mælast til þess við hæstv. forseta, að hann frestaði þessari umr. þangað til hæstv. landbrh. getur verið hér viðstaddur, til þess að þingmönnum gefist kostur á að ræða þetta mjög svo mikilvæga mál Framsfl. við hann, og vil vænta þess, að hæstv. forseti geti orðið við þessari ósk.