19.11.1954
Sameinað þing: 18. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (2403)

105. mál, atkvæðagreiðsla að hálfu Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hélt hér ræðu áðan, og ég held, þó að margt sé sagt undarlegt og ljótt stundum hér í þinginu, að þá sé sú ræða einsdæmi um hræsni og blindni, og ég ætla að leyfa mér að taka þessa ræðu ofur lítið í gegn.

Hann talaði um það, að stjórnarskrá Dana hefði verið samþykkt fyrir nokkru og við hefðum ekki mótmælt henni. Hann virðist ekki skilja það, að núna er einmitt stundin og staðurinn til þess að mótmæla henni. Nú fyrst er það, sem hún á að koma í gildi á alþjóðavettvangi. Nú fyrst er það, sem hún á að koma í gildi hvað Grænland snertir og hvað snertir innlimunina á Grænlandi undir danska ríkið.

Hæstv. fjmrh. talaði eins og það væri ein einasta hætta, sem í dag vofði yfir Grænlendingum, ein einasta hætta, sem gæti orðið þeim til niðurdreps og útrýmingar og missis sjálfstæðis; það væri það, að Íslendingar gerðu kröfu til Grænlands. Það væri engin önnur hætta, sem yfir þeim vofði, og það var eins og hann einbeitti sér að því að reyna að egna það fram, að einhver slík tillaga kæmi fram, og þannig talaði hann. Hann gáði þess ekki um leið, að í hvert einasta skipti, sem hann var að höggva í slíkar till., sem hann var að biðja um, þá var hann að höggva gegn því valdi, sem Danir hafa nú yfir Grænlandi og þeir misbeita þar.

Fyrst nokkur orð viðvíkjandi því, sem hann var að tala um sögulegan rétt. Við Íslendingar höfum meiri sögulegan rétt en Danir, ef á að fara að dæma eftir sögulegum rétti, og Danir hafa ekki byggt yfirráð sín á Grænlandi á öðru en þeim sögulega rétti, eins og hér hefur þegar verið sýnt fram á. Við höfum hins vegar ekki gert okkar sögulega rétt til Grænlands gildandi til þess að hagnýta Grænland fyrir okkur eða til þess að gera Grænland að nýlendu, eins og Danir gera og eins og hæstv. fjmrh. og hans ríkisstj. er að hjálpa þeim til. Við höfum stundum komið fram með þennan sögulega rétt, en við höfum gert það í því skyni að geta komið fram sjálfsákvörðunarrétti Grænlendinga í veröld, sem enn þá lítur eingöngu á valdið og sögulega réttinn, en viðurkennir enn sem komið er ekki nema í orði kveðnu sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna. Við getum rætt um þessa tvo rétti og talað um þá. Við skulum ræða um þá hvorn út af fyrir sig, og það er ekki til neins fyrir hæstv. fjmrh. að ætla að fara að reyna að koma þeim þannig í mótsetningu hvorum við annan. Réttur Dana samkv. Haagdómstólnum yfir Grænlandi byggist á þeirra sögulega rétti, eða réttara sagt á okkar Íslendinga sögulega rétti, á landnámi víkinganna í Grænlandi, eins og stendur í forsendum Haagdómstólsins. Ef við þess vegna ætlum að viðurkenna, að þessi réttur eigi að gilda í heiminum, — og það er hann sem dæmt er eftir, — þá mundi sá sögulegi réttur koma fram þegar við sæktum okkar mál. Við álítum hins vegar, að annar réttur ætti að gilda, og það er sjálfsákvörðunarrétturinn, og við berjumst fyrir því, að sá réttur nái fram að ganga. En hvað vill hæstv. ríkisstj. og fjmrh. gera? Fjmrh. er að tala hérna um mótsetningarnar og það ósamrýmanlega milli þessara tveggja rétta. Hæstv. fjmrh. er sjálfur að beygja sig fyrir sögulegum rétti Dana og fyrir valdbeitingu þeirra, en um leið að svíkja af Grænlendingum þeirra sjálfsákvörðunarrétt. Í því fólst hræsnin, mótsögnin og tvískinnungurinn í allri hans ræðu. Hvernig höfum við Íslendingar hagað okkur sjálfir í þessum málum? Hæstv. fjmrh. talaði eins og hann hefði ekki hugmynd um sögu Íslands. Við höfum einmitt byggt á okkar eigin sögulega rétti til okkar eigin lands, meira að segja á eldgömlum sögulegum heimildum í því sambandi, á eldgömlum samskiptum, og Jón Sigurðsson skammaðist sín aldrei fyrir að byggja á þeim. Við höfðum svo að segja sem varaskeifu — næstum því — sjálfsákvörðunarréttinn. Auðvitað ætluðum við aldrei, þó að einhverjir forfeður okkar hefðu verið jafnblindir og núverandi valdamenn Íslands eru, — sem þeir aldrei voru á okkar mesta niðurlægingartíma, — þó að þeir hefðu einhvern tíma samið af okkur réttinn til þessa lands, þá hefðum við sagt, að við hefðum hann samt, en þá hefðum við orðið að sækja hann og taka hann öðruvísi en við gátum núna.

