06.12.1954
Neðri deild: 27. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (2445)

47. mál, gistihús á Þingvöllum

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samgmn. hefur rætt þetta mál allýtarlega og leitað álits um till. hjá þremur aðilum, sem hún taldi að sérstaklega hefðu hagsmuna að gæta í sambandi við afgreiðslu málsins, þ. e. hjá Þingvallanefnd Sambandi veitinga- og gistihúsaeigenda og hjá Ferðaskrifstofu ríkisins. Allir þessir aðilar hafa talið, að brýna nauðsyn bæri til þess að byggja myndarlegt veitinga- og gistihús á Þingvöllum og að hér væri um þjóðþrifamál að ræða, sem snúast bæri að hið fyrsta.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða fyrir hönd n. um málið. Meiri hl. hennar leggur til, að till. verða samþ. óbreytt og telur nauðsynlegt að á henni sé jafnákveðið orðalag og hún upprunalega bar með sér, þannig að í ljós komi alveg hiklaus og ótvíræður vilji Alþingis til þess, að í raunhæfar framkvæmdir verði ráðizt í þessum efnum.

Hv. minni hl. n. hefur hins vegar talið rétt að orða till. nokkuð óákveðnar, og skal ég ekki gera þá brtt. að umtalsefni, sem þeir hafa flutt, hv. þm. V-Ísf. og hv. þm. Dal. En ég hygg, að ég geti sagt fyrir hönd n. allrar, að hún hafi skilning á nauðsyn þess, að upp verði komið veitingahúsi á Þingvöllum, sem sé þannig búið, að samboðið sé virðingu staðarins og þörf þjóðarinnar.

Það er alveg áreiðanlegt, að í hugum Íslendinga á enginn staður meira rúm en Þingvellir. Til einskis staðar á Íslandi utan höfuðborgarinnar koma fleiri menn, innlendir og erlendir, á ári hverju. Það er hins vegar staðreynd, að þar er mjög ófullkomið og lélegt veitingahús, sem engan veginn fullnægir þeim þörfum, sem fyrir hendi eru, þó að það sé rekið af vel hæfum og dugandi mönnum. Það var þess vegna álit okkar flm., — og ég held, að það sé álit n. í heild, þó að nokkur hluti hennar flytji brtt. við hina upprunalegu till., — að nauðsyn beri til þess, að úr þessum gistihússkorti á Þingvöllum verði bætt og þar rísi á næstunni vel búið gistihús af hóflegri stærð, sem samsvari þeim kröfum, sem gera verður til slíkra stofnana í landi, sem vill telja sig setið og byggt af menningarþjóð.