13.10.1954
Neðri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Þær ræður, sem hafa verið fluttar hér frá því að ég lauk minni stuttu framsöguræðu, gefa ekki tilefni til langra skýringa af minni hendi.

Út af því, sem hv. 8. þm. Reykv. spurðist fyrir um, vil ég upplýsa þetta: Það er rétt, að nefndin lauk raunverulega ekki störfum. Ástæðan mun hafa verið sú, svo að engu sé nú leynt, að ég hlutaðist til um það við formanninn, að hann færi ekki að bera fram tillögur, fyrr en ég sæi eitthvað fram á, hvernig ríkisstj. í heild mundi taka undir þær tillögur. Mér þótti óþægilegra að fá tillögur frá nefndinni, a.m.k. aðrar en þær, sem ég hafði einhverja hugmynd um að maður gæti þá staðið saman um, og ég átti þess vegna minn þátt í því, að tillögur komu ekki endanlega fram. Ég vissi hins vegar vel, hverju fram vatt í nefndinni, og ég hygg, að ég megi segja það, — og svara þar með annarri fsp. hv. 8. þm. Reykv., — að í aðalefnum var orðið samkomulag milli manna að öðru leyti en því, að það er rétt, sem hefur komið fram, bæði hjá hv. 11. landsk. og hv. 5. landsk., að sumir vildu ganga lengra, en aðrir skemmra í minni háttar atriðum umfram þær ráðstafanir, sem mestu máli skipta og gerðar hafa verið.

Hv. 8. þm. Reykv. spurði enn fremur um, hvort ég teldi þær aðgerðir nægjanlegar, sem nú hefðu verið gerðar. Ég tel það, að svo miklu leyti sem miðað er við það tímabil, sem þær gilda fyrir. Ástæðan til þess, að við vildum ekki í ríkisstj. binda hendur okkar til lengri tíma, var fyrst og fremst sú, að okkur þótti betur sæma, hvað sem við nú kunnum að hafa álitið um áframhaldandi þörf í þessum efnum, úr því að til stóð, að Alþingi kæmi saman, svo sem nú er orðið, snemma í október, að leggja málið í hendur þingsins heldur en ákveða sjálfir lengra fram í tímann en nauður rak til út frá þessu sjónarmiði. Um það, hvort þessar aðgerðir verða að teljast nægjanlegar, hafa menn nú gleggri hugmyndir, áður en þessu ári er lokið, og hæstiréttur, sem um það á að dæma, er nú viðstaddur, og stjórnin mun að sjálfsögðu leggja málið í hans hendur, þó að hún muni hafa um það sínar skoðanir, hvað þurfa þykir, og þá fylgjast með, hvað þingið gerir í málinu, og á venjulegan hátt hafa áhrif á þetta mál svo sem önnur, sem fyrir þinginu liggja og máli skipta, eftir því sem föng standa til og hennar skoðanir hvetja til.

Með þessu hef ég svarað fyrirspurnum hv. 8. þm. Reykv. og að nokkru leyti einnig vikið að því, sem hv. 11. landsk. sagði. Það er að sönnu alveg rétt, sem komið hefur fram og hann einnig í ræðu sinni vék að, að það komu fram fleiri till. en sú, sem nú hefur verið hnigið að að koma í framkvæmd með þessu frv. En ríkisstj. taldi ekki ástæðu til þess, að hún milli þinga gerði þær ráðstafanir, sem þær till. fjölluðu um, með því að stjórnin taldi sitt hlutverk vera að gera sem einfaldastar ráðstafanir, er nægja mættu til þess að leysa þann vanda, sem fyrir dyrum stóð, ef togaraútgerðin hefði stöðvazt og togararnir legið í höfnum lengur en þegar var orðið og allir að sjálfsögðu hörmuðu.

Ég vil hins vegar af tilefni því, sem hv. II. landsk. gaf, benda á tvennt. Það er auðvitað rétt, sem hann sagði, að áætlun um auknar tekjuþarfir togaraútgerðarinnar og þörf þeirra jafnframt fyrir lækkaðan tilkostnað miðaðist við það, að kaupgjald á skipunum mundi hækka um 300 þús. kr. á ári. Nú hefur það verið a.m.k. mín skoðun, — ég játa það hreinskilnislega og sagði það í lok síðasta þings, — að togarahásetar bæru orðið allt of lítið úr býtum miðað við aðrar stéttir þjóðfélagsins, miðað við hina erfiðu vinnu, sem þeir oft og einatt hafa við hin þýðingarmiklu störf, sem þeir stunda. Hins vegar hef ég ekki getað gert mér eða haft ástæðu til að reyna að gera mér fyllilega grein fyrir, hve þörfin í þessum efnum væri mikil. Í n. áttu hins vegar sæti ýmsir útgerðarmenn, og þar á meðal alþm. úr þremur þingflokkanna, allir nákunnugir þörfunum ekki síður en ég, og þeirra áætlun hné að því, að það þyrfti 300 þús. kr. til þess að ráða bót á því, sem miður fór í þessum efnum. Ef reyndin er sú, að útgerðarmenn hafi nú greitt 500 þús. kr. í staðinn fyrir 300 þús. kr., þá tel ég, að þeir hljóti að vita það betur um eigin hag en mþn. vissi, að þeir telji sig hafa ráð á að gjalda 500 þús. í staðinn fyrir 300 þús. Auðvitað nær það ekki nokkurri átt, ef mþn. kynnir sér hagsmuni útgerðarinnar og kemst að slíkri niðurstöðu sem þessi nefnd gerði annars vegar og hins vegar útgerðarmönnum er kunnugt um þær niðurstöður og hafa ekki séð neina ástæðu til þess að vefengja þær, að útgerðarmenn auki um 66% einn útgjaldaliðinn og ætli sér svo að koma til Alþingis og senda þinginu eða ríkissjóði reikning í þessum efnum. Slíkt mætti ekki lukku stýra, og skal ég þó manna fyrstur viðurkenna það, sem ég áðan tók fram, að ég hygg, að það hafi verið bein rangsleitni ríkjandi um kaupgjald til togarasjómanna. Ég fer hins vegar ekki dult með það, án þess að ég hafi kynnt mér það mál sérstaklega, að ég lít auðvitað allt öðrum augum á það, hvort hæst launuðu yfirmenn á togurunum hafa sömu þörf fyrir kauphækkun eða sama rétt til kaupbóta eins og hásetarnir og þeir lægst launuðu.