Hæstv. fjmrh. sagði, að við værum að gera okkur að undri með því að heimta rétt einnar þjóðar, sem sé Íslendinga, til þess að ráða Grænlandi. Hann sagði, að við værum að gera okkur að undri frammi fyrir heiminum. En hvað er það, sem hann og hæstv. ríkisstj. er að gera núna? Hún er einmitt að gera Íslendinga að undri frammi fyrir öllum heiminum með því að ætla að samþykkja með hjásetunni rétt einnar þjóðar, sem sé Dana, til þess að ráða yfir Grænlandi og til þess að innlima Grænland. Hann gáir ekki að því, að þegar hann er að tala svona skelegglega á móti þessum ímynduðu nýlendukröfum Íslendinga, sem hann er að búa til, þá er hann að höggva í Dani, höggva einmitt í þann málstað, sem hann er sjálfur að verja hérna. Hann er að segja, að Íslendingar, m. ö. o. ein þjóð, hafi engan rétt til þess að heimta það að eiga að fara að ráða yfir annarri þjóð eða öðru landi eins og Grænlandi en hann er um leið að gerast hér málsvari einnar þjóðar, sem sé Dana, til þess að mega ráða yfir Grænlandi og til þess að mega innlima Grænland í sitt eigið ríki. Hvers konar hræsni er þetta? Hvers konar blindni er þetta í sókn og vörn fyrir einu máli að geta ekki séð þetta? Hann talaði um, að rökin hljóti að vera sjálfsákvörðunarréttur þjóðanna, og hvað er það, sem hér er verið að ræða um? Það er verið að ræða um, hvort við eigum að standa með því, að Danir innlimi Grænland í danska ríkið og innlimi Grænlendinga í dönsku þjóðina. Hann segir, að þá skipum við okkur í hóp þeirra þjóða, sem sitja yfir rétti annarra. Það er einmitt það, sem tillaga hans og ríkisstj. gengur út á, að við skinum okkur í hóp þeirra þjóða, sem sitja yfir rétti annarra, að við skipum okkur í hóp með Dönum til þess að sitja yfir rétti Grænlendinga.

Og svo talar þessi sami hæstv. ráðh. með fyrirlitningu um, að það sé verið að vitna í einhver gömul samskipti. Við Íslendingar byggðum á gömlum samskiptum í allri okkar sjálfstæðisbaráttu, og Danir byggja við Haagdómstólinn og forsendurnar fyrir honum á landnámi víkinganna í Grænlandi, sem sé á þeim gömlu samskiptum, sem raunar voru Íslendinga; það voru Íslendingarnir, sem námu Grænland. þó að Danir hafi þagað um það fyrir Haagdómstólnum.

Allt, sem hæstv. fjmrh. var að tala um að við ættum að halda heilagt og við ættum að vernda sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna er einmitt það. sem hann er að svíkja, þegar í hlut á minni þjóð en við, — þjóð, sem á engan málsvara hjá Sameinuðu þjóðunum, og þjóð, sem á siðferðislega rétt til þess að heimta það, að einmitt minnsta þjóðin, Íslendingar, muni eftir henni, ekki sízt vegna þess, að þetta eru næstu nábúar okkar, þetta er náungi okkar, ef við notuðum það kristilega hugtak, og þetta er þar að auki þjóð, sem er okkur sögulega tengdari en jafnvel nokkur önnur þjóð. (Fjmrh.: Hvers vegna vill þá þm. ásælast til hennar?) Ég er ekki að ásælast þeirra land. Ég er að reyna að hindra það, að Danir innlimi þeirra land og drepi þeirra þjóð, en það er þjóðarmorð, sem hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. ætlar að gera sig seka í og ég skal koma inn á, hvers konar plagg það er, sem er lagt hérna fyrir okkur núna, ég skal nú koma inn á það plagg, sem hæstv. utanrrh. leggur hér fyrir og á að byggja á alla röksemdaleiðsluna í þessu máli, og það er yfirlýsing verndargæzluráðsins eða meiri hlutans í því. Og við skulum nú taka það fyrir lið fyrir lið til þess að sjá, hvernig þær upplýsingar eru fengnar, sem hér eru lagðar fyrir Alþingi Íslendinga af ríkisstj. og við eigum að dæma í þessu máli eftir.

Meiri hluti verndargæzluráðsins segir, ég hef það orðrétt eftir hæstv. utanrrh.: „Hún, þ. e. verndargæzlunefndin, hefur kynnt sér, að grænlenzka þjóðin hefur óhindrað notfært sér réttinn til sjálfsákvörðunar, er réttkjörnir fulltrúar hennar ákváðu hina nýju réttarstöðu hennar.“ — Við skulum fyrst athuga orðið ,óhindrað“ og leggja fram þá spurningu, hvort Grænlendingar hafi framkvæmt þennan sjálfsákvörðunarrétt óhindrað. Ég skal þá upplýsa það hér. — það væri nú viðkunnanlegt ef hæstv. ríkisstj. eða einhver úr henni væri hérna inni á meðan þau plögg, sem þeir leggja fyrir Alþingi til þess að byggja á úrslitaákvarðanir, jafnvel fyrir næstu tíma, eru tekin í gegn. Og ég vil þá um leið beina fyrirspurnum til hæstv. ríkisstj.

