05.11.1954
Efri deild: 12. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (2331)

59. mál, iðnskóli í sveit

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. flm. þessa frv. sagði hér áðan, að kunnáttu manna til bygginga í sveitum landsins hefur verið til þessa mjög ábótavant, og hafa byggingar þess vegna oft verið óvandaðri en æskilegt er og enzt verr en ástæða hefði verið til, ef rétt hefði verið að farið við byggingu húsanna.

Að ég tek hér til máls að þessu sinni við 1. umr. frv., er ekki til þess að mæla gegn frv., heldur til þess að vekja athygli á því, að ég vænti þess, að nú næstu daga verði lagt fyrir hv. Alþingi frv. um iðnskóla almennt. Með því frv. er ætlazt til, að þeir, sem í sveitum búa, hafi ekki lakari aðstöðu til þess að mennta sig verklega en þeir, sem búa í kaupstöðum eða þéttbýlinu. Það er gert ráð fyrir með því frv., að í héraðsskólunum verði tekin upp iðnfræðsla, og héraðsskólar eru nú komnir í flest byggðarlög þessa lands. Með því, að héraðsskólarnir tækju einnig að sér iðnfræðsluna, mundi sparast mikið fé; það mundi sparast að byggja sérstök skólahús fyrir iðnskólana, það mundu sparast miklir kennslukraftar o. s. frv. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu fyrir þeirri n., sem fær þetta frv. til meðferðar og væntanlega hitt frv. einnig, að taka rækilega til athugunar, hvort þetta getur ekki farið saman, hvort það frv., sem lagt verður fram innan fárra daga, geti ekki í öllum aðalatriðum leyst þá þörf, sem ætlazt er til að þetta frv. eigi að leysa. Ég skal viðurkenna, að ég er ekki til fulls búinn að gera mér grein fyrir þessu, en mér sýnist eigi að siður, að þetta gæti farið saman og að með því frv., sem nú er í smíðum, væri verklegri iðnfræðslu borgið í sveitum landsins ekki síður en í þéttbýlinu. En þegar frv. er komið fram og verður athugað með hliðsjón af þessu frv., þá skýrist málið betur fyrir hv. alþm.