19.11.1954
Sameinað þing: 18. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (2397)

105. mál, atkvæðagreiðsla að hálfu Íslands

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég get verið mjög fáorður um þetta mál. Ég tel, að það séu mjög mörg aukaatriði, sem hægt sé að ræða, en tiltölulega fá aðalatriði, sem skipta máli.

Eins og okkur öllum er ljóst, eiga Íslendingar í deilu við margar stórþjóðir um sín stærstu hagsmunamál. Við teljum okkar rétt svo mikinn, að við erum óhræddir við að bera hann undir Haagdóminn að fullnægðum vissum skilyrðum. Í þeim yfirlýsingum okkar liggur auðvitað traustsyfirlýsing til þessa dómstóls, yfirlýsing um það, að það, sem hann segir, skuli vera lög fyrir okkur og fyrir aðra.

Nú vill svo til í því máli, sem hér er um að ræða, að þessi sami dómstóll sem Íslendingar vilja sækja skjól til hefur kveðið upp dóm í þessu máli. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að dómur slíks dómstóls, hvort sem hann fellur okkur betur eða miður, hefur úrslitagildi um, hverju er hægt að koma fram í málinu. Þessi dómstóll, Haagdómstóllinn, kvað upp þann dóm 1. apríl 1933, að engir aðrir en Danir ættu tilkall til Grænlands. Þessi dómur var kveðinn upp árið 1933, þ. e. a. s. tveim árum eftir að ýmsir góðir Íslendingar gerðu kröfur til Grænlands, kröfur, sem að sjálfsögðu voru kveðnar niður með téðum dómi, þar eð augljóst er, að eigi Danir einir tilkall til Grænlands, eiga engar aðrar þjóðir slíkan rétt, og þá ekki heldur Íslendingar.

Haagdómurinn frá 1933 skar úr um afstöðu flestra okkar, er á þingi 1931 höfðum viljað seilast til yfirráða yfir Grænlandi.

Samt sem áður og til þess að leita enn þá frekara álits á þeim skoðunum, sem við höfðum þó fallizt á í hjarta okkar, ákváðum við að bera þetta mál undir dómbærustu og menntuðustu menn Íslands á þessu sviði. Þeir kváðu upp sama dóminn, að Íslendingar ættu engan rétt í þessum efnum.

Þrátt fyrir þetta vill hv. þm. Borgf. (PO), að Íslendingar geri nú kröfu til Grænlands. Ég get ekki tekið þátt í þeim skrípaleik. Smáþjóð sem Íslendingar verður að vera vönd að virðingu sinni. Kröfur, sem hún ber fram á erlendum vettvangi, verða að vera rökstuddar. Hrópi hún alltaf: „Úlfur, úlfur“ — verður lítið mark á henni tekið. Þessa skulum við, sem verja eigum rétt Íslands í landhelgismálinu, vera vel minnugir.

Af þessu markast afstaða mín í málinu, en ekki tillitssemi gagnvart Dönum, sem ég þó ann góðs. Ég álít einfaldlega, að við eigum engan rétt til Grænlands, og er alveg óhræddur að játa það. Og ég spyr: Með hvaða rökum ætla menn að ganga fram á vettvangi alþjóða og segja, að Íslendingar eigi þennan rétt? Hvert ætla menn að sækja rökin? Hverju ætla menn að svara, þegar þeir verða spurðir, hvort alþjóðadómstóll hafi sagt sitt álit, hverju ætla menn að svara, þegar spurt verður um, hvort íslenzkir sérfræðingar hafi sagt sitt álit, og hverju ætla menn að svara, þegar þeir spyrja sjálfa sig? Hvers vegna halda menn, að jafnskeleggur maður og hv. þm. Borgf. hafi alltaf orðið að lúta því á seinni árum, að þetta mál hefur ekki fengizt afgreitt? Það er vegna þess, að menn hafa fundið, að eigin sannfæring sagði þeim, að hér væri ekki vettvangur til að berjast á. Það er ekki vegna þess, að menn hafi skort skap til að berjast, ekki heldur vegna þess, að menn hafi vantað löngun til að standa á rétti Íslendinga. Það er vegna þess, að menn hefur skort sannfæringu um, að það væri mögulegt, og þetta eiga menn að viðurkenna. Menn eiga að hætta að blekkja sína þjóð með því að halda fram í alþjóðaráheyrn, að menn hafi réttindi, eða vera að gefa í skyn, að menn hafi réttindi, sem menn trúa ekki á.

Um þetta hef ég ekki miklu meira að segja. Ég stend að þeirri till., sem borin er fram. Það gerir öll ríkisstj., og við gerum það ekki af neinni vináttu við Dani, þó að okkur beri að vera þeirra vinir. Við gerum það ekki af því, að við séum ekki að verja rétt Íslendinga. Við gerum það af því, að okkur skortir sannfæringu fyrir möguleikanum til að berjast. Okkur skortir sannfæringu fyrir því, að við getum unnið sigurinn, og við viljum játa það, að þetta sé okkar hugarfar. Okkur skortir vilja til að biðja okkar umboðsmenn að koma fram á alþjóðavettvangi og halda fram einhverju öðru en hægt er að rökstyðja með nokkrum hugsanlegum hætti.