15.12.1954
Neðri deild: 32. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

10. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Við 2 nm. í hv. fjhn., hv. 9. landsk. þm. og ég, tókum það fram við afgreiðslu málsins í n., að við teldum þær launauppbætur, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., vera allsendis ófullnægjandi fyrir opinbera starfsmenn, en mundum þó ekki flytja brtt. á þessu stigi málsins, þar eð frá því var skýrt í n. af formanni hennar, að ríkisstj. væri í þann veginn að flytja till., væntanlega í sambandi við fjárl., um launauppbætur til opinherra starfsmanna. Launamál opinberra starfsmanna hafa lengi verið í hinum mesta ólestri. Þeir fengu lengi vel laun sín greidd samkv. þáltill. að nokkrum hluta og hafa nú fengið nokkurn hluta launa sinna undanfarin ár samkv. fjárlagaákvæði, en þá .launauppbót, sem opinberir starfsmenn fengu í framhaldi af verkfallinu mikla 1952, hafa þeir fengið greidda samkvæmt lögum, sem framlengd hafa verið frá ári til árs. Það frv., sem hér liggur fyrir, er einmitt til framlengingar á þeim lagaákvæðum.

Um mörg undanfarin ár hefur staðið til að endurskoða launalögin, þó að ekki hafi orðið af því enn. Sá dráttur er orðinn mjög ,vitaverður. Opinberir starfsmenn. eru nú eins og fyrri daginn orðnir langt á eftir öðrum stéttum um launabætur. Frá því að gildandi launalög voru sett, 1945, mun t.d. grunnkaup verkamanna hér í Reykjavík hafa hækkað um 25%, en laun opinberra starfsmanna hafa hækkað um 10–17% aðeins. Þeir eru því langt á eftir daglaunamönnum, en flestar aðrar stéttir, sem hafa frjálsan samningsrétt um kaup sín og kjör, hafa fengið svipaðar launauppbætur og daglaunamenn og sumar hverjar meira að segja meiri. Af launastéttum mun engin stétt nú vera jafnilla haldin hlutfallslega og einmitt opinberir starfsmenn. Það er því vissulega tími til kominn að rétta hlut þeirra nokkuð. Hefðum við flutt brtt. við þetta frv. til þess að kanna vilja þm. til þess að rétta hlut þessarar stéttar, ef ekki hefði verið frá því skýrt, að von væri á till. um þetta efni frá ríkisstj. Þótti okkur þá rétt og sjálfsagt að bíða þeirra till. og sjá, hverjar þær væru, hvort þær væru fullnægjandi. Ef þær reynast það ekki, þá munum við að sjálfsögðu flytja brtt. við þær till., til þess að hlutur opinberra starfsmanna megi verða sambærilegur við hlut þeirra, sem hafa frjálsan samningsrétt um kaup sín og kjör.