13.10.1954
Neðri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hafði ætlað mér að gera nokkra grein fyrir þessu frv., sem er staðfesting á bráðabirgðalögum, sem gefin voru út 6. ágúst 1954, en vissi ekki, að það var á dagskrá í dag. Mér þykir hins vegar ekki ástæða til að fara fram á, að málið sé tekið út af dagskrá, vegna þess að það hefur verið gert alþjóð kunnugt með blaðaskrifum og á annan hátt, og þykist ég þá einnig vita, að allir hv. þm. séu vel kunnugir efni frv., auk þess sem svo að sjálfsögðu gefst tækifæri til að ræða einstök ákvæði þess, ef þurfa þykir, við meðferð málsins hér á hv. Alþingi.

Eins og menn muna, voru allmiklar umræður um það í lok síðasta Alþingis, að hagur togaraútvegsins væri bágur, stæði mjög höllum fæti, og að nauðsyn bæri til að gera ráðstafanir honum til viðreisnar. Af þessu tilefni var svo skipuð nefnd, sjö manna mþn., kosin af Alþingi, sem hv. 3. þm. Reykv., Björn Ólafsson, var formaður fyrir, en að öðru leyti áttu sæti í nefndinni mætir menn f.h. allra þingflokka, annarra en Þjóðvarnarflokksins. Þessi nefnd hafði eftir atvikum mjög snögg viðbrögð og gerði sér far um að hraða sem mest rannsókn á hag útvegsins og leggja sem fyrst og sem skýrust gögn fram fyrir ríkisstjórnina til rökstuðnings þeim tillögum, sem nefndin vildi gera um aðgerðir til framdráttar útveginum. Ég hygg, eins og ég segi, að það sé óþarfi að rekja hér niðurstöður af rannsókn nefndarinnar um afkomu og afkomuhorfur útvegsins, vegna þess, eins og ég áður gat um, að skýrsla nefndarinnar var send dagblöðum og útvarpi, og ýmsir meginkaflar úr þeirri skýrslu voru birtir í blöðunum og í útvarpinu, auk þess sem hverjum þeim hv. alþm., sem léki hugur á að víta meira um rannsókn þá, sem fram fór á hag útvegsins, er velkomið að fá þessa skýrslu í hendur.

Í höfuðatriðum var það skoðun nefndarinnar, að að undanförnu hefði hagur togaraútgerðarinnar versnað og þá fyrst og fremst fyrir aukinn tilkostnað og nokkuð lækkandi verðlag afurða og rénandi aflamagn, og taldi nefndin, að ef viðunandi ætti að vera, þyrfti að bæta hag útvegsins með því að leggja honum fram eða draga úr útgerðarkostnaði sem næmi tæpri milljón á ári. Nú var það skoðun nefndarinnar, að nokkuð mætti bæta hag útvegsins með því að færa niður kostnaðarliði eins og olíuverð, vátryggingagjöld, jafnvel að fá lækkuð flutningsgjöld á afurðum útvegsins og þá einkum á hraðfrystum fiski, sem hefði verið aflað á togara. Enn fremur lagði n. til, að þess yrði freistað að hækka verð á þeim fiski, sem togaraútvegurinn seldi til hraðfrystingar. Þetta þótti þó nægja skammt, og var talin nauðsyn, að ríkið legði fram beint eða óbeint verulegan styrk umfram þetta. Ég held, að ég fari rétt með það, að lækkun á kostnaði og hækkað fiskverð var áætlað að gæti numið um 250–300 þús. kr., en að öðru leyti yrðu fjárframlög að koma sjávarútveginum til framdráttar, ef hallalaus rekstur ætti að geta orðið.

Ríkisstjórnin horfðist nú í augu við það, að togararnir lágu margir hverjir og jafnvel flestir aðgerðalausir og vitað var, að þeir mundu ekki hef jast handa, nema þeim væri í einu eða öðru formi rétt hjálparhönd. Nokkrar vonir stóðu þá þegar til, — mér er nú ekki með vissu kunnugt um, hversu þær vonir hafa rætzt, — að auðið mundi reynast að lækka a.m.k. sum þeirra útgjalda, sem mþn. benti á, og enn fremur að auðið mundi reynast að hækka eitthvað fiskverðið, a.m.k. á karfa, og það hefur nú tekizt. En ríkisstj. þurfti þá að taka um það ákvarðanir, hvort hún vildi heldur una því, að þessi miklu framleiðslutæki lægju aðgerðalaus í höfnum landsins, eða gera ráðstafanir, sem hún að öðru leyti hefur talið neyðarúrræði að þurfa að grípa til, þ.e.a.s. að leggja á skatta eða tolla til þess að geta stutt þennan atvinnurekstur.

