05.11.1954
Efri deild: 12. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (2330)

59. mál, iðnskóli í sveit

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Mér þykir leitt, að það hefur staðið þannig á tvisvar sinnum, þegar þetta mál hefur komið hér fyrir, að ég hef verið forfallaður og ekki getað mætt hér til þess að segja þau fáu orð, sem ég nú mun segja við framsögu þessa máls við 1. umr. þess.

Þetta frv. er gamalt hér, eins og hv. þdm. kannast við. Það var flutt á árunum 1945 og 1946, en þá var frv. að vísu með nokkuð öðrum hætti en það er nú. Síðan var það flutt 1947 og 1948 og þá í svipuðu formi og það liggur fyrir nú. Málið hefur þess vegna verið gaumgæfilega athugað hvað eftir annað og er nú komið í það form, sem ætla mætti að menn gætu almennt sætt sig við.

Eins og frv. ber með sér, er nú eingöngu ætlazt til, að í skóla þessum sé gegnt því hlutverki að mennta unga menn í húsasmiðum, en áður var frv. miklu víðtækara og tók yfir miklu fleiri greinar, enda þá ætlazt til þess, að skólinn væri stærri en nú er til ætlazt. Vegna þess að slíkur skóli sem þessi er ekki til áður, er ekki óeðlilegt, að byrjað sé á þessari einu grein, þar sem mest er aðkallandi að fá fleiri iðnaðarmenn en nú er völ á, og síðan, ef vel gengur með þessa einu grein, er hægt að byggja ofan á þá undirstöðu og fjölga greinunum og stækka skólann.

Skólar af þessu tagi eru víða til erlendis, og það má þykja næsta undarlegt, að ekki skuli vera til slíkur skóli hér á landi, og því undarlegra er það, þar sem við höfum svo mikið af skólum og að sumra áliti kannske helzt til mikið, eða a. m. k. nægilega mikið í sumum greinum.

Það orkar ekki tvímælis, að enn þá er mjög mikil vöntun á húsasmiðum vegna þess, hve ört er byggt, og það ekki sízt í sveitum landsins. Þeir, sem kynna sér það ástand, sem nú er í þessu efni, munu komast að raun um, að það hefur kannske aldrei verið meiri vöntun en einmitt núna, enda er mikið byggt og líkur til þess, að það haldi áfram, að mikið verði byggt í sveitum landsins, þorpum og kaupstöðum, sem allt hefur vitanlega áhrif á það, að eftirspurnin eftir smíðum er miklu meiri en hægt er að fullnægja, og er vöntunin mjög tilfinnanleg.

Það er þó ekki eingöngu með tilliti til þessa, sem frv. er flutt. Frv. er flutt til þess að gera tilraun, sem a. m. k. ég sem flm. þessa frv. er ekki í neinum vafa um að muni takast vegna þeirrar reynslu, sem er af þessum málum annars staðar. Og sú tilraun, sem nú er gerð í þessari einu grein, mætti verða til þess, að slík kennsla yrði tekin upp í fleiri greinum, því að það getur varla orkað tvímælis, að eins og oft hefur verið tekið fram, þá er mikil nauðsyn að Íslendingar séu hver og einn sem færastur og menntaðastur, einstaklingarnir eru svo fáir. En ef þess er þörf, sem ég tel ekki neinn vafa á að er og oft hefur verið undirstrikað í ræðu og riti, þá er þörfin a. m. k. ekki sízt á sviði iðnaðar. Þar er kannske stærra landnám fyrir höndum, ef þjóðin á að elga örugga framtíð, heldur en á flestum öðrum sviðum íslenzks þjóðlífs. Hins vegar er það margra manna skoðun, að enn þá sé ekki nægilega séð fyrir iðnmenntun þjóðarinnar. Ég skal ekki fara lengra út í þá sálma. En ég vil aðeins benda á, að það mætti nú telja líklegt, að mótstaðan gegn þessu yrði fyrst og fremst frá iðnaðarmönnum. Þess hefur gætt, eins og kunnugt er, að stéttirnar vilja koma í veg fyrir offjölgun í stéttunum, eins og það er kallað, til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi, og þess vegna hefur gætt nokkurrar andstöðu gegn fjölgun iðnaðarmanna.

Þetta mál var á sínum tíma sent til Landssambands iðnaðarmanna, og svörin frá Landssambandi iðnaðarmanna liggja fyrir í grg. þessa frv. Málið var einnig sent til Teiknistofu landbúnaðarins og umsögn Teiknistofunnar liggur fyrir um þetta mál, neðst á bls. 3. í grg., og sé ég ekki ástæðu til þess að eyða tíma í að lesa upp bréfið frá Teiknistofunni. En ég vil vekja alveg sérstaka athygli hv. þd. á því, að neðst á bls. 3 og á bls. 4 er greinilega rakið svar Landssambands iðnaðarmanna viðkomandi þessu máli, og þar segir stjórn Landssambandsins, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt:

„Stjórn sambandsins er sammála flutningsmanni frv. um það, að það er langt frá því, að ástandið í byggingarmálum sveitanna sé viðunandi, og að því valdi að miklu leyti þekkingarleysi á þessu sviði og skortur kunnáttumanna til þess að sjá um smíði sæmilegra húsa“ o. s. frv. Svo segir: „Ráðstafana til úrbóta í þessum efnum er því þörf, og sennilegt, að opinber skóli verði eina ráðið, er að gagni kemur, enda séu kennarar skólans fulllærðir iðnaðarmenn.“ Síðan koma þeir með fimm aðfinnslur við frv. eins og það þá lá fyrir, og ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þessar aðfinnslur. En ég vil vekja athygli á því, að í grg., á bls. 4, er gerð full grein fyrir því, að hver einasta aðfinnsla er tekin til greina og frv. fært í það horf, að ætla má, að það sé fullnægjandi til þess, að Landssamband iðnaðarmanna geti verið ánægt með frv. eins og það núna liggur fyrir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en óska eftir, að málinu verði vísað til 2. umr. og iðnn.