Ég ætla að lýsa því hér yfir, að Grænlendingar á Norður-Grænlandi og Austur-Grænlandi hafa aldrei verið spurðir um neitt í þessum málum, aldrei verið látnir greiða atkv. um neitt í þessum málum, aldrei verið látnir kjósa neinn mann, hvorki til sveitarstjórnar. landsráðs né þings Dana, og ég vil skora á hæstv. ríkisstj. að mótmæla þessu hér, ef hún getur. Þeir hafa aldrei verið spurðir um neitt, látnir greiða atkv. um neitt né kjósa neitt, ekki einu sinni þessa þm., sem koma fram, þessa frændurna Lynge, sem koma fram fyrir þeirra hönd í New York núna. Á Vestur-Grænlandi hefur hins vegar verið látið kjósa í sveitarstjórnir og í sýslunefndir, en þeir, sem hafa fengið að kjósa í sveitarstjórnir og sýslunefndir, hafa ekki heldur verið spurðir að því, hvort þeir vildu verða hluti af Danmörku. Það hefur aldrei farið fram nein þjóðaratkvæðagreiðsla í þessum hluta. í Vestur-Grænlandi. um stjórnarskrána dönsku. Hverjir eru það, sem hafa verið spurðir? Það er landsráðið, sem er skipað ofan frá ýmsum mönnum úr hreppsnefndunum í Vestur-Grænlandi; það er það sem hefur verið spurt. Formaður þess er Dani. Það er eins og lélegri nefnd en embættismannanefndin fyrir 100 árum hefði verið spurð hér á Íslandi um, hver ætti að vera staða Íslands. Og hvað svo um þessa fáu Grænlendinga, sem á eftir hafa fengið að greiða atkv. og fengið að kjósa, hvernig er hindrunin, sem lögð hefur verið í veg fyrir þá? Þeir fáu Grænlendingar, sem hafa fengið að kjósa, hafa verið hindraðir í því að skapa sér skoðanir á þessum málum, þeir hafa verið hindraðir í því að gefa út bækur á sínu máli, þeir hafa verið hindraðir í því að gefa út blöð á sínu máli, það hefur verið hindrað allt pólitískt frelsi í Grænlandi á þessum litla hluta, sem hefur fengið að kjósa, og þeir menn af dönsku bergi brotnir, sem hafa verið settir þar sem embættismenn af dönsku stjórninni og hafa sýnt sig í því að vilja stuðla að, grænlenzkri menningu, eflingu bókmenningar hjá Grænlendingum, útgáfu blaða og bóka á grænlenzku um þeirra sjálfstæðismál, hafa verið reknir burt af Grænlandi og sviptir sínum embættum. Það eru kannske einhverjir

Íslendingar, sem muna eftir því, að menn, sem hafa barizt fyrir okkar réttindum hér á Íslandi áður fyrr, hafa verið beittir því sama af danskri stjórn. Svona hefur verið farið að. Þetta er það, sem meiri hluti verndargæzluráðsins kallar „óhindrað“, og þetta er það, sem ríkisstj. leggur fyrir Alþingi Íslendinga. Það eru ósannindi.

Þá skulum við koma næst að því, að réttkjörnir fulltrúar hafi ákveðið hina nýju réttarstöðu og þeir hafi notfært sér réttinn til sjálfsákvörðunar. Réttkjörnir fulltrúar hafa aldrei ákveðið neina nýja réttarstöðu. Þessi nýja réttarstaða hefur aldrei verið undir þá borin, þeir hafa aldrei verið látnir greiða atkv. um dönsku stjórnarskrána. Þeir hafa á litlum hluta Grænlands, Vestur-Grænlandi, verið látnir kjósa eftir stjórnarskránni, eftir að hún hefur verið sett. Stjórnarskráin var ákveðin án þess að spyrja grænlenzku þjóðina, ákveðin af dönsku ríkisstj. Er enginn hér, sem man eftir því, að það átti að gera slíkt gagnvart Íslendingum? Er enginn, sem man eftir því, að dönsk stjórn hafi einhvern tíma haft tilhneigingar til þess að ætla að setja íslenzkri þjóð stjórnarskrá ofan í vilja hennar? Ég býst við, að menn muni eftir, hvernig því hefur verið mætt hér. En við eigum að styðja Dani, þegar þeir ætla að neyða slíku upp á Grænlendinga, sem standa varnarlausir að vígi. Það er því svo fjarri, að grænlenzka þjóðin hafi „óhindrað notfært sér réttinn til sjálfsákvörðunar, er réttkjörnir fulltrúar ákváðu hina nýju réttarstöðu hennar“, eins og stendur í plagginu, að það er ekkert einasta orð satt í þessu.

