01.11.1954
Efri deild: 10. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (2335)

67. mál, útgerð togara

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Togararnir eru stórvirkustu hráefnisöflunartæki Íslendinga. Nú eru reknir 43 togarar á Íslandi, þegar þó er ekki meðtalinn togarinn Gyllir, sem gengur frá Flateyri og er gamall togari. Á togurunum eru um 1300–1500 menn, að sjálfsögðu aðallega frá þeim útgerðarstöðum, sem togararnir eiga heima á. Afla sinn leggja togararnir upp í heimahöfnum, eftir því sem frekast verður við komið. Með því er sköpuð þar mikil atvinna fyrir margt fólk. Atvinna sú er oft hátt borguð, vegna þess að vinna við aflann verður löngum að einhverju leyti eftirvinna og næturvinna og helgidagavinna. Atvinna, sem togararnir veita, er því mikið búsilag fyrir fólkið, þar sem þeir eiga heima.

Þessir 43 aðaltogarar, sem gerðir eru út í ár, skiptast þannig á útgerðarstaði, að 18 þeirra eru gerðir út frá Reykjavík, af þeim á Reykjavíkurbær 8; tveir eru gerðir út frá Akranesi; tveir frá Patreksfirði; tveir frá Ísafirði; tveir frá Siglufirði; fimm frá Akureyri; einn frá Seyðisfirði; tveir frá Neskaupstað; einn frá Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði af félagi þeirra staða; einn frá Vestmannaeyjum; einn frá Keflavík; sex frá Hafnarfirði.

Allir hafa þessir togarar verið keyptir með meiri eða minni aðstoð ríkisins. Allir útgerðarstaðir togaranna eiga þar af leiðandi ríkinu það að þakka að meira eða minna leyti, að atvinnulíf þeirra nýtur togaraútgerðar fyrir sjómenn sína og togaraafla til atvinnu fyrir verkafólk sitt í landi. Ríkið ber um leið ábyrgð á því að verulegu leyti, að þeir staðir, sem ég áðan taldi upp, njóta togaraútgerðar, en ekki aðrir staðir, sem þó hafa fulla þörf fyrir slíka atvinnuaukningu og skilyrði til þess að taka á móti togaraafla og eru engu miður settir með tilliti til fiskimiða togaranna en margir hinna. Ríkið gekkst fyrir kaupum á togurunum, lagði fé upphaflega fram til kaupanna, útvegaði lán til þeirra — og lánaði meira að segja einhverjum fé — og ábyrgðist lán margra byggðarlaga og það allt upp í 90% stofnkostnaðar. Og nú síðast á þessu ári veitir ríkisvaldið þeim öllum, sem togara reka, aðstoð með 2000 kr. styrk fyrir útgerðardag seinni hluta ársins. Fé í þann styrk er fengið með álagi á innflutta bíla, og greiða þá auðvitað bílstjórar þeirra staða, sem engan togara hafa, þetta tillag til útgerðarinnar engu síður en hinir, ef þeir kaupa slíka bíla.

Nú er mikið rætt um nauðsyn þess að koma á og viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Þetta er ekki tilefnislaust tal. Fólkið safnast þangað, sem auðfengnust er atvinna og lífsþægindi mest, án tillits til þess, hver grundvöllur atvinnulífsins er eða hvað hann er traustur til frambúðar. Atvinnan á Keflavíkurflugvelli togar fast og dregur til sín fólk frá stöðum, sem berjast í bökkum, þótt allir vilji og voni, að það, sem atvinnan á Keflavíkurflugvelli sprettur af, hverfi úr sögunni.

Reykjavík sogar til sín fólk víðs vegar að vegna lífsþæginda, sem margmennið í Rvík getur veitt sér þar, og þó vita allir, að ekki er æskilegt, að landslýðurinn yfirgefi aðra staði til þess að safnast í stórum stíl til Reykjavíkur. Til þess að koma á og viðhalda jafnvægi í byggð landsins er ekki vit í því, vitanlega, að draga úr velgengni þeirra staða, sem á undan eru með atvinnurekstur og lífsþægindi, en hitt verður að gera, að efla atvinnulíf og bæta lífaðstöðuna í þeim byggðum, sem aftur úr hafa dregizt eða standa ekki jafnfætis hinum, svo að fólkið þar geti unað glatt við sitt hlutskipti. Ríkisvaldið kemst ekki hjá að beita sér fyrir jafnvægissköpun í byggð landsins, og það því fremur vegna þess, að ríkisvaldið hefur nú þegar afskiptasama hönd í hvers manns bagga.

Togararnir eru, eins og áður segir, réttir af hönd þess til þeirra, er hafa umráð yfir þeim. Þeir eru mikilvirk atvinnutæki, sem safna fólki um sig. Talið er, að þeir beri sig illa sem fyrirtæki margir hverjir, en ráð hljóta að finnast til að bæta úr því, ef aflabrögðin bregðast ekki, og hvernig sem togararnir hafa borið sig hingað til sem fyrirtæki, þá hafa þeir veitt vinnandi fólki atvinnu í útgerðarplássunum, og menn hafa unað þar betur og aukið lífsþægindi sín.