Hitt atriðið, sem ég vildi víkja að úr ræðu hv. 11. landsk., er það, að mér fannst gæta nokkurs misskilnings hjá honum, þegar hann var að ræða um hinn mikla hag, sem ríkissjóður hefði beinlínis vegna þess, að gerðar hefðu verið ráðstafanir til þess að bæta afkomu útvegsins. Auðvitað er það rétt, að ríkissjóður hefur vissan hluta af innflutningsgjöldum á bifreiðum, en það er jafnrétt, að bifreiðar hefðu verið fluttar inn, hvort sem þetta leyfisgjald, sem fellur togurunum, hefði verið lagt á eða ekki. Spurningin var þá eingöngu sú, hvort það hefði þótt rétt, að vegna þess að lagður er nýr skattur á almenning í þessum efnum, þá leiði af því, að réttlátt sé að svipta ríkissjóð þessum tekjum, svo að sá sjóður, sem hér er verið að mynda, megi aukast af þeim ástæðum.

Hv. 5. landsk. sagði, að jöfnuður væri ekki fenginn með þessum tillögum stjórnarinnar á rekstrarafkomu togaranna. Það kann að vera rétt. En engum er betur kunnugt en einmitt honum um það, að sjálf nefndin gerði ráð fyrir, að þessi rekstrarjöfnuður kæmist á með því móti, að annars vegar yrði visst framlag af hendi hins opinbera útveginum til framdráttar, en hins vegar yrðu gerðar ráðstafanir til sparnaðar á vissum útgjaldaliðum útvegsins, og sjálfur hefur hv. þm. í sinni þáltill. á þskj. 35 einmitt bent á, hvers konar sparnaðartillögur væri um að ræða. Ég veit einnig, að jafnsanngjarn maður játar, að það er ekki nema eðlilegt, að dugmikil stétt, eins og útgerðarmennirnir eru, eigi sjálf að hafa forustu um að lækka sína útgjaldaliði og hækka sínar tekjur samkvæmt þeim tillögum, sem þar eru fram bornar, og ekki ætlast til þess, að þeir séu mataðir eins og hvítvoðungar af ríkisvaldinu. Ég get hins vegar ekki neitað því, að það er rétt, að um sumt af þeim tillögum, sem um er að ræða, kann ríkisvaldið að geta haft áhrif til góðs og útgerðinni til framdráttar, enda hefur ríkisstj. boðið það og réð einmitt í þeim efnum útgerðinni til stuðnings einn sinn ágætasta mann, sem hefur verið reiðubúinn að ræða hagsmunamál útgerðarinnar með útgerðarmönnum við þá aðila, sem hér eiga hlut að máli.

Ég hygg mig mega segja, að af þeim 5 liðum, sem sérstaklega voru nefndir, er, eins og hv. 5. landsk. benti á, búið nú þegar að hafa nokkurn ávinning af hækkun á verðiagi á karfa. Auk þess er það staðreynd, ef é; veit rétt, að olía hefur verið lækkuð í verði.

Ég vildi svo láta máli mínu lokið með því að gera það, sem mér láðist áðan, að færa þeirri n., sem vann að þessu máli, þakkir fyrir það, hversu ötullega hún gekk að sínu starfi. Ég hygg það sé fremur sjaldgæft, að mþn., sem tekur að sér rannsókn á ákaflega stórvægilegu atvinnu- og fjármáli, gangi jafnfljótt og örugglega að sínu starfi og skili í aðalatriðum jafngreinargóðum skýrslum og þessi n. hefur gert. Ég vil þess vegna hér á Alþingi leyfa mér að færa bæði hv. form. n. og öllum þeim, sem með honum hafa unnið, þakkir fyrir vel unnin störf og skynsamlegar till., sem þó auðvitað eins og allt annað standa til bóta, ef Alþ. vill á þeim breytingar gera,enda á nú að vera góður tími til þess, og hver getur þá lagt gott af mörkum, eftir því sem hann álitur skynsamlegt og hefur hugkvæmni til.