11.11.1954
Efri deild: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (2281)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég stend nú ekki upp til þess að andmæla á neinn hátt þessu máli. Ég tel það gott og gagnlegt. En hv. frsm. minntist á mig nokkrum sinnum í sinni framsöguræðu. Og það er rétt, ég ræddi um það við hann, að ég kunni ekki við þann hátt, sem n. hafði á afgreiðslu málsins. Ég skildi það ósköp vel, að þessi háttur var á hafður eins og flm. bar málið fram. Þar leggur hann til, að ákveðin stofnun skuli tekin til notkunar fyrir þetta vistheimili, og hann tekur einnig upp ákveðið nýmæli, merkilegt nýmæli, um að taka með öryrkja og gamalmenni. Allt þetta skildi ég ósköp vel frá hálfu hv. flm. En nú, þegar n. fer að fjalla um málið, tekur hún öll þessi nýmæli burt, og eftir stendur þá ekkert annað en sú heimild, sem til er í lögum, sem eru í gildi. Ég hefði betur kunnað við að hafa þann hátt á að afgreiða þetta með rökstuddri dagskrá eða fá yfirlýsingu frá hæstv. ráðh. um það, að hann vildi gjarnan framkvæma málið og mundi fara að vinna að því. Það mundi kannske nægja okkur hér í d. Og ég tel því brýnni nauðsyn á þessu, að eitthvað sé gert frekar í þessu máli en gert er, þar sem þeim ber nú ekki saman, hæstv. ráðh. og hv. frsm. Hv. frsm. heldur því fram ákveðið, að eftir sem áður gildi þessi ákvæði í 37. gr. l. nr. 29 1947, að það verði að veita fé á fjárlögum. Hæstv. ráðh. segir hins vegar: Ef þetta verður samþ., þá þarf alls ekki að veita neina heimild á fjárlögum. — Ég tel ekki heppilegt, ef um þetta er verið að deila, í það óendanlega kannske, og ef til vill strandar svo allt málið á andstöðu hæstv. fjmrh., sem á að fjalla um það, hvort fé á að veita til þessa. Ég er algerlega sammála því, að málinu verði frestað og það verði athugað nánar milli n. og hæstv. ríkisstj.