Þá er haldið áfram í plagginu frá ríkisstj.: „Gæzluverndarnefnd lætur þá skoðun í ljós, að samkv. framkomnum skjölum og skýringum hafi grænlenzka þjóðin af frjálsum vilja ákveðið innlimun í danska konungsríkið.“ Af frjálsum vilja innlimun! Hvað hefur nú gengið á undan, áður en þessi innlimun er framkvæmd, svo að við tölum ekki um frjálsa viljann?

Í fyrsta lagi: Það hefur enginn vilji komið fram, hvorki frjáls né ófrjáls, á Norður-Grænlandi né Austur-Grænlandi. Þeir hafa aldrei verið spurðir og aldrei neitt verið látið í ljós. Það hefur komið fram á Vestur-Grænlandi vilji. Hvernig er búið að búa að þarna á Vestur-Grænlandi? Hvernig er umhorfið, þegar sá vilji er kveðinn upp, sem nú er túlkaður af þeim, sem kalla sig fulltrúa Grænlendinga? Það er vitað, að í þessum þorpum í Vestur-Grænlandi er mestmegnis töluð danska. M. ö. o.: Það er búið að troða það mikið niður tungu Grænlendinganna sjálfra, að það er búið að koma danskri tungu á, þannig að hún er orðin það almenna mál í þessum þorpum. Það er verið að stefna að því að útrýma þannig grænlenzkunni. Þyrfti það út af fyrir sig að þýða, að grænlenzkt þjóðerni ætti sér ekki viðreisnar von? Sá maður, sem hrifnastur var af íslenzkri tungu af öllum Dönum, sem uppi hafa verið, Rasmus Kristján Rask, og sá Dani, sem okkur hefur hjálpað bezt til þess að reisa okkur sjálfa við úr niðurlægingunni, sem við vorum komnir í, var sjálfur svo hræddur um örlög íslenzkrar tungu, eftir að hann hafði kynnt sér ástandið hér, að hann óttaðist að hún yrði útdauð eftir 100–200 ár, og við vitum ósköp vel, hvað danskan var orðin algeng t. d. hér í Reykjavík. Engu að síður vitum við, hvað okkur hefur tekizt, og þó að búið sé að leika Grænlendinga verr en við vorum nokkurn tíma leiknir, þá er engin ástæða til þess að örvænta um, að þeirra þjóðerni mætti reisa við, ef þeim væri hjálpað til þess. En það, að danska skuli raunverulega vera það mál, sem fyrst og fremst var talað á þessum hluta Grænlands, í Vestur-Grænlandi, sýnir okkur samt, hvert þarna er stefnt. Við vitum, að Grænlendingar á þessu svæði eru orðnir mjög blandaðir Dönum. Við vitum, að Danir hafa flutt þarna inn, eru bókstaflega að yfirtaka landið og að þessir bæir eru hálfdanskir. Reykjavík var fyrir rúmum 100 árum líka talin hálfdanskur bær, og það þótti þá að vísu djarft, en ekki ófært, að reyna að gera hana að íslenzkri höfuðborg og aðsetri Alþingis.

Það er þess vegna aðeins að slá fastri staðreynd, hve danska sé orðin útbreidd og hve blandaðir Eskimóarnir eða Grænlendingarnir séu orðnir Dönum á þessu svæði og bæirnir hálfdanskir. Það sýnir áhrif Dana í þessum hluta Grænlands, en það sannar ekki, að það væri ekki hægt að hjálpa grænlenzku þjóðinni enn sem komið er. En hvert stefnir, ef haldið er áfram eins og gert hefur verið undanfarið? Hæstv. fjmrh. talaði um það hérna áðan, þegar hann var að þykjast hafa á móti kröfum Íslendinga til Grænlands, hvort það ætti máske að sópa Eskimóum út. Hefur hæstv. fjmrh. athugað, hvað er verið að gera í Grænlandi? Ef hann hefur ekki athugað það, þá skal ég lofa honum að heyra, hvað hans eigið blað segir, og ef Eysteinn Jónsson er ekki hræddur við Tímann, þá væri gott, að hann kæmi inn. Ég skal lofa honum að heyra, hvað hans eigið blað segir um, hvort sé verið að sópa Eskimóum út úr Grænlandi og hverjir séu að gera það.

Þegar konungur Dana kom til Grænlands 1952, fengu blaðamenn að fara með honum, og þá kom margt í ljós, sem danska þjóðin og aðrar þjóðir höfðu ekki búizt við, og Tíminn, blað hæstv. fjmrh., birti nokkru eftir konungsheimsóknina, þann 31. ágúst 1952, grein með þriggja dálka fyrirsögn, sem hljóðaði svo:

„Berklar og kynsjúkdómar eru að útrýma grænlenzkum kynstofni.“ Og í undirfyrirsögn: „segir Gunnar Larsen, fréttamaður við Dagbladet í Osló, eftir Grænlandsheimsókn.“ Berklar og kynsjúkdómar eru að útrýma grænlenzkum kynstofni.

