03.05.1955
Efri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (2358)

182. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Eins og tekið var fram við 1. umr. málsins í þessari hv. d., kom fram á þinginu 1951 frv. um skipun prestakalla, 191 mál, á þskj. 205. 7. gr. frv. er um að setja á stofn tvö embætti aðstoðarpresta, en hlutverk þeirra átti að vera að gegna störfum presta þjóðkirkjunnar í forföllum þeirra. Laun áttu þeir að taka eins og aðrir sóknarprestar, auk þess fá greiddan ferðakostnað og húsaleigu, er kirkjustjórnin úrskurðaði. Í grg. frv. er þess getið, að ýmsir prestar hafi tekið við þjónustu í prestaköllum, þar sem prestar hafa verið forfallaðir sýnist, að þar hafi verið allmikið starf undanfarið innt af hendi. — Ákvæði þetta var fellt.

Ef aðstoðarprestur hefur of lítið starf í þessari aðalþjónustu, þá er nú ætlazt til, að hann geti tekið að sér önnur störf eftir ákvörðun biskups. Erlendis hefur reynzt mjög vel að hafa slíka aðstoðarpresta, þar sem þeim er ætlað sama aðalhlutverk og hér er ætlazt til og auk þess að starfa við sjúkrahús og fangelsi. Lög um réttindi og skyldur embættismanna kveða svo á, að verði embættismaður frá starfi um stundarsakir sökum veikinda, beri að setja mann í hans stað á kostnað ríkissjóðs.

Fjórir nm. eru sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. ábreytt. Síðan hefur komið fram brtt. frá Jóhanni Jósefssyni á þskj. 715. Er það viðbót við 1. gr. á þskj. 521 og er á þá leið, að biskupi sé heimilt að ráða aðstoðarprest að Vestmannaeyjaprestakalli, enda njóti hann hálfra embættislauna, er greiðast úr ríkissjóði. Brtt. þessi er fram komin vegna frv., er tillögumaður flutti og er á þskj. 429. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa frv. þetta og grg. fyrir því málinu til skýringar. Frv. er þannig:

„Í Vestmannaeyjum skulu vera tveir þjóðkirkjuprestar. Kirkjumálaráðherra setur, að fengnum tillögum biskups, fyrirmæli um afstöðu þeirra hvors til annars, samband þeirra á milli og verkaskiptingu í söfnuðinum.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Grg. er svo hljóðandi:

„Frv. þetta er flutt samkv. eindregnum tilmælum frá 1237 mönnum, búsettum í Vestmannaeyjum. Það er einnig borið fram í samræmi við óskir núverandi sóknarprests og sóknarnefndar, eins og fram kemur í vísitazíu biskups, er fram fór í Vestmannaeyjum hinn 13. febr. s. 1. Þar segir svo:

„Sóknarprestur og sóknarnefnd eru sammála um það, að æskilegt sé, að tveir þjóðkirkjuprestar verði í Vestmannaeyjum til enn meiri eflingar kirkjulegu starfi og kristilegri menningu.“

Samkvæmt upplýsingum hagstofunnar var íbúatala f Vestmannaeyjum hinn 1. desember s. l. 4056, en á vetrarvertíð er þar, sem kunnugt er, hinn mesti sægur aðkomufólks. Vegna legu eyjanna er þar örðugra að fá þjónustu nágrannapresta í forföllum sóknarprests en annars staðar á landinu. Styrkir þetta enn nauðsyn þess, að 2 sóknarprestar séu þar starfandi. Var og svo fram á 19. öld, eða þar til Vestmannaeyjar voru gerðar að einu prestakalli með konungsbréfi 7. júní 1837.

Þess skal að lokum getið, að frv. þetta er stutt af biskupi landsins og auk þess hefur kirkjumrh. tjáð sig því vinveittan.

Nánar í framsögu.“

Hv. menntmn. tók mál þetta fyrir á fundum sínum, en þótti nokkuð mikið að setja á stofn 2 prestaköll í Vestmannaeyjum. En það kom til umræðu um aðstoðarprest á svipuðum grundvelli og fram kemur í brtt., og var meiri hl. nm. því meðmæltur.

Ég hygg því, að brtt. verði vel tekið af meiri hl. nm., — og veit um það nú, — og er ég fyrir mitt leyti meðmæltur henni eins og þeir meirihlutamenn.

Ég legg því til, að frv. verði samþykkt með þessari breytingu.