Ég hef lengst af verið meðal þeirra, sem hafa verið mjög tregir til þess að sætta sig við þá hugsun, að togaraútvegurinn væri rekinn með beinum styrk, og vita þó allir, að bæði ætti mér að vera ljós hin mikla þýðing þessa atvinnurekstrar og engin ástæða til að ætla, að ég væri ekki jafnfús, svo að ekki sé sterkara að kveðið, að rétta einmitt þeirri grein framleiðslunnar sem öðrum hjálparhönd. En eins og ég margoft hef tekið fram, þá hefur það lengst af tafið mínar aðgerðir í þeim efnum, að ég hef talið, að þegar þessi stórvirku og fullkomnu framleiðslutæki gætu ekki lengur sjálf staðið undir framleiðslukostnaði, væri svo komið um hag íslenzks atvinnurekstrar, að einhverra almennra aðgerða væri þörf. Að ég samt sem áður að þessu sinni hef átt fullan þátt í því, sem nú hefur gerzt, stafar af því, að ég gat ekki komið auga á nein önnur úrræði en þau, sem einmitt var hnigið að til þess að ýta úr vör togurunum, og um hitt þarf ég ekki að fjölyrða í þessari samkundu, að það er náttúrlega mikið neyðarúrræði, að þessi mikilvirku tæki liggi aðgerðalaus um bjargræðistímann.

Eins og frv. ber með sér, hefur ríkisstj. aðhyllzt í fyrsta lagi þá hugsun, að nú skuli í fyrsta sinn með beinum aðgerðum veittur stuðningur togaraútgerðinni, og í öðru lagi í því skyni að veita þennan stuðning gripið til þess úrræðis að leggja nýjan toll eða skatt á, eins og stendur í 1. gr.: „Að innheimta sérstakt leyfisgjald af innflutningsleyfum fyrir bifreiðum, og má gjald þetta nema allt að 100% af fob-verði bifreiðanna.“ Að þessu hefur verið hnigið og togurunum gefið fyrirheit um, að hverju skipi skuli greitt úr sjóði, sem þannig er myndaður, 2000 kr. fyrir hvern dag, sem því sannanlega er haldið úti til veiða á tímabilinu frá 1. ágúst til 31. des. 1954.

Ég hygg, án þess að staðhæfa of mikið, að óhætt sé að ganga út frá, að þessum sjóði, sem þannig er stofnaður, muni áskotnast nægjanlegt fé til þess að standa undir þeim kvöðum, sem hið opinbera hefur tekið á sig með fyrirmælum þessa frv. og fyrirheitum þeim, sem togaraútveginum voru gefin í sambandi við setningu þessara bráðabirgðalaga.

Mér þykir líklegt, að þau útgjöld, sem leiðir af frv., gætu numið um 11–12 millj. kr. á þessu tímabili, sem frv. nær til, og mér þykir sennilegt, að tekjurnar, sem sjóðnum falla vegna fyrirmæla frv., verði a.m.k. 2–4 millj. kr. meiri.

Einhver kynni kannske að álíta, að það væri nú ekki rétt að vera að leggja svo þungar kvaðir á þá, sem þessar bifreiðar eiga að fá. En hvort tveggja er, að ekki var auðið að sjá alveg fyrir fram, þegar lögin voru sett, hver yrði útgjaldaþörfin og hver yrði tekjuvonin, sem og hitt, að enginn veit, hvað framtíðin ber í skauti sínu, og vel má vera, að enn þurfi að styrkja útveginn eftir næstu áramót og að ekki takist að setja um það löggjöf svo snögglega, að ekki verði a.m.k. talið mjög æskilegt að hafa eitthvert fé til ráðstöfunar umfram það, sem þörfin kallar á vegna útgjalda þessa árs.

Ríkisstj. er allri ljóst, að þessi skattur eða þetta leyfisgjald getur bitnað mjög þunglega á jafnvel þeim, sem alls ekki eru bærir að bera mikil gjöld.

Það er náttúrlega engum vafa undirorpið, að hefði verið talið fært að gefa frjálsan innflutning á bifreiðum, eða a.m.k. lít ég þannig á, þá mundi eftirspurnin eftir bifreiðunum hafa nægt til þess að fullnægja þörfum þessa sjóðs og meira en það, jafnvel miklu meira, og þeir greitt gjöldin að mestu, sem efni hafa á því. Það, sem helzt verður talið þessari tekjuöflun til ámælis, er, að ýmsir menn, sem með illu eða jafnvel engu móti komast af án bifreiðar vegna skyldustarfa sinna annars vegar og heilsufars hins vegar, eru með þessum hætti skattlagðir þunglega, og sumir þeirra geta, eins og ég segi nauðulega undir því risið. En það var ekki margra góðra kosta völ í þessum efnum, og að þessu ráði var hnigið sem því skásta, sem stjórnin kom auga á.

Ég sé svo ekki ástæðu á þessu stigi málsins að fara um þetta fleiri orðum, en legg til, að málinu verði vísað að lokinni þessari umræðu til 2. umr. og hv. sjútvn.