09.12.1954
Efri deild: 27. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (2287)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vildi einungis skýra frá því, að málið var nú tekið á dagskrá í samráði við mig eða með vitund minni, en eins og fram kom hér hjá hv. frsm., þá óskaði ég á sínum tíma eftir því, að málið yrði tekið af dagskrá. Við urðum ásáttir um það, hæstv. forseti og ég, að það væri eðlilegast að láta reyna á það í þinginu betur með áframhaldandi þinglegri meðferð, hvaða afgreiðslu þm. óskuðu að hafa á málinu, úr því að ekkert hafi gerzt í viðtölum manna á milli eða innan n. til lausnar málinu. Hefur þó nokkuð verið rætt um það á milli einstakra þm., eins og gengur. En nú hefur hv. frsm., 1. þm. Eyf., lýst yfir því, að n. muni mjög bráðlega taka málið til meðferðar á fundi, það tel ég beinan vinning fyrir málið, og að fenginni þeirri yfirlýsingu vil ég beina því aftur til hæstv. forseta, að mér sýnist hyggileg vinnubrögð að taka málið enn af dagskrá og sjá, hvort sú meðferð, sem málið nú fær í n., geti leitt til lausnar á þessu mjög aðkallandi og viðkvæma máli.