27.10.1954
Sameinað þing: 7. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (2385)

65. mál, sjúkraflugvélar

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Með lögum nr. 24 1945, sem eru um flugvelli og lendingarstaði fyrir flugvélar, var mörkuð sú stefna, að flugvellir skyldu gerðir í flestum eða öllum sýslum landsins. Flugvellir, sem gera á samkv. þeim lögum, eru flokkaðir í fjóra flokka, eftir stærð þeirra, eftir fjölda flugbrauta og eftir þeim útbúnaði, sem koma á upp í sambandi við flugþjónustuna á hverjum stað.

Frá því að þessi lög voru sett, hefur þróun flugmála orðið mjög ör, og hefur það valdið straumhvörfum í samgöngumálum margra héraða hér á landi. Unnið er að því að koma upp flugvöllum á fleiri og fleiri stöðum og endurbæta þá flugvelli, sem gerðir vöru fyrir nokkrum árum. En allir þeir flugvellir, sem um er rætt í lögunum frá 1945, eru miðaðir við það, að þeir séu nothæfir til farþegaflugs. Stærð þeirra og útbúnaður á að vera miðaður við það, að þar geti athafnað sig farþegaflugvélar, 20–30 manna flugvélar, eins og algengast er að nota nú í innanlandsflugi.

Einn þáttur flugmálanna er flutningur sjúkramanna í flugvélum. Sá þáttur flugsins er raunar jafngamall innanlandsfluginu hér á landi. Hinir elztu flugmenn okkar, bæði núverandi framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands og fleiri, tóku upp þessa starfsemi öðrum þræði, jafnhliða og þeir ruddu innanlandsfluginu braut á hinum litlu flugvélum, sem flugfélögin eignuðust fyrst. Mér er kunnugt um það, að þessir menn sýndu í því efni bæði mikla greiðvikni, hjálpsemi og dirfsku að sækja sjúklinga á afskekkta staði, og urðu að nota lendingarstaði, sem voru lítt eða ekki undir það búnir. Nú á síðari árum hefur einn flugmaður, Björn Pálsson. sérstaklega haft þennan þátt flugmálanna með höndum og getið sér í hvívetna góðan orðstír við þessa starfsemi. Þessi starfsemi er alveg ómetanleg fyrir fjölmörg byggðarlög í landinu, öll þau byggðarlög, sem liggja fjarri sjúkrahúsum og þar sem aðstaða er erfið um læknishjálp og hjúkrun, og hún er jafnframt mikils virði fyrir þau svæði, sem liggja tiltölulega nærri Reykjavík og öðrum kaupstöðum, þegar vegasamband er torvelt eða lokað, eins og oft kemur fyrir að vetrarlagi.

Í þessu sambandi er það ljóst, að ekki er fullnægjandi, þó að einn flugvöllur sé í héraði. Líðan sjúklings er oft þannig háttað, að það er ógerningur að flytja hann um langa vegu milli sveita á aðalflugvöll héraðsins, og vegasambandi er oft þannig farið að vetrarlagi, að slíkum flutningi verður ekki við komið.

Þær flugvélar, sem aðallega eru notaðar til sjúkraflugsins, eru litlar flugvélar, sem ekki þurfa eins stórar og vel gerðar flugbrautir til þess að geta athafnað sig með góðu móti og farþegaflugvélarnar þurfa. En slíkir lendingarstaðir þurfa að koma upp svo víða í landinu, að öll byggðarlög geti átt greiðan aðgang að því að hafa þeirra not.

Till. sú, sem ég flyt ásamt hv. þm. S-Þ. og hv. þm. V-Húnv., fjallar um það, að Alþ. skori á ríkisstj. að láta fram fara nákvæma athugun á aðstöðu til þess að gera nothæfa lendingarstaði fyrir sjúkraflugvélar svo víða, að öll byggðarlög í landinu geti notið þeirra á auðveldan hátt. Það er vitanlega fyrsta sporið til þess að koma þessu máli í viðunandi horf, að slík athugun sé gerð af mönnum, sem hafa þekkingu á flugmálum, og með aðstoð heimamanna á hverjum stað, sem eru kunnugir veðurfari og snjóalögum hver í sínu byggðarlagi. Þegar þessi athugun hefur farið fram, kemur að því að ákveða staðaval, og er eðlilegt, að það sé gert af stjórn flugmála í samráði við sveitarstjórnir, sem hlut eiga að máli. Síðari málsgr. till. fjallar um þetta atriði.

Það er skoðun okkar flm., að þessi flugvallagerð, þegar til framkvæmda kemur, þurfi á mörgum stöðum ekki að kosta mikið fé. Hinar litlu flugvélar geta notað með góðum árangri flugbrautir, sem eru ekki langar og ekki svo úr garði gerðar, að hinar stærri farþegaflugvélar geti athafnað sig þar. Það er líka kunnugt, að áhugi á þessu máli er vakandi víða í héruðum, og líkur benda til þess, að hægt sé að leita eftir og fá lagða fram nokkra sjálfboðavinnu í þessu skyni af einstaklingum og félögum. Þá er það og kunnugt, að búnaðarsamböndin og ræktunarfélögin mundu með mikilli ánægju láta í té jarðýtur og önnur stórvirk áhöld til þess að greiða fyrir þessu máli, þar sem þess þykir þörf.

Ég mun svo ekki að svo stöddu fara fleiri orðum um þetta mál, en legg til, að till. verði, þegar þessari umr. lýkur, vísað til 2. umr. og hv. allshn.