09.11.1954
Efri deild: 14. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

10. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. frsm. hefur réttilega skýrt frá því, að meiri hl. fjhn. hefur ekki viljað fallast á brtt. á þskj. 119 og er þeim andvígur. Ég drap nokkuð á efni þeirra hér við 2. umr. og skal því stytta mál mitt mjög að þessu sinni.

Samkv. aðaltillögunni er ætlazt til þess, að kaupgjaldsvísitala hvers mánaðar verði reiknuð eftir framfærsluvísitölu næsta mánaðar á undan og verðlagsuppbótin greidd samkv. henni, í stað þess að í frv. nú er gert ráð fyrir því í 2. gr., að kaupgjaldsvísitala reiknist eftír vísítölu framfærslukostnaðar 1. febr., 1. maí, 1. ágúst og 1. nóv. ár hvert og gildi víð ákvörðun verðlagsuppbóta á laun næstu þrjá mánuði í senn, frá 1. marz, 1. júní, 1. sept. og 1. des. að telja.

Með öðrum orðum. er tilætlunin sú, að verðlagsvísitalan breytist eins og vísitalan segir til um mánaðarlega samkv. till. minni, í staðinn fyrir á þriggja mánaða fresti samkv. frv. og gildandi ákvæðum.

Það liggur í augum uppi, að tilætlunin með verðlagsuppbót á laun er sú, að launþegar séu nokkurn veginn jafnhaldnir hvað launakjör snertir, þó að verðlagið hækki, að svo miklu leyti sem vísitalan segir til um það. Því er það að minni hyggju alveg eðlilegt og rökrétt, að þessar breytingar á launum gerist jafnoft og vísitalan breytist, en það er mánaðarlega eftir útreikningum hagstofunnar.

Enginn veit, hversu verðlagssveiflur geta orðið verulega stórfelldar. Er því að sjálfsögðu meiri trygging, bæði fyrir launþega og launagreiðendur, að láta vísitöluna fylgja nokkurn veginn verðlagsbreytingunum.

Annað er í þessu sambandi, sem rétt er að benda á, og það er, að samkv. gildandi ákvæðum er auðvelt að hafa af launþegum réttmætar hækkanir á verðlagsuppbót. Ef ríkisstj. t.d. tekur sig til á síðari hluta þriggja mánaða frestsins, við skulum segja áður en vísitalan 1. maí er fundin, og greiðir þar niður stuttan tíma einhverjar ákveðnar vörutegundir, þá hefur það þau áhrif að lækka vísitöluna og þar með verðlagsuppbótina. Komi svo aftur hækkanir á eftir, næstu tvo mánuði eftir að breyting hefur skeð, þá má aftur á þriðja mánuðinum nota niðurgreiðslurnar til þess að færa verðið niður í það sama og var, þegar vísitalan síðast var ákveðin, og á þann hátt koma í veg fyrir, að nokkur uppbót fáist á laun fyrir þá verðhækkun, sem hefur staðið tvo mánuði af þeim þremur, sem verðlagsvísitalan er föst og kaupgreiðslur bundnar við hana. Það er ákaflega óheppilegt að hafa slíkt fyrirkomulag sem þetta og þess vegna að minni hyggju mikilsvert, að á þessu verði ráðin bót og tekinn upp sá háttur, sem áður var, að láta kaupgjaldið breytast mánaðarlega með vísitölu.

Nú kann að vera, að menn telji, að það sé ekki ástæða til að setja þessi ákvæði um greiðslu verðlagsuppbótar á laun starfsmanna ríkisins eða opinberra starfsmanna, en um það efni eingöngu fjallar þetta frv., meðan verðlagsuppbótin til annars launafólks, sem vinnur hjá einstaklingum og fyrirtækjum, er enn þá samkv. samningi bundin við þriggja mánaða breytingar á vísitölunni. Því þykir mér rétt, ef aðaltill. skyldi verða felld, að bera fram brtt. þá, sem er til vara á þskj. 119, en efni hennar er það, að ákvæði frv. skuli haldast óbreytt eins og þau eru nú, nema ef svo skyldi fara, að kjarasamningar milli atvinnurekenda og launþega almennt tækju upp ákvæði um, að laun skyldu greidd samkv. mánaðarlegri vísitölu, þá skyldi einnig hið sama gilda um opinbera starfsmenn, sem þessi lög fjalla um. Þetta þykir mér fullkomið réttlætisatriði, því að ég hygg, að menn telji alveg eðlilegt og sanngjarnt, að verðlagsuppbætur til starfsmanna hins opinbera, starfsmanna ríkísins, greiðist eftir sömu reglum og almennt til annarra launþega í landinu. Er það því von mín, að þó að ekki verði nú fallizt á að samþ. aðaltillöguna, þá sjái hv. þdm. sér fært að greiða atkvæði með varatillögunni, því að varla er ætlunin, að opinberir starfsmenn eigi að sæta öðrum og lakari kjörum í þessu efni heldur en launþegar almennt í landinu.