Togararnir hafa sums staðar beinlínis komið í veg fyrir brottflutning fólks og á öðrum stöðum aukið aðstreymi manna. Þeim hefur ekki verið rétt niðurskipað, miðað við jafnvægi í byggð landsins, en um orðinn hlut er ekki til neins að sakast. Hins vegar þarf að reikna með því og leiðrétta það með uppbótum til annarra staða. Sérstaklega verður þetta áberandi öfugsnúið, þegar farið er að borga rekstrarstyrk eins og nú í ár til allra togara, líka þeirra útgerðarstaða, sem eru bjargálna eða gætu án togara verið bjargálna, t. d. farið að láta bílstjóra Ólafsfjarðar og Húsavíkur borga í bílkaupum skatt til atvinnuaukningar í Keflavík og Reykjavík.

Margt er á að líta, þegar meta skal, hvað hentar hverjum stað bezt til atvinnuaukningar; eitt á við á þessum stað og annað á hinum. Við sjávarsíðuna eru staðir, þar sem aukinn bátaútvegur er og hlýtur að verða höfuðúrræði. En svo eru margir staðir, sem hafa skilyrði til þess að taka á móti togaraafla og telja, að heppilegast og mest trygging fyrir sig væri í því að njóta þeirra stórvirku atvinnutækja, a. m. k. einhvern tíma árlega.

Ég tel mega nefna í þessu sambandi staði eins og Stykkishólm — eða a. m. k. hefur hann viljað fá togara, Þingeyri, Flateyri, ef gamli togarinn Gyllir, sem þar er nú, gefst upp, Suðureyri, Hólmavík, Skagaströnd, Sauðárkrók, Ólafsfjörð, Dalvík, Húsavík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörð, Djúpavog, Stöðvarfjörð. Með tilliti til þeirra staða og annarra slíkra flyt ég ásamt tveim hv. þm., hv. 1. þm. Eyf. (BSt) og hv. 2. þm. S-M. (VH) frv. það, sem hér liggur fyrir, til heimildarlaga fyrir ríkisstj. til þess með sérstökum, tilteknum ríkisaðgerðum að stofna til togaraútgerðar til þess að koma á og viðhalda jafnvægi í byggð landsins.

Til greina koma margir staðir, er njóta ættu slíkrar útgerðar. Að engu má vitanlega hrapa í þeim framkvæmdum. Vel þarf að athuga, hvað hverjum hentar bezt, en ástandið er þannig, að ekki má draga að hefjast handa, svo að fólkið á þeim stöðum, sem standa höllum fæti, grípi ekki til óyndisúrræða og flýi ekki staðina, heldur viti, að fyrir liggja opinberar framkvæmdir til úrbóta.

Í frv. er gert ráð fyrir, að ríkið gerist hluthafi í félagi, sem tveir eða fleiri útgerðarstaðir mynda um kaup á togara og rekstur hans; enn fremur, að ríkið ábyrgist lán fyrir slíkt félag, er nemi allt að 80% stofnkostnaðar. Val framkvæmdarstjóra sé háð samþykki ríkisstjórnarinnar. Ekki er gert ráð fyrir stuðningi ríkisins við eitt bæjar- eða hreppsfélag út af fyrir sig til félagsstofnunar, því að þegar litið er yfir hóp þeirra bæjar- og hreppsfélaga, sem geta vegna hafnar- og vinnuskilyrða, tekið á móti togaraafla, þá virðist ekkert þeirra líklegt til þess, að það hafi bolmagn til að takast á hendur eitt sér slíkt fyrirtæki sem togarakaup og togararekstur er, og eins og sakir standa er ekki heldur æskilegt að mínu áliti að stofna til þess. Hins vegar er reynsla fengin fyrir því að félagsskapur milli tveggja eða fleiri útgerðarstaða um rekstur togara hefur gefizt vel.

Í öðru lagi er ljóst, að vel gæti svo farið, að útgerðarstaðir, sem nauðsyn ber til að fái hráefni til togaraafla til atvinnuaukningar, reynist þess ekki megnugir að kaupa togara, þótt í félagi væri. Þess vegna er í frv. heimild fyrir ríkisstj. til þess að kaupa fyrir hönd ríkisins allt að fjórum togurum og reka þá, en þeir kaupstaðir og kauptún, sem njóta viðskiptanna við slíka togara, beri þó helmingsábyrgð á rekstri þeirra samkv. fyrirframgerðum samningi milli ríkisstj. og hlutaðeigandi bæjar- og hreppsstjórna. — Það verður í þessum málum ekki hjá því komizt að taka tillit til þeirra staðreynda, að fámennir staðir og félitlir hafa ekki jafnmikið bolmagn og fjölmennir staðir og betur megandi til togaraútgerðar, þótt þörfin kunni að vera jafnvel brýnni. Þátttaka ríkisins verður að vera því meiri sem bolmagn heimamanna er minna. Hins vegar er hollast, eins og frv. gerir líka ráð fyrir, að heimamenn séu þátttakendur, eftir því sem efni og ástæður frekast gera þeim kleift, eigi frumkvæði að aðgerðum, sem ríkið ræðst í þeirra vegna, og beri sérstaka ábyrgð og áhættu af þeim að sinu leyti, eftir því sem þeir geta.

Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjárhagsnefndar.