13.10.1954
Neðri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Emil Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvmrh. lagði þetta mál nú þannig fyrir hér í upphafi við þessa umr., að mér skildist á honum, að hann ætlaðist ekki til þess, að um þetta yrðu hafðar neinar sérstakar almennar umræður, þ.e. um það vandamál í heild, sem hér liggur fyrir, afkomu togaranna heldur hefði hann gert ráð fyrir að geta tekið það í heild síðar. En hér hefur nokkuð verið rætt um málið á við og dreif, og skal ég þá aðeins láta nokkur orð fylgja frá mínu sjónarmiði, án þess að fara langt út í það.

Því hefur verið lýst hér af mörgum, sem talað hafa, að niðurstaða togaranefndarinnar varð sú, að til þess að jafna metin með öllu óbreyttu frá 1953 þyrfti um 650 þús. kr. á meðaltogara. Með 300 þús. kr. hækkun á launum, eins og n. gerði líka ráð fyrir, þyrfti að hækka þessa tölu upp í 950 þús., og ef kauphækkunin hefur numið í kringum 400 þús. kr., eins og allar líkur eru nú taldar til, þá vantar um 1050 þús. kr. til þess, að jöfnuður væri á rekstri meðaltogara, að öllu óbreyttu um aflamagn og útgjöld og þess háttar.

Þær tillögur, sem uppi voru í nefndinni, voru margar og mjög mismunandi að því leytinu fyrst og fremst, hvað þær gátu gefið mikið í aðra hönd, og verður ekki um það deilt, að sú till., sem hér hefur verið flutt af hæstv. ríkisstj., er sú tillagan, sem mestu munar fjárhagslega,

þar sem, þó að þessar ráðstafanir gildi ekki nema síðari hluta ársins, ef miðað er við árið, þá þýddu þær með segjum um 320 daga úthaldi, sem mun vera nálægt meðallagi eftir þeim reikningum, sem við fengum, um 640 þús. kr., svo að maður haldi sig við ársreikninginn, og er það um það bil 2/3 hlutar eða upp undir 2/3 hlutar af því, sem vantar til að ná jöfnuði. En jöfnuður er ekki fenginn fyrir þessu, og undan því veit ég að útgerðarmenn hafa kvartað og út af því tel ég að þeir hafi orðið fyrir nokkrum vonbrigðum, að ríkisstj. hefur ekki treyst sér til að fara út í frekari aðgerðir en í þessu eina atriði. Það er rétt að vísu, eins og forsætisráðherra sagði hér áðan, að karfi hefur hækkað í verði um 5 aura, en það eru líka allar þær breytingar, sem orðið hafa mér vitanlega, aðrar en þessi bílaskattur.

Í nefndinni voru aftur til umræðu ýmsar aðrar tillögur. Ég skal leyfa mér að nefna t.d. tillögur um lækkun á vátryggingariðgjöldum, sem talið var að mundi vera hægt að gera með hóptryggingum eða ef togararnir gætu komið sér saman, lækkun á vöxtum, sem talið var mjög eðlilegt að togararnir fengju niður í sama vaxtafót og vélbátarnir fá af sínum rekstrarlánum, en rekstrarlán togaranna munu nú vera talsvert hærri, lækkun á farmgjöldum, sem enn var talið mögulegt að lækka verulega, það var talað um í n. allt að 10% eða eitthvað þess háttar, kannske meira, og munu vera möguleikar til þess að fá það gert, ef fast er fylgt ettir. Enn má nefna lækkun á olíuverði og loks, sem kannske aðalþýðinguna mundi hafa, hækkun á hráefnisverði því, sem frystihúsin greiða fyrir fiskinn, sem þau kaupa. Það er vitað, að hraðfrystihúsin hafa á þessu ári haft miklu meira magn til frystingar heldur en þau nokkru sinni hafa haft áður og að allur fastakostnaður kemur því á miklu meiri umsetningu en þeir reikna með í sínum áætlunum. Þess vegna áttu að vera möguleikar til að hækka a.m.k. hráefnisverðið þann hluta ársins, sem eftir var, þegar um þessa hluti var rætt í nefndinni.

Það má kannske segja, að ríkisstj. eigi ekki að hafa forgöngu um lausn þessa máls, þetta sé mál, sem snerti fyrst og fremst togaraeigendur sjálfa. Ég hygg þó, að málum hafi skipazt þannig, að þeir hafi ekki talið sér mögulegt að koma þessu í framkvæmd, útgerðarmennirnir, án þess að ríkisstj. veitti þeim styrk og stoð í því efni. En sem sagt: Niðurstaðan hefur eingöngu orðið sú, að verðið á karfa hefur hækkað um 5 aura og bifreiðaskattur hefur verið lagður á með 2 þús. kr. framlagi á hvern úthaldsdag togara, sem er náttúrlega, eins og ég sagði, mjög veigamikil hjálp, svo langt sem hún nær, en hún bara nær ekki til þess að fylla alveg upp í það skarð, sem þarna er, eða til að brúa það bil, sem er á milli tekna og gjalda.

Ég hef leyft mér að flytja hér nokkrar till., sem fram hafa komið í n. og ekki hafa verið fluttar á Alþingi áður. Hins vegar hef ég ekki flutt þær till., sem hér voru bornar fram í fyrra og snerta þetta mál, að svo stöddu. Þær voru reyndar líka ræddar í togaranefndinni, og ef þær verða ekki bornar fram bráðlega, þá geri ég ráð fyrir því, að ég muni bera þær fram sem viðaukatillögur við mínar tillögur. En um þáltill. vil ég ekki ræða á þessu stigi málsins, hún liggur ekki fyrir nú, en hefur aðeins fléttazt inn í málið, sem hér liggur fyrir.

Ég vil aðeins segja að lokum, að þetta frv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir, er hjálp — og hún góð það sem hún nær — en hún er engan veginn fullnægjandi, og það þarf að gera einhverjar ráðstafanir til þess að fylla það bil, sem þrátt fyrir þessar ráðstafanir er enn ófyllt á milli tekna og gjalda togaranna.