19.10.1954
Efri deild: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (2321)

16. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, þá er lágmarkshvíldartími skipverja á botnvörpuskipum við veiðar nú ákveðinn með lögum 8 stundir, og hefur verið svo lengi. Undanfarin ár hafa þrásinnis verið flutt hér á Alþ. frv. um að hækka þennan lágmarkshvíldartíma upp í 12 stundir á sólarhring, þannig að upp verði teknar fjórskiptar vökur á skipum og menn vinni 6 tíma og hvílist svo 6 tíma á eftir. Alþingi hefur ekki til þessa fengizt til þess að gera breytingu á lögunum um hvíldartíma háseta á íslenzkum botnvörpuskipum. Hins vegar hefur með samningum milli útgerðarmanna og sjómanna það áunnizt, að nú er viðurkennt og umsamið milli þessara aðila, að hvíldartíminn við saltfiskveiðar skuli vera 12 stundir á sólarhring. En jafnan þegar deilur eru um kaup og kjör togarasjómanna, þá er hvíldartíminn eða vinnutíminn, hvað sem menn vilja kalla það, eitt af stærstu deiluatriðunum og því, sem stöðugt torveldar að ná samningum og gerir allar slíkar viðræður örðugri en ella mundi. Það verður að segjast, að það gefur ekki fagra mynd af Alþ., að árum eftir að samtökunum hefur tekizt að koma sér saman um 12 stunda lágmarkshvíld á saltfiskveiðum, skuli enn haldið í hin gömlu ákvæði í löggjöfinni um 8 tíma hámarkshvíld.

Ég hygg, að þetta frv. hafi ekki fyrr verið borið fram hér í þessari hv. d., þó að það hafi verið lagt fram á þingi nokkuð oft á undanförnum árum. Mér þykir því rétt að reyna nú undirtektir hv. þingmanna í þessari hv. d. og vildi mega vænta þess, að þeir viðurkenni í fyrsta lagi réttmæti og nauðsyn þessa máls, sem er að minni hyggju alveg augljós.

Í hverri starfsgreininni af annarri er nú upp tekinn 8 stunda vinnudagur og í einstökum atvinnugreinum jafnvel skemmri. Enginn ber brigður á það, að fiskveiðar og sjómennska á togurum sé flestum, ef ekki öllum öðrum atvinnugreinum erfiðari og vosmeiri. Þetta eitt út af fyrir sig ætti að vera rík ástæða til þess, að togarasjómönnum væri tryggður nauðsynlegur hvíldartími á hverjum sólarhring, til þess að þeir geti unnið af fullri orku þann tíma, sem þeir standa við vinnu. Það eykur bæði afköst þeirra og dregur mjög úr slysahættu á skipunum, sem jafnan er mest, þegar menn eru teknir að þreytast.

Hitt atriðið, sem ég vildi benda á þessu máli til stuðnings, er það, að varla getur talizt Alþ. samboðið að vera svo langt á eftir samtökum útgerðarmanna eins og raun ber nú vitni. Þeir hafa fallizt á það og um það samið, að á saltfiskveiðum skuli hvíldartíminn vera 12 tímar á hverjum sólarhring, og ég sé ekki annað en að fullvíst megi telja, að innan ekki langs tíma lánist í gegnum stríð og baráttu milli sjómanna og útgerðarmanna, ef ekki er önnur leið opin, að fá einnig hvíldartímann á öðrum tegundum veiða upp í hið sama. Ég teldi það miklu skipta einmitt upp á sambúð og samningsmöguleika milli útgerðarmanna og togarasjómanna, að Alþ. tæki hér skarið af, létti þessa samninga og auðveldaði þær deilur, sem jafnan rísa um kaup og kjör öðru hverju, með því að ákveða lágmarkstímann, eins og hér er gert ráð fyrir, á öllum veiðum 12 stundir.

Eins og nú er háttað veiðum íslenzkra togara og með þeim mannafla, sem jafnan er á þeim nú orðið, er ekki ástæða til þess að ætla, að þetta mundi valda stórkostlegri breytingu á kostnaði hjá útgerðinni. Og margir ætla, að einmitt á þennan hátt muni aukin afköst og minni slysahætta nokkurn veginn vega á móti því. sem kostnaðurinn kynni að aukast á ísfiskveiðum, ef þessi breyting yrði staðfest.

Hv. Nd. hefur ekki viljað sinna þessu máli til þessa. Nú liggur fyrir frv. um sama efni í hv. Nd., og ég vildi mega vænta þess, að þessi hv. d., sem nú fær málið til meðferðar í fyrsta skipti nú a. m. k. um allmörg ár, vildi nú sýna betri hug til þessa máls en Nd. hefur sýnt til þessa.

Fyrir efni frv. þarf ekki að gera betur grein en gert er í grg. og 1. gr. frv. Ætlunin er, að ef það verður samþ., þá verði vökuskiptin þannig, að það verði fjórar 6 stunda vökur á hverjum sólarhring, þannig að menn vinni 6 tíma í einu, fái síðan 6 tíma hvíld og svo aftur 6 tíma vinnu, eins og greinilega er tekið fram bæði í frv. og grg.

Þetta er eitt af mestu áhugamálum sjómanna í sambandi við trygginguna á sinni vinnu og sínum kjörum og mundi án efa, ásamt þeim samningum, sem gerðir voru á síðasta sumri, auðvelda mjög að fá valda menn, góða, vana og duglega sjómenn á skipin, sem um tíma var kvartað um að gengi erfiðlega að fá, vegna þess að kjörin þá voru ekki sambærileg við það, sem menn gátu vænzt að vinna sér inn í landi. Ef þetta frv. yrði samþykkt og með þeim launabreytingum, sem fram fengust með samningum á s. 1. sumri, hygg ég að mætti tryggja, að það yrði jafnan valið lið, sem veldist á togarana, og það er enginn vafi á því, að fyrir útgerðina í heild sinni er það stórkostlegur vinningur og tvímælalaust meiri aflavon þar að fá heldur en sem svarar þeim kostnaði, sem kynni að leiða af samþykkt þessa frv.