19.11.1954
Sameinað þing: 18. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (2393)

105. mál, atkvæðagreiðsla að hálfu Íslands

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur útbýtt til hv. Alþ. till. til þál. þess efnis, að Alþ. skuli láta í ljós vilja sinn um það, hvernig fulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum skuli greiða atkv. um till. Danmerkur varðandi stjórnskipulega stöðu Grænlands í framtíðinni.

Er fundur þessi áframhald af lokuðum fundi, sem haldinn var í dag, en verður nú haldið áfram sem opnum fundi samkvæmt ósk nokkurra hv. þm.

Ég mun nú reyna að ræða mál þetta í stuttu máli.

Hinn 5. júní 1953 gekk ný stjórnarskrá í gildi í Danmörku. Ein af breytingum þeim, sem gerð hafði verið frá því, sem áður var, er sú, að Grænland var innlimað í danska ríkið og skal í framtíðinni vera eitt amt í því. Til þessa tíma hafði Grænland verið talið dönsk nýlenda.

Samkvæmt stofnskrá Sameinuðu þjóðanna er þeim þátttökuríkjum þeirra, sem hafa á hendi forræði landssvæða, sem hafa ekki öðlazt fullt sjálfstæði, skylt að gefa Sameinuðu þjóðunum upplýsingar um stjórnarfar og afkomu þessara landssvæða svo og taka á móti umkvörtunum íbúanna og rannsaka þær.

Danmörk sem þátttökuríki Sameinuðu þjóðanna hefur hingað til orðið að gegna þessari skyldu. Nú, eftir að Grænland hefur verið innlimað í danska ríkið, telur danska ríkisstjórnin, að hún eigi að vera leyst undan þessari kvöð. Hefur hún óskað eftir því, að mál þetta yrði tekið fyrir á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, er nú situr.

Danski utanrrh. hreyfði þessu máli á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda, sem haldinn var í Reykjavík í sumar. Svíar og Norðmenn lofuðu Dönum stuðningi, en af Íslands hálfu var ekki lýst yfir neinni afstöðu.

Nú hefur mál þetta komið fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Hefur það verið rætt í 4. nefnd eða gæzluverndarnefndinni. Hefur þar verið samþ. till., en efni hennar í aðaldráttunum þannig samkv. símskeyti, sem við höfum fengið frá New York:

„Gæzluverndarnefnd hefur kynnt sér skoðun dönsku ríkisstjórnarinnar, að vegna hinnar nýju réttarstöðu Grænlands telji danska ríkisstjórnin, að hætta beri að senda skýrslur varðandi Grænland til gæzluverndarnefndarinnar. Hún hefur kynnt sér, að grænlenzka þjóðin hefur óhindrað notfært sér réttinn til sjálfsákvörðunar, en réttkjörnir fulltrúar ákváðu hina nýju réttarstöðu hennar. Gæzluverndarnefnd lætur þá skoðun í ljós, að samkvæmt framkomnum skjölum og skýringum hafi grænlenzka þjóðin af frjálsum vilja ákveðið innlimun í danska konungsríkið á jafnréttisgrundvelli við aðra hluta danska ríkisins, bæði hvað snertir stjórnskipun og stjórnarfar. Nefndin hefur með ánægju komizt að raun um, að grænlenzka þjóðin hefur öðlazt sjálfstjórn. Nefndin telur því viðeigandi, að hætt sé nú að senda henni skýrslur um Grænland.“

Þannig er aðalefni till. þeirrar, sem samþykkt hefur verið í gæzluverndarráði.

Með till. þessari í heild greiddu 34 þjóðir atkv., 4 á móti, en 12 sátu hjá og 10 virðast hafa verið fjarverandi. Mótmæli komu aðallega fram vegna þess, að gæzluverndarnefnd var ekki talin bær um að úrskurða um málið, heldur þing Sameinuðu þjóðanna. Íslenzkur fulltrúi mun hafa mætt á nefndarfundi, en setið hjá við atkvæðagreiðslu.

Þótt gæzluverndarnefndin hafi afgreitt málið, er samt ekki frá því gengið, því að ályktun nefndarinnar verður að koma til meðferðar og atkvæðagreiðslu á þingi Sameinuðu þjóðanna. Gert er ráð fyrir, að málið komi fyrir þingið n. k. mánudag. Mun enginn vafi leika á því, hvernig málið verður afgreitt, sem sé eins og Danir óska. Mun það því tæplega skipta nokkru um úrslit málsins, hvernig Ísland greiðir atkvæði.

