11.11.1954
Efri deild: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (2279)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. n. fyrir það, að hún mælir með meginatriðum þessa frv. og er því sammála, að bráðra aðgerða sé þörf. Hins vegar verð ég að játa, að sumt í framsögu hv. frsm. kom mér nokkuð á óvart, eftir að ég hafði athugað efni og orðalag 1. gr. með samanburði við núgildandi fyrirmæli um þessi efni.

Hv. frsm. ræddi um það, hvort ástæða væri til að samþ. þetta frv. eftir þær breytingar, sem n. leggur til að gerðar séu, eða hvort nægt hefði rökstudd dagskrá eða þál., og hann taldi, að það væri þó frekar ástæða til .að samþ. frv., af því að þarna væri lagt fyrir stjórnina að hefja nú þegar undirbúning og ella væri slík skylda ekki á stjórninni. Ég er þessu út af fyrir sig sammála, en ég tel, að í 1. gr. fellst töluvert meira og allt annað. Ég get ekki skilið 1. gr. á annan veg en þann, að hún ekki aðeins leggi skyldu á ríkisstj. að hefja undirbúning að stofnun og rekstri vistheimilis, heldur einnig að leggja fram nauðsynlegt fé í sambandi við stofnun og rekstur hælisins, jafnskjótt sem nauðsynlegum undirbúningi sé lokið, og verði að gera það, hvort sem fé er veitt til þess á fjárlögum eða ekki. Hv. þm. veit það allra manna bezt, svo fjölfróður sem hann er og margreyndur þingmaður, að lög eru ákaflega ólík varðandi ákvarðanir um ýmsar framkvæmdir. Sumt af því, sem tiltekið er í lögum, á því aðeins að gera, að fé sé til þess veitt í fjárlögum, og þannig er um framkvæmdirnar samkv. 37. gr. l. nr. 29 frá 1947, þar er það berum orðum tekið fram, að þessar tilteknu ráðstafanir eigi að gera, en því aðeins að fé sé veitt til þess á fjárlögum.

Þegar frv. er borið fram um að fella niður þennan fyrirvara og taka upp í þess stað svo ákveðið orðalag sem hér er, að ríkisstj. skuli gera eitthvað, þá er ómögulegt að skilja það á annan veg en þann, að ríkisstj. skuli gera þetta, hvort sem fé er veitt til þess á fjárlögum eða ekki, og við vitum, að það er ætið sá fyrirvari um fjárlög, að auk þess, sem þar er tekið upp, á að inna af hendi þær greiðslur, sem lagaskylda er til að inna af hendi. Og ég sem sá ráðherra, er þetta heyrir undir, mun skilja ákvæðið á þennan veg, ef greinin verður samþ. eins og hún liggur fyrir. Þess vegna felst í greininni stórkostlegt nýmæli frá því, sem verið hefur, og menn verða að gera upp hug sinn um það, hvort þeir telja sér fært án tillits til afgreiðslu fjárlaga að leggja þessa skyldu á ríkissjóðinn eða ekki.

Það mætti segja, miðað við skilning hv. frsm. og n. á þessu, að þá hefði í raun og veru verið eðlilegast að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá eða þál. um nauðsyn framkvæmda og ákveða svo í fjárlögum riflega upphæð til undirbúnings og framkvæmda, af því að eftir þeirra skilningi er stjórnin, hvað sem öllu öðru líður, máttlaus í málinu, nema hún fái peningana samkv. fjárlagaveitingu. En það er allt annað, sem vakir fyrir hv. flm. frv. Hann sér, að ákvæðin eru búin að vera í lögum í sjö ár, og það hefur alltaf vegna annarra þarfa ríkissjóðs dregizt úr hömlu, að fé væri veitt í þessu skyni, og þess vegna vill hann nú höggva á þann hnút og segja: Ríkisstj. á að ráðast í þessar framkvæmdir og skal taka fé úr ríkissjóði til þeirra, hvað sem fjárveitingum líður. — Í því felst auðvitað ekki, að allt skuli gert á einu ári frekar en verkast vill, að vísu. Það fer alveg eftir því, hvort ríkisstj. gæti t. d. á þessu ári eða næsta ári fengið stað, tilbúinn stað, t. d. einhvern skóla, sem stæði tómur, undir þetta; þá mundi ég telja þessi lagafyrirmæli hér alveg fullnægjandi heimild til þess að taka skólann eða þessa eign til ráðstöfunar og hefja þar rekstur, bæði borga út það, sem þyrfti til að ná tökum á eigninni, og hefja rekstur á stofnuninni, þó að ekki væri neitt fé veitt til þess arna í fjárlögum.

