03.05.1955
Efri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (2362)

182. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að benda á, að ég hygg, að flutningur frv. á þskj. 521 og afgreiðsla frá hv. menntmn. sé byggð á allmiklum misskilningi og vanþekkingu á þessum málum. Ég vil leyfa mér að gefa hér nokkra skýringu, vegna þess að málið hefur verið hér til umræðu áður í þessari hv. deild og var þá fyllilega upplýst, enda féllst ekki hv. deild á sínum tíma á að samþ. þetta ákvæði, sem nú er ætlazt til að samþykkt verði.

Ég átti um þetta tal við hæstv. kirkjumrh. nýlega, og var sýnilegt, að eins og það hafði verið túlkað fyrir honum, var einnig hér um allmikinn misskilning að ræða. Honum hafði verið tjáð af biskupi, að hér væri um engar aukagreiðslur að ræða fyrir ríkissjóð. Þetta væri aðeins fyrirkomulag, sem þyrfti að breyta, en kostaði ríkissjóð ekki neitt fé. Það eitt út af fyrir sig er byggt á mjög miklum misskilningi, því að eftir að þetta frv. er orðið að lögum, þá er sýnilegt, að hér er um ný útgjöld að ræða, en þessi ummæli byggði hans herradómur biskupinn á því, að það hefði orðið að greiða úr ríkissjóði undanfarin ár sem svaraði prestslaunum vegna veikinda og fjarveru annarra presta. Þótt svo hafi verið, þá sannar það ekkert, að sá prestur, sem hér um ræðir, geti sinnt allri þeirri þjónustu, sem kann að vera fyrir hendi á hverjum tíma. Ef t. d. prestur er veikur í Vestmannaeyjum og á sama tíma á Akureyri og þriðji presturinn á sama tíma í Bjarnanesi, eins og hefur átt sér stað og kemur fram í grg., þá er sýnilegt, að það verður ekki nema sáralítill sparnaður að því að hafa þá umferðarprestinn í einum staðnum, en verða að kaupa aðra þjónustu á hinum tveimur eða fleiri stöðum, eftir því sem kemur til á hverjum tíma, svo að það fé, sem á að sparast og miðað er við hér, verður ekki sparað. Þetta er eitt af því, sem er sjálfsagt að upplýsa hér í málinu.

Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að það munu nú vera rúmlega 100 prestar þjónandi við þjóðkirkjuna á Íslandi, en þó allmörg prestsembætti óveitt. Eru því allmargar sóknir, sem enn hafa ekki fengið prest, en eiga þó heimtingu á honum samkvæmt lögum. Koma þar til ýmsar ástæður, m. a. að það hefur ekki verið byggt upp fyrir prestana og jarðirnar eru þar af leiðandi ekki byggilegar, sumpart einnig vegna þess, að það hafa verið gerðar ýmsar aðrar ráðstafanir af kirkjumálastjórninni, svo sem á Brjánslæk. Þangað hefur ekki verið hægt að fá prest í nærri tvo tugi ára, vegna þess að kirkjumálastjórnin beitti því ranglæti gagnvart prestssetrinu að taka allt húsið og helminginn af jörðinni og byggja þetta sem ættaróðal til ákveðins bónda, svo að enginn prestur mun sækja um brauðið, svo lengi sem slíkur samningur gildir. En hann gildir enn um ótakmarkaðan tíma.

Sama má segja um Þingvelli, þar er löglegt prestakall. Það hefur ekki einu sinni verið borið við að auglýsa prestakallið, hvorki af fyrrverandi biskupi né núverandi biskupi. Það er þó skylda að setja þar prest samkvæmt lögum. Og meðan ekki hefur verið uppfyllt ákvæði laganna um að skipa presta í þau prestaköll, sem samkvæmt lögunum skal skipa presta í, sýnist vera minni ástæða til að búa til ný prestsembætti í landinu.