Þetta er fyrirsögn úr blaði hæstv. fjmrh., Tímanum, 31. ágúst 1952, og síðan kemur löng og greinileg frásögn á eftir, eftir sjónarvott í Grænlandi. Hann segir þar m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Hinn nakti, bitri veruleiki: Eftir því sem líður á konungsheimsóknina í Grænlandi komumst við betur að raun um það, að bæði heimsóknin og allt, sem henni fylgir, er aðeins glitábreiða. Jafnvel hin hreinskilnu og góðviljuðu konungshjón geta ekki með öllu dulizt þessari bitru staðreynd.

Hér í Grænlandi höfðu Grænlendingar málað öll húsin rauð að utan í tilefni af konungskomunni. En það var aðeins að utan, sem húsin voru litfögur ásýndum. Inni í þröngum kytrunum blasti við önnur og ófögur sýn. Þar lágu fjölskyldurnar, oft langt leiddar af berklaveiki, og þar var óþefurinn og óhreinindin ólýsanleg. Margir sjúkir lágu oft saman í rúmgarmi, sem komið var fyrir úti í horni á köldu moldargólfinu.“ — Síðan er haldið áfram að lýsa berklunum, kynsjúkdómunum og sagt: „Þessir sjúkdómar höggva mikil skörð í kynstofninn, og það hefur hent, að heilir árgangar nýfæddra barna þurrkast út af völdum sveltisjúkdóma. Hin fáu sjúkrahús eru magnþrota í þessari baráttu. Héraðslæknirinn sagði mér, að eina ráðið til að bjarga kynstofninum frá algerri útrýmingu væri að flytja mikinn hluta æskunnar til Danmerkur, þar sem hægt yrði að veita henni sómasamlega læknishjálp. En það virðist undarlegt, að maður ekki segi vitfirring, að mitt í allri þessari neyð í þessum aumkunarverða bæ, þar sem fólk liggur á moldargólfum í heilsuspillandi húsum, eru byggð ágæt starfsmannahús úr tré, þótt þetta sé í trélausu landi, handa dönskum starfsmönnum.“

Og það er haldið áfram í blaði fjmrh. að lýsa ástandinu í Grænlandi. Og það er birt mynd með, sem skýringarnar við a. m. k. eru frá eigin brjósti Tímans eða Framsfl., eftir því sem mér hefur skilizt. Það er birt mynd af nokkrum ungmennum í Grænlandi, og þetta stendur til skýringar myndinni, hæstv. fjmrh.:

„Grænlenzkt æskufólk í Góðvon: Fáir eru kátari og lífsglaðari en ungir Grænlendingar, meðan heilsan er góð, nóg veiði og efnt til hátíða. Fátækrahverfið eða helzta Eskimóahverfið í Góðvon heitir Íslandsdalur, og þar á fólkið lítið annað en fataræflana, er það stendur í. Æðsti draumur unglingsdrengjanna þar er að eignast hvítan ananak,“ held ég, að það eigi að vera; illa prentað. Tekur hæstv. fjmrh. eftir, hvað þarna er sagt, líklega frá eigin brjósti Tímans? Fátækrahverfið eða helzta Eskimóahverfið í Góðvon, það er samnefnari. Það er það sama: fátækrahverfið og helzta Eskimóahverfið. Að vera fátækur, það er sama sem að vera Eskimói. Að vera Eskimói, það er sama sem að vera fátækur. Og þar sem helzta Eskimóahverfið er, heitir Íslandsdalur.

Hvað er það, sem er að gerast þarna? Það er, að Eskimóarnir sem undirþjóð eru látnir búa við fátækt og sjúkdóma og það er verið að útrýma þeirra kynstofni. Þetta er það, sem er að gerast. Og þetta er það, sem hæstv. fjmrh. vill að sé þagað um. Við Íslendingar, sem vorum komnir nærri útrýmingu, — við, sem næstum var búið að útrýma fyrir 160–170 árum, ættum að skilja þá þjóð, sem er í sömu aðstöðu nú. Okkur þótti vænt um það, þegar við áttum bágast, að það voru til menn úti í heimi, sem tóku okkar málstað, að það voru menn í Englandi, Þýzkalandi, Svíþjóð og annars staðar, sem tóku okkar málstað, þegar við vorum úthrópaðir sem Eskimóar út um allan heim, m. a. af harðvítugum afturhaldsmönnum í Danmörku. Og við ættum að sýna þá drenglund að taka málstað þeirra manna, sem nú hafa ekki tækifæri til þess að bera hönd fyrir höfuð sér, þeirra manna í Grænlandi, sem eru bæði fátækir og Eskimóar, en það þykir nokkurn veginn það sama. Við ættum ekki að leggjast á sveif með þeim, sem nú ætla að gera endanlega út af við þennan kynstofn, sem berklarnir og aðrir sjúkdómar hafa verið að útrýma, með því að innlima þá nú í framandi ríki og framandi þjóð.

