15.12.1954
Efri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (2301)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Hv. þm. S-Þ. skýrði rétt frá því nú í ræðu sinni, hvernig ég hefði túlkað frv. og skilning á því þegar í framsöguræðu minni við 2. umr. málsins, og hygg ég, að sá skilningur hafi verið nefndarinnar allrar, sem sé sá, að stofnun og rekstur þessa fyrirhugaða vistheimilis fyrir stúlkur væri háður sömu lögum og skilyrðum og hverjar aðrar framkvæmdir ríkisins, að til þess þyrfti fjárveitingu í fjárlögum. Ég bendi á það, hvernig 1. gr. frv. hljóðar: „Hefja skal þegar undirbúning að stofnun og rekstri vistheimilis fyrir stúlkur samkvæmt fyrirmælum 37. gr. laga nr. 29 9. apríl 1947.“ En þessi gr., sem frv. vitnar til í lögunum frá 1947, segir skýrum orðum: „Ríkisstjórninni er skylt, eftir því sem fé er veitt til þess í fjárlögum, að setja á stofn og reka hæli, þar sem vistuð skulu börn og ungmenni, sem framið hafa lögbrot eða eru á annan hátt á glapstigum.“ Það kann að vera, að lögfræðingar geti fundið út aðra skýringu á því en ég gat fyrir hönd nefndarinnar, en það er mér sem leikmanni óskiljanlegt. En eins og hér hefur verið tekið fram, er langt frá því, þó að þessi skilningur sé á frv., að frv. sé þýðingarlaust. Frv. leggur ríkisstjórninni eftir sem áður vissar skyldur á herðar. Fyrst og fremst skal samkv. 1. gr. hefja nú þegar undirbúning að stofnun og rekstri vistheimilis fyrir stúlkur. Í öðru lagi gefur 2. gr. ríkisstj. heimild til að leita eftir hentugu húsnæði, sem til kann að vera fyrir vistheimilið, og gera samning um afhendingu þess og afnot. Enn fremur er henni heimilað að taka húsnæði, sem ríkið á eða hefur umráð yfir, til þessara nota. Ég geri ekki ráð fyrir, jafnvel þó að skilningur hv. flm. og hæstv. ráðh. á frv. væri réttur, að vistheimilið kæmist miklu fyrr á stofn en gæti orðið eftir hinum skilningnum.

Ef frv. verður samþ. eins og það liggur núna fyrir, þá ber að hefja undirbúning að stofnun þess. Ég geri ráð fyrir, að sá undirbúningur taki næsta ár og að það verði nógur tími á næsta þingi til þess að leita fjárlagaheimildar til að stofna heimilið.

Það voru fyrir 12 árum, og það að mínu eigin frumkvæði, samþ. hér á Alþ. lög um, að það skyldi reisa þingmannabústað. Orðalag á því ákvæði var ákaflega svipað og hér í þessu frv. Hæstv. ríkisstj. hefur þó séð sér fært að þrjózkast við það í 12 ár að reisa þennan þingmannabústað, og það hygg ég að sé af því, að hún hafi ekki talið sér skylt að gera það, nema fé væri sérstaklega veitt til þess í fjárlögum, þó að þarna í lögunum frá 1943 sé tvímælalaust lagaheimild — alveg eins tvímælalaus og í þessu frv. Nú var þessum lögum breytt í fyrra, þannig að ákveðið var, að hefja skyldi undirbúning á yfirstandandi ári á þeirri framkvæmd. Sá undirbúningur er þegar hafinn, og það álít ég ákaflega mikilsvert, og ég spái því, að það verði til þess, að þingmannabústaðurinn rísi loksins af grunni, þó að það fari nú svo, að sennilega geti upphafsmaður þess máls ekki notið mikils þar af.

Af þessum ástæðum, sem ég hef nú greint, hefði ég talið, að brtt. hv. þm. S-Þ. væri óþörf, hún segði ekkert annað en það, sem frv. segir. En eins og hann tók fram og hér hefur komið fram, er þessi skilningur vefengdur, sem nefndin hefur á frv., og þá má segja, að sé a. m. k. öruggara að samþ. þessa till., því að ég álít, að það sé engin meining í því, og er í því efni alveg sammála hv. þm. S-Þ., að vanda mjög til um afgreiðslu fjárlaga og samþ. svo lög við hliðina á fjárl., sem heimila hinar og aðrar greiðslur utan fjárlaga. Ég veit, að þetta hefur verið gert og slíkar heimildir hafa stundum verið notaðar, en slíkt er engu að síður ósiður. Ég held, eftir því sem mér hefur verið skýrt frá, að slíkt mundi koma algerlega í bága við samkomulag þeirra flokka, sem stjórnina styðja, um afgreiðslu fjármála á þessu þingi yfirleitt. Þar af leiðandi, til þess að taka af öll tvímæli, mun ég nú fyrir mitt leyti greiða atkv. með brtt., jafnvel þó að ég álíti, að hún breyti engu, ef frv. er rétt skilið og túlkað.