03.05.1955
Efri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (2359)

182. mál, skipun prestakalla

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. menntmn. (IngF) tók fram, þá flutti ég fyrir mörgum vikum þetta frv. um það, að 2 prestar yrðu skipaðir til prestakallsins í Vestmannaeyjum, og var það gert eftir eindreginni áskorun milli 1200 og 1300 kjósenda í Vestmannaeyjum, sem skoruðu á mig að koma þessu á framfæri. Sömuleiðis var biskup því mjög hlynntur, að þetta yrði gert, og hæstv. ráðh. taldi sig málinu vinveittan.

Ég ætla ekki hér að fara að rifja upp það, sem ég sagði í framsögu um þetta mál í upphafi, en óskin um, að 2 prestar séu þarna starfandi, á sér ákaflega djúpar rætur, a. m. k. hjá þeim mönnum, sem skorað hafa á mig að flytja þetta mál.

Nú hef ég fregnað, að ekki sé um eindregið fylgi að ræða við það frv. í hv. menntmn., heldur telji hún aðra tilhögun heppilegri, og til þess að bjarga málinu í einhverja höfn, þó að þrautalending megi kallast, hef ég í samráði við meiri hl. hv. menntmn. og í samráði við herra biskupinn flutt hér þá brtt. á þskj. 715, er um ræddi í ræðu hv. frsm.

Ég tel, að við það megi una í bili, með því að það í rauninni staðfestir það fyrirkomulag, sem hefur verið nú um skeið og aðallega var gert í veikindaforföllum núverandi sóknarprests, að aðstoðarprestur var þar skipaður og þessi maður kenndi um leið við gagnfræðaskólann og kennir enn. Á því er það byggt að fara fram á að heimila biskupi að ráða hann áfram sem aðstoðarprest, og þá er það með það fyrir augum, að fræðslumálastjórnin fallist á að hafa slíkan mann áfram kennara, sem allar horfur eru á eftir þeim fregnum, sem mér hafa borizt. Með því mundi það raunverulega nást, eins og nú er ástatt, að til sé á staðnum góður og vel þekktur vara- eða aðstoðarprestur, ef til þarf að taka, og til hans þarf víst oft að taka, eins og gefur að skilja, þar sem einn prestur getur tæplega fullnægt plássinu að öllu leyti, eins og ferðalögum til Vestmannaeyja oft er háttað. Hann a. m. k. á þá ekki heimangengt á nokkurn hátt. Og þar sem hér er að ræða um prest, sem hefur veila heilsu, þá er enn meiri þörf að sjá því farborða, að ekki sé prestslaust að öllu leyti, þó að heilsa núverandi sóknarprests sé ekki eins veil nú og var um tíma. Hins vegar var hann víst mest á því, þó að hann vildi samþykkja, að það væru 2 prestar skipaðir, að halda áfram þessu fyrirkomulagi, sem hefur verið þar raunverulega. Tel ég þá, að þetta leysi málið að nokkru, ef brtt. mín á þskj. 715 verður samþykkt; þá geti það verið viðunandi ástand og bæti nokkuð úr því, þó að hv. menntmn. treysti sér ekki eða virðist ekki treysta sér til þess að fallast á till. um. að skipaðir verði þar 2 þjóðkirkjuprestar á staðnum, sem ég hefði helzt viljað og er vilji fólksins í Eyjunum. Að því slepptu verð ég að fella mig við það, að þetta ástand geti framlengzt, sem er, og það er með því að samþ. verði þessi brtt., er um ræðir.

Ég þakka hv. frsm. n. fyrir það, að hann hefur í meiri hlutans nafni mælt með því, að þessi brtt. verði samþ.