Sú skoðun hefur komið fram og henni verið haldið á lofti af mörgum Íslendingum, að Íslendingar eigi lagalegan rétt til landsréttinda á Grænlandi. Hafa hvað eftir annað legið fyrir hv. Alþ. þáltill., sem hnigið hafa í þá átt. Fyrir síðasta Alþ. lá ein slík till. Ekki náði hún afgreiðslu, heldur dagaði uppi. Hv. Alþ. hefur því ekki enn skorið úr um það. hvort það álíti, að Íslendingar hafi réttarkröfur til Grænlands. og hvort það telji, að kröfu þeirri beri að framfylgja í verki eða ekki.

Ég bendi á þessar staðreyndir af því. að atkvæðagreiðsla okkar á þingi Sameinuðu þjóðanna um Grænlandstill. Dana verður að skoða sem yfirlýsingu um afstöðu okkar til meintra réttinda okkar þar. Samþykkjum við dönsku till., samþykkjum við um leið innlimun Grænlands í Danmörku og höfum þar með fallið frá hugsanlegum kröfum. Ef við kjósum á hinn bóginn að tala og greiða atkvæði á móti till., verðum við að lýsa því yfir fyrir öllum heiminum, eða þeim 60 þjóðum, sem saman eru komnar á þingi Sameinuðu þjóðanna, að við höfum landakröfur á hendur Dönum.

Þar sem því eins og áður er sagt, hv. Alþ. hefur ekki tekið afstöðu enn í áminnztu Grænlandsmáli, þótt það hafi legið fyrir, þá er það álit ríkisstj., að skylt sé að gefa hv. Alþ. kost á að láta í ljós vilja sinn um það, hvernig fulltrúar Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna skuli greiða atkvæði á þingi Sameinuðu þjóðanna um till. Dana varðandi Grænland og breytta réttarstöðu þess vegna innlimunar í danska konungsríkið.

Fyrir nokkrum árum skipaði þáverandi hæstv. utanrrh. nefnd íslenzkra sérfræðinga til þess að rannsaka meintar kröfur Íslands í Grænlandsmálinu. Niðurstaða hefur verið gefin út á prenti og er öllum hv. alþm. og almenningi kunn. Þessar niðurstöður sérfræðinganna eru síður en svo til stuðnings þeim kröfum, er uppi hafa verið hér á landi í þessu máli.

Frá sjónarmiði ríkisstj. eru fjórir möguleikar í þessu máli eða hvernig hægt sé að greiða atkvæði í New York á þingi Sameinuðu þjóðanna.

Við getum í fyrsta lagi greitt atkv. á móti og þá á þeim grundvelli, að Íslendingar hafi sögulegan rétt til Grænlands. Við það er að athuga, að hinn sögulegi réttur mundi sjálfsagt verða að víkja fyrir hinum nýju skoðunum, sem uppi hafa verið, a. m. k. síðan Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar, þ. e. a. s. rétti sjálfsákvörðunarinnar.

Því hefur verið haldið fram af Dönum, og á það virðast ekki hafa verið bornar verulegar brigður af gæzluverndarnefndinni. að sjálfsákvörðunarréttur Grænlendinga hafi komið fram og stjórnarfarsleg breyting á högum Grænlands hafi verið í samræmi við það. Það hafa ekki verið bornar brigður á það, að þeir fulltrúar Grænlendinga, sem kosnir hafa verið af þjóðinni, þ. e. af Grænlendingum, hafi verið samþykkir því og fylgjandi því, að þessi háttur verði hafður á um framtíð Grænlands.

Annar möguleiki fyrir okkur við atkvæðagreiðsluna er að sitja hjá, en gera fyrirvara og bera fram athugasemdir — gera fyrirvara og bera fram kröfur um réttindi okkar til Grænlands. Mundi þar með sennilega vera fullnægt því skilyrði, að við afsölum okkur ekki neinum rétti.

Þriðja leiðin er sú að sitja hjá athugasemdalaust. sem mundi sennilega hafa sömu þýðingu og að við greiddum jákvætt atkvæði með tillögum Dana.

Og fjórða leiðin er sú að greiða atkvæði með till., eins og Norðmenn og Svíar gera, og þar með ganga inn á það, að sjónarmið Dana í Grænlandsmálunum séu að öllu leyti réttmæt, og þar með lýsa því yfir, að við höfum ekki neinar kröfur að gera um réttarstöðu Grænlands.

Ríkisstj. hefur því borið fram till., sem liggur hér fyrir hv. Sþ. til umr., og er hún þess efnis, að Alþ. samþ., að utanrrh. gefi sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrirmæli um að sitja hjá við atkvgr. á allsherjarþinginu um ályktun gæzluverndarnefndarinnar varðandi það, að Dönum beri ekki lengur að senda skýrslur um Grænland til Sameinuðu þjóðanna. Þetta er sú till., sem hér liggur fyrir til umr. og ríkisstj. stendur að.