01.11.1954
Efri deild: 10. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (2337)

67. mál, útgerð togara

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég fagna því mjög, að þetta frv. er borið fram hér af þremur hv. framsóknarmönnum í þessari deild, og tel víst, að því megi treysta, að það sé flutt í samráði við Framsfl. og hafi óskipt fylgi hans.

Mér er það mikið ánægjuefni, eins og ég áðan sagði, að frv. er borið fram, því að ég álít, að hér sé um hið allra mesta nauðsynjamál að ræða. Við Alþýðuflokksmenn höfum á allmörgum undanförnum þingum borið fram frv. — upphaflega hér í Ed og seinna í Nd. — um togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar. Þetta frv. er að þessu sinni borið fram í Nd. af einum Alþýðuflokksmanni og einum framsóknarmanni og er sama efnis og þau frv., sem við höfum flutt um þetta undanfarið.

Um það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 87, er það að segja, að ég hefði að sjálfsögðu fremur kosið, að frv. það, sem við höfum flutt, Alþýðuflokksmenn, undanfarið, yrði að lögum heldur en þetta frv. hér, en mun engu að síður styðja að því eftir beztu getu, og Alþýðuflokkurinn allur, að frv. á þskj. 87 nái fram að ganga. Það er að vísu með nokkuð öðrum hætti og að sumu leyti skemmra gengið en í frv. okkar Alþýðuflokksmanna, sem ég hef drepið á, en stefnir mjög í rétta átt.

Þó er eitt atriði, sem mér þykir rétt að vekja athygli á nú þegar við þessa umr., og það er það, að í þessu frv. á þskj. 87 er hvergi tekið fram, að tilætlunin sé að kaupa ný skip. Styrkurinn við hlutafélögin, sem frv. gerir ráð fyrir, er ekki bundinn því skilyrði. Hins vegar fæ ég ekki betur séð og heyrðist enda á ræðu hv. frsm., að það sé alveg tvímælalaust, að þessi sé tilætlunin. — Í grg á bls. 2 segir: „Hvergi má draga úr velgengni almennings, en leitast skal við að auka hana, þar sem verr gengur.“ Það er því ekki ætlunin, að þessi togarafélög, sem hér yrðu mynduð, færu að kaupa togara úr öðrum byggðarlögum landsins og flytja úr ákveðnum byggðarlögum landsins til annarra staða, því að það væri að draga úr velgengninni þar, sem hún er fyrir hendi, en það er ekki ætlunin, eins og bæði kom fram í ræðu hv. frsm. og hér er greinilega tekið fram í grg.

Ég tek undir það, sem hv. síðasti ræðumaður, fulltrúi Sósfl., sagði hér áðan, að ég leyfi mér að vænta þess, að það megi telja nokkuð vafalaust, að þetta frv. nái fram að ganga á þinginu. Hann hefur lýst yfir fylgi Sósfl. við frv.. og mér er óhætt að lýsa yfir fylgi Alþfl. við það einnig.

Mér finnst það mjög ánægjulegt, að þessu máli, sem nú hefur verið hreyft hér á allmörgum árum, hefur unnizt það fylgi, að telja má nokkurn veginn öruggt, að sá áfangi náist, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Minn skilningur er sá, eins og ég tók fram, að það sé ekki tilætlunin, að það sé verið að flytja með þessu togara milli einstakra byggðarlaga í landinu, heldur auka hér við til að bæta úr ástandinu þar, sem það er lakast, án þess að draga úr eða skapa verra atvinnuástand í öðrum byggðarlögum landsins.

Mér skilst, að ef þetta frv. verður að lögum og kemur til framkvæmda — og það ætti að geta komið skjótlega, þá sé hér um að ræða fyrirtæki, sem gæti haft um 50 millj. kr. stofnfé, 5 millj. kr. hlutafé frá byggðarlögunum og aðrar 5 millj. frá ríkissjóði; móti því ætti að koma lán sem svaraði 80% af heildarupphæðinni, sem þá yrði um 50 millj. kr. Þá yrði þar ríkisábyrgð fyrir um 40 millj. kr. láni. Það er augljóst, að með slíkri upphæð, þótt ekki sé hærri, má bæta talsvert verulega úr þeim örðugleikum, sem eru á ýmsum stöðum úti um land, með því að tryggja nokkurn veginn starfsemi fyrir þau fiskvinnslutæki, sem þar eru fyrir, og mjög tryggja atvinnuna á þessum stöðum frá því, sem nú er.

Ég sem sagt lýsi ánægju minni yfir því, að þetta frv. er fram komið, og vildi mega vænta þess, að telja mætti nokkurn veginn víst, að það yrði að lögum nú þegar á þessu þingi, þannig að hægt væri að hefja framkvæmdir hið bráðasta.