17.11.1954
Sameinað þing: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (2381)

43. mál, jarðboranir

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Á Alþ. 1952 var samþ. að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um eftirlit með jarðborunum og leggja fyrir næsta þing. Enn þá hefur þetta ekki komizt í framkvæmd, og því er þessi till. flutt.

Allshn. lítur svo á, að nauðsynlegt sé að setja löggjöf um eftirlit með jarðborunum og þá fyrst og fremst með tilliti til þess, að nú þegar er búið að leggja milljónatugi í hitaveitur hér á landi. Það er þess vegna mikið í húfi, ef öryggi þessara miklu fyrirtækja brysti sökum gálauslegra borana. Á hinn bóginn er ekki því að leyna, að löggjöf um þetta efni er talsvert vandamál, því að hún hlýtur að snerta mjög eignarrétt manna í sambandi við umráð yfir neðanjarðarvatni, og viðbúið er, að það þurfi að gera breytingar á ákvæðum vatnalaganna í því sambandi. En hvað sem þessu líður, þá er öll n. sammála um, að ný löggjöf sé nauðsynleg, og leggur til, að þáltill. verði samþykkt.