14.12.1954
Efri deild: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (2296)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég varð nokkuð hissa á afstöðu hv. þm. Barð. gagnvart till. þeirri, sem ég hef flutt. Ég var mjög hissa á henni, af því að ég hafði kynnzt þessum hv. þm. sem formanni fjvn. Hann sagði, að frv. væri flutt til þess að fella niður þau ákvæði í lögunum frá 1947, sem gera ráð fyrir því, að fé þurfi að vera til á fjárlögum, þegar hafizt er handa um stofnun vistheimilisins. Öðruvísi mér áður brá. Ég er sannfærður um, að hv. þm. Barð. hefði ekki, meðan hann var formaður í fjvn., flutt frv. til þess að komast fram hjá fjárlögunum með útgjöld ríkisins. En til hvers sem nú frv. er flutt, þá er það misskilningur hjá honum, að það missi marks, ef till. mín er samþykkt. Tilgangur frv. er samt sem áður í gildi og réttmætur, ef till. mín er samþykkt. Annars er tilgangurinn óréttmætur, hversu þýðingarmikið sem málið er.

Það er, eins og ég tók fram áðan, ákveðið í frv., að hafizt skuli handa um undirbúning. Það er ekki ákveðið, hvenær slíkt skuli gert, í lögunum frá 1947. Það er líka samkv. 2. gr., eins og hv. þm. Hafnf. sagði, ákveðið, að ríkisstj. skuli þegar hafa heimild til þess að leita eftir hentugu húsnæði, sem til kann að vera fyrir vistheimilið, eða gera samning um afhendingu þess og afnot. Hér er hert á því, að unnið sé að framgangi málsins, og þess vegna liggur ljóst fyrir, að frv. hefur sinn tilgang og ýtir málinu mjög áleiðis, ef það verður samþ. í því formi, sem hér liggur fyrir. En verði till. mín ekki samþ., þá hefur frv. þann óréttmæta tilgang, að það megi ráðast í framkvæmd, sem getur kostað 6–8 milljónir, eftir því sem mig minnir að standi í grg. hv. flm., án þess að fjárlög hafi verið byggð upp í samræmi við það.

Nú minnist ég þess, að til er annað vistheimili. Það er vistheimili fyrir drengi í Breiðuvík, sem hv. flm. hefur unnið við að koma upp og haft umsjón með rekstri á. Og ég minnist þess, að við 2. umr. fjárl. lagði hann áherzlu á, að ef ekki fengist fram till. um hækkun á fjárframlagi til hælisins, þá væri ekki um annað að gera en að leggja þar upp laupana. Í því tilfelli þekkti ég hinn gamla formann fjvn. Nú þekki ég hann aftur á móti ekki í sambandi við þetta mál, þegar hann telur, að það megi ráðast í framkvæmd, sem getur kostað margar milljónir, án þess að fé sé til hennar veitt í fjárlögum.

Með þessu vil ég undirstrika það, að till. mín er flutt eingöngu í þeim tilgangi að gera frv. samboðnara hv. deild til afgreiðslu og byggja það á þeim grundvelli, sem ætlazt er til að Alþ. byggi á löggjöf sína um útgjöld ríkissjóðs.