11.11.1954
Efri deild: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (2280)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég þarf nú ekki margt að segja, því að ræða hæstv. menntmrh. gefur mér ekki verulegt tilefni til þess. Hann var að svara þeirri kenningu, sem hann hefur heyrt, þótt ekki sé opinberlega hér í þinginu, að frv. væri þýðingarlaust vegna þess að ákvæðin væru þegar til í lögum. En þetta er ekki mín kenning. Ég gat aðeins um það, að ég hefði heyrt þessu fleygt meðal þingmanna og nefndi alveg sérstaklega einn hv. þm., og ég tók það fram, að ég væri ekki lögfræðingur og ég treysti mér ekki til þess að efa þar lögskýringu, en benti svo á, að jafnvel þó að þessi kenning væri rétt, þá væri frv. ekki þýðingarlaust að heldur, því að það er mjög þýðingarmikið atriði í því eftir, jafnvel þó að þessi skýring væri rétt.

Um það, hvort stjórnin megi án fjárlagaheimildar reisa þetta vistheimili eða ekki, ræddi hæstv. ráðherra nokkuð. Ég tel það reyndar ekki eins þýðingarmikið atriði og hann vildi vera láta, því að auðvitað mál er það, að þó að sá skilningur yrði ofan á, að stjórnin gæti gert það, þá mundi hún við fyrsta tækifæri leita sér fjárlagaheimildar eða heimildar á fjáraukalögunum til þess, og vitanlega hlyti reksturinn alltaf að koma á fjárlög. Það hefur verið svo með mörg mál, sem framkvæmd hafa verið samkv. sérstökum lögum, að það er ekki nema rétt í byrjun, sem slíkar framkvæmdir eru utan fjárlaganna; þær koma inn í fjárlögin, þegar stundir líða.

Ég skal ekkert hafa á móti því, sem hæstv. ráðh. stingur upp á, að málinu sé frestað til nánari athugunar. Ég er því sammála, að það sé miklu réttara, að lagaákvæði séu jafnan þannig, að allir skilji og séu á einu máli um það, hvað meint sé, og það kann vel að vera, að með frestun sé hægt að finna ótvíræðara orðalag en nú er, svo að menn verði á eitt sáttir um meininguna.

En þar sem hæstv. ráðh. nefndi, að það ætti að koma till. frá nefndinni um ákveðinn stað, og taldi, að n. hefði að nokkru vanrækt sitt starf með því að benda ekki á slíkan stað algerlega, þá er það að segja, að ég efast um, að menntmn. d. hafi þann kunnugleika, að hún sé til þess hæf að ákveða stað fyrir þetta vistheimili. Ég segi fyrir mig, að þó að bent hafi verið á Staðarfellsskólann af fræðslumálastjóra og raunar að nokkru líka af öðrum aðila, þá er ég ekki svo kunnugur Staðarfellsskólanum, — ég hef aldrei komið þar, — að ég geti lagt dóm á það, hvort hann er heppilegur staður fyrir slíka stofnun. A. m. k. mundi menntmn. að sjálfsögðu verða að hafa aðstoð sérfróðra manna um þetta atriði, og það gæti oltið á töluverðu um afgreiðslu málsins, hvort aðeins er ætlazt til þess, að orðalag 1. gr. verði gert ótvírætt, því að það ætti ekki að þurfa að taka langan tíma, ellegar hvort ætlazt er til þess, að till. komi frá menntmn. um að ákveða stað fyrir þessa stofnun. Ég get vel hugsað, að n. þyrfti allmikinn tíma til þess að geta gert rökstuddar till. um staðinn, þó að án efa mætti gera orðalagið ótvírætt með tiltölulega stuttri athugun.