15.12.1954
Efri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (2300)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skil vel áhuga hv. þm. Barð. fyrir þessu máli, sem hann telur hugsjónamál. „Þegar hugsjónir fæðast, fer hitamagn um önd“, og þess vegna skil ég líka hans heitu orð við umræðurnar í gær. En hitt skil ég miður, hvers vegna hann beitir áhuga sínum og andhita til þess að koma málinu fram á þennan hátt, en beitir sér ekki til þess að fá fjárveitingu tekna upp í þau fjárlög, sem nú hafa verið í smíðum og eru enn í smíðum, — fjárveitingu til vistheimilisins, sem gert er ráð fyrir í lögum frá 1947 að stofnað verði. Mér finnst það, eins og ég minntist á í gær, ekki fara vel fyrrverandi formanni fjvn., kröfuhörðum um, að fjármál ríkisins væru í lagi og ekki væri stofnað til hallarekstrar. Mér finnst líka, að það sitji ekki vel á stuðningsmanni ríkisstjórnar að vilja koma henni í þá aðstöðu, sem hún kæmist, ef frv. þetta yrði samþykkt, án þess að fjárveiting lægi fyrir samkvæmt fjárlögum.

Hv. flm. benti á það, að samkv. 24. gr. fjárlaga væri hér ekki farið út af grundvelli fjárlaganna. Það er rétt, að í þeirri gr. er gert ráð fyrir því, að þær tekjur og þau útgjöld, sem stofnað er til með löggjöf, bætist við fjárlögin samkv. þessari gr. En hún er ekki til þess gerð, að samþykkja megi jafnhliða fjárlögum hvaða útgjöld sem verkast vill á ríkissjóðinn. Það gilti lítið að afgreiða að nafninu til hallalaus fjárlög, en samþykkja utan við þau með tilliti til 24. gr. útgjöld, sem stofnuðu til hallarekstrar. Ég vil ekki taka þátt í slíkum leik.

Hv. frsm. menntmn., sem hafði mál þetta til meðferðar, tók fram í framsöguræðu sinni við upphaf 2. umr., að hann liti svo á, að þó að frv. yrði samþ., þá giltu enn ákvæðin í 37. gr. laganna frá 1947 um, að ekki mætti stofna hælið, nema til þess væri búið að veita fé í fjárlögum. Þetta skilst mér að hafi verið afstaða n., þegar hún mælti með frv. Hins vegar lýsti hæstv. dómsmrh. því yfir, að hann liti öðruvísi á þetta efni og liti svo á, að ef frv. yrði samþ., yrði ríkisstj. að framkvæma það, hvað sem fjárlögum liði. Og hv. flm. tók það fram í gær, að einmitt þetta atriði væri höfuðtilgangur síns frv.

Nú er það svo, að hér stangast skoðanir, og ekki er hægt að segja um það, hvor hefur rétt fyrir sér, frsm. nefndarinnar eða hæstv. dómsmrh., þó að ætla mætti að vísu, að hinn mikilhæfi og hálærði lögfræðingur, hæstv. dómsmrh., skildi málið til hlítar. En þar við bætist svo, að hæstv. dómsmrh. er þátttakandi í þeirri stjórn, sem á að taka við málinu, ef frv. verður samþ., og framkvæma það, sem þar er fyrir mælt, og má þá ætla, að hans skilningur ríki þegar stjórnin tekur við málinu. Til þess nú að útiloka allan misskilning í þessu efni og tryggja það, að með þessu frv. verði ekki komið aftan að fjárlögunum, þá hef ég flutt mína till. og vænti þess, að hún verði samþykkt.