13.12.1954
Sameinað þing: 26. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (2456)

118. mál, Norður-Atlantshafssamningurinn

Frsm. 1. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í till. þessari felst, að Íslendingar samþykki fyrir sitt leyti, að Sambandslýðveldið Þýzkaland verði aðili að Atlantshafsbandalaginu. Hin vestrænu stórveldi, sem áttu í stríði við Þýzkaland, hafa nú í hyggju að semja við það frið og viðurkenna fullveldi þess, en í kjölfar endanlegrar fullveldisviðurkenningar mundi að sjálfsögðu sigla réttur þess til endurvígbúnaðar. Íslendingar eru ekki aðilar að neinum samningi um þessi efni. Spurningin um það, hvort leyfa eigi Þjóðverjum endurvígbúnað eða ekki, hefur aldrei komið og kemur aldrei til kasta Íslendinga. Ýmislegt, sem sagt hefur verið um þessa till. á fyrra stigi málsins, er því efni hennar í sjálfu sér óviðkomandi. Það, sem Íslendingar þurfa að taka ákvörðun um, er, hvort þeir eiga að játa því eða neita, að Sambandslýðveldið Þýzkaland verði, að fengnu sjálfstæði og eftir að það hefur komið sér upp nokkrum her í samkomulagi við nágranna sína í Vestur-Evrópu, aðili að Atlantshafsbandalaginu.

Alþfl. telur það æskilegt, að Vestur-Þýzkaland sé, er það hefur fengið fullt sjálfstæði, í sem nánustum tengslum við hin vestrænu lýðræðisríki, sem Ísland telur sig til. Ef komið verður á fót þýzkum her, en það er mál, sem Íslendingar hafa engin áhrif á, telur Alþfl. einnig æskilegt, að það gerist í sem nánustu samstarfi við nágrannaríki þess í Vestur-Evrópu og innan þeirra vébanda, sem varnarsamtökum hinna vestrænu lýðræðisríkja eru sett. Þess verður þó að gæta, að þetta mál snertir fyrst og fremst þjóðirnar í Vestur-Evrópu, en ekki Íslendinga. Eðlilegast er því, að þær taki sínar ákvarðanir fyrst og Íslendingar síðan sínar á eftir. Ríkisstj. virðist hins vegar vilja hafa annan hátt á. Hún vill, að Íslendingar segi sitt orð áður en aðalmálsaðilarnir hafa talað. Hún fór eins að, þegar sáttmálinn um Evrópuherinn var á döfinni. Hún vildi láta fullgilda þá sáttmála, sem að Íslandi lutu, áður en aðalmálsaðilarnir höfðu gert það. Allir vita, hvernig fór. Evrópuherinn fæddist aldrei.

Alþfl. telur ástæðulaust að fara þannig að nú. Hann telur rétt, að beðið sé eftir því, að ríkin, sem málið snertir fyrst og fremst, segi sitt orð. Það er til þess þeim mun meiri ástæða nú, sem allra síðustu fregnir benda til þess, að nýir erfiðleikar séu að koma í ljós á meginlandi Evrópu að því er varðar framkvæmd þessa máls.

Jafnaðarmenn í Þýzkalandi hafa nýlega myndað fylkisstjórn í Bæjaralandi í stað kristilegra demókrata og þar með svipt kristilega demókrata, flokk forsætis- og utanríkisráðherrans, 2/3 hluta meiri hluta sínum í efri deild þýzka sambandsþingsins, en þingmenn þar eru valdir af fylkisstjórnunum, en ekki kjörnir.

Það er alkunna, að í Þýzkalandi eru mjög skiptar skoðanir um endurvígbúnaðarmálið, einkum og sér í lagi vegna mismunandi skoðana um það, hvaða leið sé vænlegust til þess að flýta fyrir sameiningu landsins, sem flestir Þjóðverjar þrá, sem von er. Þýzkir jafnaðarmenn eru eindregnir andstæðingar þeirra samninga, sem hér er um að ræða, þar eð þeir óttast, að þeir muni koma í veg fyrir það um ófyrirsjáanlegan tíma, að Þýzkaland verði sameinað.

Hraðinn, sem hæstv. ríkisstj. vill hafa á afgreiðslu málsins, er því óeðlilegur og óskynsamlegur. Það var 7. des., sem fyrri umr. um þetta mál fór fram hér í hinu háa Alþ., 11. des. var knúin fram á því afgreiðsla í utanrmn., og nú 13. des. virðist eiga að afgreiða það á fundi hér í Sþ. Alþfl. telur ótímabært að afgreiða málið nú og mun því ekki greiða atkv. um till.