19.11.1954
Sameinað þing: 18. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (2407)

105. mál, atkvæðagreiðsla að hálfu Íslands

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð til andsvara hv. 4. þm. Reykv. Hann fullyrti, að Alþ. hefði ekkert gert til þess að rýra rétt Íslendinga til Grænlands.

Ég vil nú spyrja hann: Álítur hann, ef jafnþýðingarmikið mál og réttur Íslendinga til Grænlands er látið liggja aðgerðalaust áratug eftir áratug, að það sé ekki að rýra rétt Íslendinga til Grænlands? Eða heldur hann, að hægt sé að geyma réttar endalaust í jafnþýðingarmiklu máli og landakröfur eru, ef ekki er neitt aðhafzt?

Annars verð ég að segja, að öll ræða hv. þm. var fullkomin árás á þær stjórnir, sem nú sitja við völd í Skandinavíu. Hann hefur á allan hátt dregið í efa heiðarleik dönsku stjórnarinnar og stjórnar Noregs og Svíþjóðar, sem hafa gengið fram fyrir skjöldu bæði hér í Reykjavík og annars staðar að styðja Dani í þessu máli. Álítur hann, að þessar stjórnir mundu verja kúgun og ranglæti Dana í Grænlandi, ef um það væri að ræða? Og hver er trú hans á heiðarleik þeirra flokka, sem nú fara með stjórn í Skandinavíu, ef hann álítur, að slíkt geti komið fyrir?

Honum finnst, að við göngum ekki hreint til verks, þar sem ríkisstjórnin hefur lagt til með till., að setið verði hjá í New York. Ég skal játa það hreinskilnislega, að ég hefði heldur kosið, að það hefði verið greitt jákvætt atkvæði, og ég tók það fram í ræðu minni, að mér hefði fundizt það á allan hátt mennilegra. En sumum fannst, að ýmsir formgallar hefðu verið á framkomu Dana í þessu máli, og vildu e. t. v. láta koma fram einhvers konar vott af mótmælum um það, hvernig málin hefðu verið lögð fyrir Sameinuðu þjóðirnar.