Það væri kannske ekki úr vegi, að við athuguðum svo um leið, hverjir það eru nú, sem þykjast tala fyrir hönd Grænlendinga, hverjir það eru nú, sem eru samherjar hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. og standa með þeirri till., sem lögð var fram í verndargæzluráðinu og ríkisstj. vill nú styðja með hjásetu sinni. Hverjir eru heimildarmennirnir fyrir meiri hluta verndargæzluráðs, heimildarmenn fyrir plagginu, sem ég var að vitna í hér áðan, plagginu, sem ríkisstj. hefur lagt hér fyrir okkur? Hverjir eru það, sem eru forsvarar innlimunarinnar eins og hæstv. fjmrh.? Það eru danskir Grænlendingar eða Danir í Grænlandi. Það var vitnað í orðin, sem þeir hefðu sagt, í danska blaðinu Politiken. Eitt, sem þessir grænlenzku þm. höfðu sagt, var, að Grænland væri „óaðskiljanlegur hluti danska ríkisins“, — já, óaðskiljanlegur hluti danska ríkisins. Könnumst við við orðalagið? Höfum við nokkurn tíma heyrt þetta áður: „Óaðskiljanlegur hluti danska ríkisins“? Og hverjir voru það, sem héldu því fram? Það voru Danir og danskir Íslendingar eða fulltrúar Dana á Íslandi, sem héldu því einu sinni fram, að við værum „óaðskiljanlegur hluti danska ríkisins“. Og hverjir eru það, sem halda þessu fram núna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna? Það eru danskir Grænlendingar, Danir í Grænlandi, yfirþjóð, sem er smátt og smátt að útrýma þjóðerni undirþjóðarinnar. Þessir sömu menn, eins og var vitnað í í Politiken, höfðu sagt, að þeir vildu „sameinast móðurlandinu“. Þekkjum við þetta orðalag? Könnumst við, við þetta? Höfum við einhvern tíma heyrt þetta hérna hjá okkur? Hverjir eru það, sem nota þetta orðalag? Það eru varla aðrir en þeir, sem sjálfir eru innfluttir Danir, eða börn þeirra, sem skoða sig dönsk. Fyrir þá er þetta eðlilega sameining við móðurlandið, og þó efast ég nú um, að það sé móðurland, það er nú líklega föðurlandið venjulega, sem þeir eiga við. Nöfnin benda a. m. k. til þess, að það séu feðurnir, sem séu danskir, en mæðurnar þá frekar grænlenzkar, ef þeir eru þá að einhverju leyti grænlenzkir.

Okkur var sagt það lengi, að við ættum að una vel í faðmi „móðurlandsins“, og meira að segja þegar samvinnuhreyfingin var að byrja á Íslandi, þá var talað um það norður á Akureyri, að það væru landráð við „móðurlandið“ að kaupa ekki vörur í „móðurlandinu“, heldur í Englandi.

Þessi sami grænlenzki þm. sagði fyrir verndargæzlunefndinni og var haft eftir honum í Politiken, að engum manni í Grænlandi hefði dottið í hug sjálfstæði. Nei, það er einmitt. „Það hefði engum dottið í hug sjálfstæði þarna.“ Milli hvers voru þeir þá að velja, þessir menn, sem aldrei hafði dottið í hug sjálfstæði? Og af hverju hafði þeim eftir hans meiningu aldrei dottið í hug sjálfstæði? Af því að enginn maður hafði nokkurn tíma fengið að komast upp með það að minnast á rétt Grænlendinga til síns eigin lands og vinna fyrir slíkum rétti. Það var sá tími, að það var líka bannað að gefa út blöð hér á Íslandi, að dönsk yfirvöld bönnuðu það eins og þau hafa gert í Grænlandi. Það var sá tími, að það var dönsk einokunarverzlun, sem réð hér á Íslandi, eins og hún gerir enn í Grænlandi með „lýðræðinu“, sem talað er um að eigi að ríkja í Grænlandi núna.

M. ö. o.: Þessi þm. Grænlendinga viðurkennir, að þeim hafi aldrei dottið í hug sjálfstæði. Þeir hafa ekki einu sinni þekkt réttinn til sjálfsákvörðunar og þess vegna ekki getað hagnýtt hann. Þessi þjóð hafi aldrei verið upplýst um það, að sem þjóð, sem sérstakt þjóðerni, hafi hún rétt, óafsakanlegan rétt, til þess að fá að vera sjálfstæð og mannúðarkröfu til þeirra þjóða; sem langt eru komnar á menningarbrautinni, að þær hjálpi henni til þess, en innlimi hana ekki í sig og eyðileggi hana og útrými henni. Þessir menn, sem kalla sig fulltrúa Grænlendinga, viðurkenna, að þeim hafi aldrei dottið í hug sjálfstæði. Þeir viðurkenna, að Grænlendingar hafi aldrei haft aðstöðu til þess að hagnýta neinn sjálfsákvörðunarrétt.

