17.11.1954
Sameinað þing: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (2435)

68. mál, gistihús í landinu

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mér þykir nú eiginlega ekki nema hálfköruð meðferð þessa máls hér. Ég veit ekki betur en að skipuð hafi verið n. að tilhlutun þáverandi ráðh. — ég held, að það hafi verið í ráðherratíð Hermanns Jónassonar — til þess að athuga um þessi mál, og hafi verið leitað samráðs við samtök gistihúsaeigenda, Ferðaskrifstofu og marga fleiri aðila, og allmikill efniviður frá þeirri n. liggi þegar fyrir, sem æskilegt hefði verið að þn., sem um þessi mál fjallaði, hefði haft aðstöðu til að kynna sér. Er þá og spurning, hvort hér er ekki verið að fara fram á að skipa n., sem þegar er búin að starfa fyrir nokkrum árum og liggja þegar fyrir nokkrar till. frá. Mér hefur því miður ekki gefizt kostur á því að athuga þetta nánar, en ég vil einnig taka það fram, að ég bjóst jafnframt við því, að það mundi eitthvað koma fram um þetta strax í öndverðu við meðferð málsins hér og ekki sízt eftir að málið fór til nefndar og sætti meðferð þar. Ég tel þess vegna fulla nauðsyn á því, úr því að n. hefur ekki tekið sér fyrir hendur að athuga það, að það væri athugað betur, áður en endanleg afgreiðsla þessa máls færi fram.

Í öðru lagi er það svo, að ég hafði hugsað mér að bera fram brtt. og hefði heldur óskað, að gæfist nokkurt tóm til þess. Hv. allshn. hefur lagt til, að það eigi að fara fram athugun á gistihúsaþörf í landinu og undirbúa í samráði við Ferðaskrifstofu ríkisins fyrir næsta reglulegt Alþingi tillögur. Ja, ég leyfi mér nú að segja, vegna hvers sérstaklega í sambandi við Ferðaskrifstofu ríkisins? Það eru margar aðrar ferðaskrifstofur hér í landinu. Það er samband, víðtækt samband veitingamanna og gistihúsaeigenda hér í landi, og það er nýstofnað áhugamannafélag í ferðamálum. Hefði ég þess vegna viljað leggja til og mundi gera það í skriflegri till., ef ekki gæfist kostur til frests, að fleiri aðilar væru þarna tilnefndir, úr því að á annað borð var farið að nefna nokkra aðila sérstaklega, því að að sjálfsögðu hefði ríkisstj. í sambandi við þá athugun, sem aðaltill. fór fram á, getað leitað samráðs við Ferðaskrifstofu ríkisins og alla þessa aðila, og hefði ekki verið nema eðlileg meðferð málsins. Brtt. frá n. finnst mér því lítils virði og naumast mega standa öðruvísi en að hún sé þá útfærð nánar og bent á marga fleiri aðila, sem engu síður ættu að eiga hér hlut að máli en þessi blessaða Ferðaskrifstofa ríkisins, sem hefur nú notið þeirrar miklu náðar að verða sérstaklega tilgreind.

Ég leyfi mér þess vegna að óska eftir því fyrst og fremst, að málinu verði frestað, til þess að nánari athugun fari fram á fyrri meðferð þessa máls, skipun og störfum nefndar, sem mun ekki vera nema eins eða tveggja ára gömul, kannske tveggja ára í hæsta lagi, — en ef ekki yrði við því orðið, þá gæfist mér kostur til að leggja fram skriflega brtt.