14.12.1954
Efri deild: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (2292)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls mátti skilja það á hv. flm. málsins, að hann teldi þetta hugsjónamál. Jafnframt var ekki laust við, að hann gæfi til kynna, að þingmenn væru fremur seinir af sinni reynslu til að skilja hugsjónir. Nú vil ég gera tilraun til að reka af mér þetta slyðruorð og færa sönnur á það, að ég skil þessa hugsjón flm.

Það er þannig með hugsjónir, að því beztar eru þær, ef þær eru ekki eingöngu draumsýnir, heldur raunveruleiki um leið og í samræmi við þær reglur, sem annars gilda á því sviði, sem þær koma fram.

Hv. flm. var form. í fjvn. Alþingis lengi, og ég minnist þess frá því, að ég starfaði með honum þar, að hann lagði mjög réttmæta áherzlu á það, að sjálfsagt væri, að Alþ. byggði löggjöf sína og ályktanir í fjármálum sem mest á grundvelli fjárlaga. Mér virðist, að í frv. vanti ákvæði, sem fullnægi þessari réttmætu kröfu. Og ég vil nú leyfa mér að gera tilraun til að bæta úr þessu með því að bera fram skriflega till., sem er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 1. gr. Aftan við greinina bætist: Stofnun og rekstur vistheimilisins hefst, þegar fé er veitt til þess á fjárlögum.“

Greinin fyrirskipar, að hefja skuli þegar undirbúning að stofnun og rekstri vistheimilis fyrir stúlkur samkv. fyrirmælum í öðrum lögum, og herðir þannig á þeim ákvæðum, sem þau lög fela í sér.

Þá er tekið fram í greininni, að ríkissjóði skuli skylt að leggja fram nauðsynlegt fé í sambandi við stofnun og rekstur heimilisins, sbr. þó fyrirmæli 2. málsgr. þeirrar lagagreinar, sem vitnað er til í eldri lögum og fjallar um þátttöku þeirra, sem hælisins njóta, í greiðslu rekstrarkostnaðar.

Þetta eru réttmæt fyrirmæli um að hraða framkvæmdum meira en gert er ráð fyrir í lögunum 1947. En þó er ekki rétt að sleppa því að ákveða, að ekki sé þó farið út fyrir grundvöllinn, sem ályktanir og löggjöf um fjármál ríkisins eiga að byggjast á, þ. e. a. s., að farið sé utan við fjárlög með þessa framkvæmd. Og till. mín, ef samþykkt verður, bætir því við.

Í 2. gr. laganna eru svo ný ákvæði frá hv. flm., að vísu komin inn í því formi, sem þau nú eru, frá n. þeirri, sem um málið fjallaði, og eru viðbót við það, sem tekið er fram í lögunum frá 1947.

Ég tel þess vegna, að þegar búið væri að samþykkja brtt. mína, þá væri þessi hugsjón orðin raunhæf og til bóta fyrir það, sem stefnt er að í þessum málum og menn geta vafalaust orðið sammála um að þörf sé á.