Og svo er verið að tala um í plagginu, sem ríkisstj. leggur fyrir, að grænlenzka þjóðin hafi af frjálsum vilja ákveðið innlimun í danska konungsríkið. Hvers konar endalaus þvæla, mótsagnir og ósannindi eru þetta, sem saman er hrúgað þarna? Það, sem er að gerast, er, að það er smátt og smátt verið að útrýma íbúunum af grænlenzku kyni. Það er verið að gera landið danskt. Og það er auðséð, að eftir nokkra áratugi verður þetta orðið danskt land, byggt Dönum, og þjóðinni, sem var þar fyrir, er útrýmt.

Það, sem Danir fara fram á við Íslendinga í dag, er: Verið þið ekki að heimta, að það sé haft neitt eftirlit með þeim aðferðum, sem við notum til þess að ná því að gera Grænland danskt. Fallið þið frá því að greiða atkv. gegn því hjá Sameinuðu þjóðunum, að það sé haft eftirlit, að danskri stjórn sé gert að skyldu að leggja skýrslu fyrir Sameinuðu þjóðirnar um, hvað hún aðhefst í Grænlandi. — Og þetta heimta menn, sem sjálfir loka Grænlandi, — menn, sem krossbregður sjálfum við, þegar þeir heyra lýsingarnar frá Græniandi, þegar þeim verður á að senda óvart kónginn þangað og fréttamenn fá að fara með honum. Og þetta er það, sem ríkisstj. fer fram á hér í dag, að við eigum að vera samsekir um, að yfirþjóðin í Grænlandi útrými undirþjóðinni smátt og smátt. Það er það, sem er að gerast.

Það má vera, að grænlenzku þjóðerni verði ekki bjargað. En það er a. m. k. ekki okkar að stjaka við þeim, þegar þeir standa erfiðast. Ef til vill gæti það eitthvað hjálpað, að það væri haft eftirlit með þeim aðferðum, sem beitt er í Grænlandi, Og meiri manndómur hefði verið í því af Alþ. Íslendinga og ríkisstj. að sjá um, að það væru sendar nokkrar íslenzkar nefndir til Grænlands, m. a. máske nokkrar þingmannanefndir, til þess að athuga ástandið þar, ef þeim hefði þá ekki verið neitað um það.

Þá er haldið áfram í plagginu: „af frjálsum vilja ákveðin innlimun í danska konungsríkið á jafnréttisgrundvelli við aðra hluta danska ríkisins“. Hvað á nú þetta þvaður að þýða? Það er yfirlýst, að Grænland sé gert að amti úr Danmörku, að óaðskiljanlegum hluta danska ríkisins. Hvaða jafnréttisgrundvöllur er þetta? Er það einhver jafnréttisgrundvöllur t. d. við Færeyinga? Nei, ekki einu sinni það. Þeir eru bara amt. eins og átti að gera okkur að einu sinni. Það er m. ö. o. enn þvaðrað. Og svo, ef við tökum það fyrir, hvað er þá þessi jafnréttisgrundvöllur? Er réttur mannanna í Grænlandi í dag jafn og danskra borgara á Sjálandi eða Fjóni? Nei, hann er ekki jafn. Þeir verða að lúta um alla sína verzlun, allar sínar andlegu og líkamlegu nauðsynjar forsjá danskrar einokunarverzlunar. Grænland er lokað land. Grænlendingum er bannað að hafa samgöngur við aðra menn. Við getum farið þegar við viljum til Danmerkur. Við getum stigið á land í Danmörku, þegar okkur þóknast. Því er haldið fram við okkur í dag, að Grænland sé Danmörk, en við megum ekki fara til þess hluta í Danmörku og stíga þar á land: Ykkur er bannað það. Þessum mönnum er bannað að gefa út rit um sín mál, og það er bannað að gefa út rit og senda þeim. Þeir eru sviptir réttindum, sem allir aðrir menn í þjóðfélögum, sem telja sig svo, eins og danska þjóðfélagið, hafa, og þeir eru sviptir réttindum, sem allir Danir hafa. Þeir hafa engan jafnréttisgrundvöll, ekki einu sinni þessir menn í Vestur-Grænlandi, ekki einu sinni þessir, sem eru þó orðnir meira eða minna hálfdanskir. Og þeir, sem eru í Norður-Grænlandi, Thule, eða þeir, sem eru hér fyrir norðan okkur í Austur-Grænlandi, hafa alls engan rétt.