En í 5. gr. laga um læknishéraða- og prestakallasjóði, nr. 98 frá 19. júní 1933, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar prestakall er prestslaust, svo að eigi kemur til greiðslu embættislauna eða hluta þeirra, skal fjárhæð sú, sem sparast, miðað við byrjunarlaun presta, renna í sérstakan sjóð, sem kirkjuráð varðveitir. Sjóðurinn heitir prestakallasjóður, og skal hann geymdur í að þetta var fellt úr frv., svo að sú skipun, sem þar var stefnt að að fá, hefur ekki komið til framkvæmda enn þá.

Nú á þessu þingi var flutt af hv. menntmn. Ed. að tilhlutun biskups og kirkjumrh. frv. það, sem hér liggur nú fyrir, um það, að biskupi sé heimilt að ráða prestvígðan mann til þess að gegna prestsþjónustu um stundarsakir í þeim prestaköllum, þar sem prestur er veikur eða kallið er prestslaust af öðrum ástæðum. Enn fremur var flutt í hv. Ed. af hv. þm. Vestm. (JJós) annað frv. um að stofna nýtt prests. embætti í Vestmannaeyjum.

Þegar þessi mál koma til þessarar hv. d., er búið að fella þau saman í hv. Ed. á þann hátt, að í stað frv. hv. þm. Vestm. (JJós) um sérstakt prestakall í Vestmannaeyjum er bætt við frv. menntmn. Ed. því ákvæði, að biskupi skuli heimilt að ráða aðstoðarprest að Vestmannaeyjaprestakalli, enda njóti hann hálfra embættislauna, er greiðist úr ríkissjóði. Þetta ákvæði er, að ég ætla, nýmæli í löggjöfinni um skipun prestakalla, því að ekki er gert ráð fyrir því, að þetta embætti verði auglýst og að þar fari fram kosning á presti, eins og venja er, þegar prestsembætti eru skipuð, og ekkert er tekið fram um það, hvað.a skyldur á að leggja prestinum á herðar gegn þessum hálfu launum, sem hann á að njóta úr ríkissjóði. Ekki er heldur neitt tekið fram um það í frv., hvernig verkaskipting á að verða milli þessa aðstoðarprests, sem nýtur hálfra launa, og þess manns, sem nú hefur embætti sóknarprests í Vestmannaeyjum á hendi. Í frv. segir ekkert heldur um það, til hve langs tíma þessi ráðning á að gilda, hvort hér á að vera ráðinn maður til ákveðins tíma, allt að 3 ára, eins og til er tekið um umferðarprestinn, eða hvort þetta á að vera maður ráðinn jafnvel til lífstíðar eins og þeir, sem fá embætti eftir að prestskosning hefur farið fram.

Í lögunum um skipun prestakalla eru viss ákvæði um skyldur og réttindi presta, t. d. um embættisbústaði þeirra og því um líkt. Ekki er hægt að ráða af þessu frv., hvernig með þau atriði skuli farið gagnvart þeim aðstoðarpresti, sem gert er ráð fyrir að settur verði.

Þegar þetta mál var rætt í n., þá virtist mér, að þessi atriði væru dálítið óljós, og ég tók þá afstöðu í n., að mér fyndist ekki óeðlilegt, að afgreiðsla þessa máls yrði látin bíða til haustsins, svo að betra tóm gæfist til þess að glöggva sig á þessum atriðum og málinu í heild. Af þeim ástæðum skrifaði ég ekki undir nál., sem minni hl. n. hefur gefið út.

Ég vil ekki leggja dóm á það, hvort nauðsyn beri til þess á vissum tímum árs sérstaklega að auka prestsþjónustu í Vestmannaeyjum frá því, sem nú er. En mér virðist, að það muni þó sízt koma í bága yfir hásumarið, þótt þessu máli yrði frestað til haustsins, þar sem vitað er að samgöngur yfir hásumarið eru greiðar við Vestmannaeyjar og fólk á þeim tíma mun færra þar en t. d. á vertíðinni, þegar margt aðkomumanna safnast þangað á staðinn.

Ég vildi aðeins með þessum orðum gera grein fyrir því, hvaða afstöðu ég tók til málsins í n., en ég hef ekki hugsað mér að gefa út sérstakt nál. um málið.