Ég held þess vegna, að það ríki svo mikill misskilningur á milli manna um, hvað í þessu ákvæði felst, að það þurfi frekari skoðunar við, af því að ekki tjáir, að d. samþykki hér eitt og svo líti — við skulum segja t. d. í þessu tilfelli menntmrh. þannig á, að hann hafi þarna heimild, sem sumir dm. segja, að hann hafi ekki, og alveg óvíst um, hvernig fjmrh. lítur á málið. Ég held þess vegna, að við komumst ekki hjá því að skoða þetta nokkru betur og komast að því orðalagi um þetta, sem allir séu í senn sammála um — og sammála um, hvernig skilja beri.

Ég verð einnig að láta í ljós, að ég efast um, hvort rétt er hjá hv. n. að láta það alveg í hendur ríkisstj., hvaða stofnun eða hvaða stað eigi að velja fyrir þessa stofnun. Ef það er virkilega ætlan manna að taka t. d. Staðarfell í þessu skyni, þá er langeðlilegast, að Alþingi ákveði það og geri sér grein fyrir þeim kostnaði, sem því verður samfara. Eins hef ég heyrt manna á milli fleygt, að það væri annar húsmæðraskóli, sem mjög kæmi til mála og hv. 1. þm. N-M. ef til vill er áfram um að verði tekinn í þessu skyni, Hallormsstaðarskóli. Það veltur auðvitað mjög á um kostnað og alla framkvæmd, hvor þessara skóla yrði tekinn, og það er eðlilegra, að Alþingi, sem að lokum hefur fjárstjórnina í sínum höndum, segi til um þetta, heldur en að ríkisstj. kveði á um það upp á sitt eindæmi. Ég mundi því telja æskilegra. að áður en málið væri afgr., gerðu menn sér grein fyrir því, hvar þeir vilja að þessi stofnun sé tekin upp og hvort það sé tryggt, að t. d. Staðarfellsskóli sé laus og fáanlegur, eða að hann sé heppilegri en Hallormsstaðarskóli, og geri síðan kostnaðaráætlun í sambandi við þann stað og ákveði svo annaðhvort í lögunum sjálfum eða í fjárlögum nú þegar á þessu þingi að verja því nauðsynlega fé, sem til þessara ráðstafana þarf. Þetta tel ég vera langeðlilegustu meðferð málsins, ef menn vilja raunverulega hrinda framkvæmdum af stað og láta ekki sitja við orðin ein, eins og er samkv. lögunum frá 1947. Það er einmitt vegna þess, að hv. flm. hefur gert sér grein fyrir, að góð lagaákvæði hafa litla stoð, ef ekki er í þeim ákveðin fjárveitingarheimild, sem hann flytur sitt frv. Og mér finnst n. nokkuð hafa skotið sér fram hjá þessum meginkjarna málsins.

Ég vil því gera að till. minni, að málinu verði frestað og það yrði frekar rætt milli hv. n., flm. og ríkisstj., til þess að menn kæmust að alveg ákveðinni ákvörðun um, hvað þeir vilji gera og hversu miklu fé þeir séu reiðubúnir til þess að ráðstafa í þessu skyni. Og það er einmitt vegna þess, að mér er ljós sú brýna þörf, sem hv. flm. hefur gert grein fyrir, sem ég held, að þessi meðferð málsins væri líklegri til árangurs en að samþ. nú frv., sem er ljóst að mundi verða skilið á mjög ólíkan hátt af ólíkum aðilum.