Það minnsta, sem hægt var fyrir Dani að gera í sambandi við ákvörðun um þessi mál. var að setja inn í sína stjórnarskrá ákvörðun um, að grænlenzka þjóðin og íbúar Grænlands hefðu hvenær sem þeir vildu rétt til aðskilnaðar og sjálfstæðis, þegar þeir krefðust þess sjálfir. Ekkert slíkt er gert. Þeir eru sviptir öllum slíkum rétti, einmitt sviptir þeim rétti, sem þeir eðli málsins samkvæmt hefðu haft sem nýlenduþjóð, vegna þess að það er litið þannig á nýlendu, að þar væri raunverulega þjóð, sem ætti siðferðislega kröfu til þess að verða frjáls, en hefði annaðhvort ekki haft vald eða þroska til þess að verða það enn þá. Einmitt þessu átti að svipta þá með því að innlima þá, og þessi innlimun er náttúrlega aðferð, sem hvert einasta slíkt stórveldi getur viðhaft, ef það vill láta hætta eftirlitinu með þessu.

Þá segir áfram í plagginu: „Nefndin hefur með ánægju komizt að raun um, að grænlenzka þjóðin hefur öðlazt sjálfsstjórn.“ Nú verð ég að segja eitt: Annaðhvort skilur ekki ríkisstj. ensku eða þá, og því trúi ég ekki, að hún þýðir allt þetta plagg hringlandi vitlaust, eða þá, að það, sem í þessu plaggi stendur, er sú mesta endileysa, sem nokkurn tíma hefur sézt í stjórnmálaplaggi. Plaggið byrjar með því, að það sé lýst yfir, að grænlenzka þjóðin hafi af frjálsum vilja ákveðið innlimun í danska konungsríkið, og síðan lýsir nefndin ánægju sinni yfir því, að grænlenzka þjóðin hafi öðlazt sjálfstjórn. M. ö. o.: „sjálfstjórn“ og „innlimun í danska ríkið“. Þetta er rökfræði! Þetta er danska rökfræðin í New York frammi fyrir verndargæzluráðinu! Og þetta á Alþingi Íslendinga eftir 600 ára reynslu af því að vera nýlenda Noregs og Danmerkur í rauninni, þó að við værum það aldrei samkvæmt réttinum, svo að fara að leggja samþykki á! Svona endemis plagg er það eina, sem er lagt fyrir Alþingi Íslendinga, sem við eigum að fallast á, þar sem upphafið stangast á móti endinum og þar sem allt, sem í því er þar á milli, er tóm hringavitleysa. Nei, við eigum ekki að ljá svona plaggi okkar lið. Við eigum að hafa manndóm í okkur til að greiða atkv. á móti því, á móti allri þessari forsendu, sem meiri hluti verndargæzluráðsins nú setur fram sem þá ályktun, sem ætlazt er til að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykki.

Að síðustu, svo að ég aðeins minni á það, sem ég kom inn á í upphafi og ráðh. hafa hér verið að tala um: Ef um sögulegan rétt er að ræða, þá er sögulegur réttur Dana minni en vor. Ef um siðferðislegan rétt er að ræða, þá er siðferðislegur réttur Dana til að ráða Grænlandi enginn frekar en okkar. Sjálfsákvörðunarrétt hafa Grænlendingar aldrei haft og aldrei fengið að nota. Og viðvíkjandi því, sem hæstv. forsrh. sagði, svo að ég lykti með því, þá vil ég taka undir þau mótmæli, sem þegar hafa komið fram gegn þeirri skoðun hans, að við ættum að vera reiðubúnir til að leggja okkar landhelgismál og annað slíkt — ég vil taka undir það, sem hv. 6. landsk. þm. (FRV) sagði um það — undir alþjóðadómstól. Það er hættuleg skoðun, hættuleg fyrir líf og framtíð Íslendinga.

Hvað snertir afstöðuna um deilu Norðmanna og Dana, sem lögð var fyrir Haagdómstólinn á sínum tíma, þá hefur enginn dómur kveðið neitt upp um rétt Íslendinga í þeim efnum. Hins vegar sækjum við ekki þann rétt, hvorki til dómstólsins, sem nú er í Haag, né annarra, við sækjum þann rétt, sem verður að skapa í þessum efnum, á vettvangi alþjóða. Við sækjum hann með okkar málafylgju, með réttri málafylgju, málafylgju, sem tekur tillit bæði til þess veruleika, sem er og aðrar þjóðir viðurkenna, og til þess siðferðislega réttar, sem við viljum að komist á. Sá réttur, sem við krefjumst, er réttur grænlenzku þjóðarinnar til hennar eigin lands, til sjálfstæðis hennar í framtíðinni, og meðan sá siðferðislegi réttur er ekki viðurkenndur í reyndinni og framkvæmdur, þá er engin ástæða til þess að farga þeim sögulega rétti, sem Íslendingar kynnu að eiga fram yfir þann sögulega rétt, sem Danir byggja sín völd á, ef okkar sögulegi réttur mætti verða Grænlendingum til hjálpar til þess að öðlast sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstæði. Þess vegna lýsi ég mig eindregið fylgjandi þeirri till., sem hv. 6. landsk. þm. hefur hér borið fram, og álit, að okkar heiður liggi við, að hún verði samþykkt.